1. Pétursbréf 1:1–25
1 Frá Pétri, postula Jesú Krists, til þeirra sem búa tímabundið í þessum heimi og eru dreifðir um Pontus, Galatíu, Kappadókíu, Asíu og Biþýníu, þeirra sem eru útvaldir
2 samkvæmt því sem Guð faðirinn hafði í huga. Hann helgaði ykkur með andanum til að þið yrðuð honum hlýðin og hreinsuðust með blóði Jesú Krists.
Megið þið njóta einstakrar góðvildar Guðs og friðar í enn ríkari mæli.
3 Lofaður sé Guð og faðir Drottins okkar Jesú Krists því að hann lét okkur endurfæðast til lifandi vonar í mikilli miskunn sinni með því að reisa Jesú Krist upp frá dauðum.
4 Hann gaf okkur þar með arfleifð sem hvorki eyðist, spillist né fölnar. Hún er geymd á himnum handa ykkur
5 sem kraftur Guðs verndar af því að þið trúið. Hann verndar ykkur til að þið hljótið frelsun sem opinberast á síðustu tímum.
6 Þess vegna gleðjist þið mjög þó að þið þurfið að þola ýmsar prófraunir núna um stuttan tíma.
7 Það er til þess að trú ykkar, sem hefur verið reynd, verði ykkur til lofs og dýrðar og heiðurs þegar Jesús Kristur opinberast. Hún er miklu verðmætari en gull sem eyðist þótt það sé reynt* í eldi.
8 Þið hafið aldrei séð Jesú en elskið hann þó. Þið sjáið hann ekki núna en trúið samt á hann og fyllist dýrlegri og ólýsanlegri gleði
9 þegar þið náið takmarki trúar ykkar og frelsist.*
10 Spámennirnir spáðu um þá einstöku góðvild sem var ætluð ykkur og spurðust nákvæmlega fyrir um þessa frelsun og rannsökuðu hana vandlega.
11 Þeir könnuðu vel til hvaða tíma eða tíðar andinn innra með þeim benti varðandi Krist þegar hann vitnaði fyrir fram um þjáningar hans og dýrðina sem kæmi á eftir.
12 Þeim var opinberað að þeir þjónuðu ekki í eigin þágu heldur ykkar. Þeir veittu ykkur það sem ykkur hefur nú verið kunngert og þið heyrðuð frá þeim sem boðuðu ykkur fagnaðarboðskapinn með heilögum anda frá himni. Inn í þetta þrá jafnvel englarnir að skyggnast.
13 Styrkið því hugi ykkar til verka og hugsið skýrt. Bindið von ykkar við þá einstöku góðvild sem ykkur verður sýnd við opinberun Jesú Krists.
14 Verið eins og hlýðin börn og látið ekki lengur mótast af þeim löngunum sem þið höfðuð áður vegna vanþekkingar ykkar.
15 Verðið heldur heilög í allri hegðun eins og hinn heilagi sem kallaði ykkur
16 því að skrifað er: „Þið skuluð vera heilög því að ég er heilagur.“
17 Gangið fram í guðsótta meðan þið dveljið í þessum heimi fyrst þið ákallið föðurinn sem dæmir án hlutdrægni eftir verki hvers og eins.
18 Þið vitið að þið voruð ekki frelsuð* með forgengilegum hlutum, með silfri eða gulli, frá innantómu líferni sem þið tókuð í arf frá forfeðrum* ykkar,
19 heldur með dýrmætu blóði Krists sem er eins og blóð lýtalauss og óflekkaðs lambs.
20 Vissulega var hann útvalinn fyrir grundvöllun heims en hann var opinberaður við lok tímanna ykkar vegna.
21 Fyrir atbeina hans trúið þið á Guð sem reisti hann upp frá dauðum og veitti honum dýrð svo að trú ykkar og von beinist að Guði.
22 Með því að hlýða sannleikanum hafið þið hreinsað ykkur* og sýnið þess vegna hræsnislausa bróðurást. Elskið hvert annað af öllu hjarta
23 því að þið eruð endurfædd vegna orðs hins lifandi og eilífa Guðs, ekki með forgengilegu sáðkorni heldur óforgengilegu.*
24 Skrifað stendur: „Allir menn eru* eins og gras og allur ljómi þeirra eins og blóm á engi. Grasið visnar og blómið fellur
25 en orð Jehóva* varir að eilífu.“ Og þetta „orð“ er fagnaðarboðskapurinn sem ykkur var boðaður.
Neðanmáls
^ Eða „hreinsað“.
^ Eða „sálir ykkar frelsast“.
^ Orðrétt „endurleyst; keypt laus“.
^ Eða „tókuð í arf samkvæmt erfðavenjum“.
^ Eða „sálir ykkar“.
^ Það er, sáðkorni sem getur tímgast eða borið ávöxt.
^ Orðrétt „Allt hold er“.
^ Sjá orðaskýringar.