Filippíbréfið 1:1–30

  • Kveðjur (1, 2)

  • Páll þakkar Guði; bæn hans (3–11)

  • Andstaða hindrar ekki framgang fagnaðarboðskaparins (12–20)

  • Að lifa er fyrir Krist, að deyja er ávinningur (21–26)

  • Að hegða sér eins og sæmir fagnaðarboðskapnum (27–30)

1  Frá Páli og Tímóteusi, þjónum Krists Jesú, til allra hinna heilögu í Filippí sem eru sameinaðir Kristi Jesú, þar á meðal til umsjónarmanna og safnaðarþjóna.  Megi Guð faðir okkar og Drottinn Jesús Kristur sýna ykkur einstaka góðvild og veita ykkur frið.  Ég þakka Guði mínum alltaf þegar ég hugsa til ykkar  í innilegum bænum mínum fyrir ykkur öllum. Í hvert sinn sem ég bið fyrir ykkur geri ég það með gleði  vegna þess sem þið hafið lagt fram til að efla fagnaðarboðskapinn* allt frá fyrsta degi.  Ég treysti að þegar dagur Krists Jesú kemur ljúki Guð því góða verki sem hann hóf meðal ykkar.  Ég hef fulla ástæðu til að hugsa þannig um ykkur öll því að þið eruð mér hjartfólgin, þið sem njótið einstakrar góðvildar Guðs ásamt mér, bæði hvað varðar fjötra mína og eins við að verja fagnaðarboðskapinn og staðfesta með lögum réttinn til að boða hann.  Guð er til vitnis um að ég þrái að sjá ykkur öll og ég elska ykkur jafn innilega og Kristur Jesús.  Ég bið þess stöðugt að kærleikur ykkar vaxi jafnt og þétt ásamt nákvæmri þekkingu og góðri dómgreind 10  svo að þið getið metið hvað sé mikilvægt. Þá verðið þið hrein allt til dags Krists og verðið ekki öðrum til hrösunar, 11  og þið fyllist ávexti réttlætisins með hjálp Jesú Krists, Guði til lofs og dýrðar. 12  Nú vil ég að þið vitið, bræður og systur, að aðstæður mínar hafa í rauninni orðið fagnaðarboðskapnum til framdráttar. 13  Það er orðið alkunnugt meðal lífvarðarsveitar keisarans og allra annarra að ég er í fjötrum vegna Krists. 14  Flest bræðranna og systranna í þjónustu Drottins hafa styrkst vegna fjötra minna, orðið hugrakkari og boða orð Guðs óttalaust. 15  Sumir boða Krist að vísu sökum öfundar og metings en aðrir gera það af góðum hvötum. 16  Hinir síðarnefndu boða Krist af kærleika því að þeir vita að mér hefur verið falið að verja fagnaðarboðskapinn 17  en hinir fyrrnefndu gera það ekki af hreinum hvötum heldur til að koma af stað deilum. Þeir vilja valda mér erfiðleikum í fjötrum mínum. 18  Til hvers hefur það leitt? Til þess eins að Kristur er boðaður, hvort sem það er af réttum hvötum eða röngum. Það gleður mig og ég ætla að gleðjast áfram 19  því að ég veit að innilegar bænir ykkar og stuðningurinn sem andi Jesú Krists veitir okkur verður til þess að ég fæ frelsi. 20  Ég treysti og vona að ég þurfi ekki að skammast mín á nokkurn hátt heldur að ég geti talað óttalaust svo að Kristur verði upphafinn nú eins og áður vegna mín,* hvort heldur með lífi mínu eða dauða. 21  Ef ég lifi er það fyrir Krist en ef ég dey er það mér ávinningur. 22  Ef ég lifi áfram sem maður* verður meiri árangur af starfi mínu, en ég segi ekki hvort ég myndi velja. 23  Þetta tvennt togast á í mér. Mig langar til að losna héðan og vera með Kristi sem er auðvitað miklu betra. 24  En ykkar vegna er mikilvægara að ég lifi áfram sem maður. 25  Ég treysti því og veit að ég lifi og verð áfram með ykkur öllum til að stuðla að því að þið takið framförum og gleðjist í trúnni. 26  Þá getið þið sem fylgjendur Krists Jesú fagnað innilega vegna mín þegar ég kem til ykkar* aftur. 27  En hegðið ykkur* eins og sæmir fagnaðarboðskapnum um Krist, hvort sem ég kem og heimsæki ykkur eða ekki,* svo að ég fái að heyra að þið standið stöðug í einum anda og einni sál,* berjist hlið við hlið fyrir trúnni á fagnaðarboðskapinn 28  og látið andstæðingana aldrei hræða ykkur. Það er í sjálfu sér sönnun þess að þeir farast en þið bjargist og það er Guð sem sýnir fram á það. 29  Þið hafið ekki aðeins fengið þann heiður að trúa á Krist heldur einnig að þjást fyrir hann. 30  Þið eigið í sömu baráttu og þið sáuð mig heyja og þið heyrið að ég heyi hana enn.

Neðanmáls

Eða „gert í þágu fagnaðarboðskaparins“.
Orðrétt „með líkama mínum“.
Orðrétt „í holdinu“.
Eða „verð hjá ykkur“.
Eða „ykkur aðeins sem ríkisborgarar“.
Orðrétt „er fjarverandi“.
Eða „og sameinuð“.