Opinberunarbókin 5:1–14
5 Í hægri hendi hans sem sat í hásætinu sá ég bókrollu. Skrifað var á hana báðum megin* og hún var vandlega innsigluð með sjö innsiglum.
2 Og ég sá sterkan engil sem kallaði hárri röddu: „Hver er þess verður að opna bókrolluna og rjúfa innsigli hennar?“
3 En enginn á himni, á jörð eða undir jörðinni var fær um að opna bókrolluna og sjá hvað stóð í henni.
4 Ég grét hástöfum af því að enginn var þess verður að opna bókrolluna og sjá hvað stóð í henni.
5 En einn af öldungunum sagði við mig: „Ekki gráta. Sjáðu, ljónið af ættkvísl Júda, rót Davíðs, hefur sigrað og getur því opnað bókrolluna og rofið innsiglin sjö.“
6 Nú sá ég lamb, sem virtist hafa verið slátrað, standa fyrir miðju hásætinu og frammi fyrir lifandi verunum fjórum með öldungana í kring. Það hafði sjö horn og sjö augu en augun tákna sjö anda Guðs sem hafa verið sendir út um alla jörðina.
7 Lambið gekk samstundis fram og tók við bókrollunni úr hægri hendi hans sem sat í hásætinu.
8 Þegar lambið tók við bókrollunni féllu verurnar fjórar og öldungarnir 24 fram fyrir því. Þeir höfðu hver um sig hörpu og gullskálar sem voru fullar af reykelsi. (Reykelsið táknar bænir hinna heilögu.)
9 Þeir syngja nýjan söng: „Þú ert þess verður að taka við bókrollunni og rjúfa innsigli hennar því að þér var slátrað og með blóði þínu keyptirðu fólk handa Guði af hverjum ættflokki, tungu,* kynþætti og þjóð.
10 Þú gerðir þetta fólk að konungsríki og prestum Guðs okkar og það á að ríkja sem konungar yfir jörðinni.“
11 Nú sá ég fjölda engla og heyrði raddir þeirra. Þeir stóðu hringinn í kringum hásætið, lifandi verurnar og öldungana, og tala þeirra var tugþúsundir tugþúsunda og þúsundir þúsunda.
12 Þeir sögðu hárri röddu: „Lambið sem var slátrað er þess verðugt að fá máttinn og hljóta auð, visku og kraft, heiður, dýrð og lof.“
13 Og ég heyrði allar sköpunarverur á himni, á jörð, undir jörðinni og á hafinu, já, allt sem þar er, segja: „Honum sem situr í hásætinu og lambinu sé lofgerðin, heiðurinn, dýrðin og mátturinn um alla eilífð.“
14 Lifandi verurnar fjórar sögðu: „Amen!“ og öldungarnir féllu fram og tilbáðu Guð.