Matteus 13:1–58

  • DÆMISÖGUR UM RÍKI GUÐS (1–52)

    • Akuryrkjumaðurinn (1–9)

    • Ástæða þess að Jesús kenndi með dæmisögum (10–17)

    • Útskýrir dæmisöguna um akuryrkjumanninn (18–23)

    • Hveitið og illgresið (24–30)

    • Sinnepsfræið og súrdeigið (31–33)

    • Uppfyllir spádóm með því að nota dæmisögur (34, 35)

    • Útskýrir dæmisöguna um hveitið og illgresið (36–43)

    • Falinn fjársjóður og dýrmæt perla (44–46)

    • Dragnetið (47–50)

    • Nýtt og gamalt úr forðabúri (51, 52)

  • Jesú hafnað í heimabyggð sinni (53–58)

13  Sama dag fór Jesús úr húsinu og settist við vatnið.  Svo mikill mannfjöldi safnaðist að honum að hann steig um borð í bát og settist þar niður en allt fólkið stóð á ströndinni.  Síðan kenndi hann fólkinu margt með dæmisögum og sagði: „Akuryrkjumaður gekk út að sá.  Þegar hann sáði féll sumt af korninu meðfram veginum og fuglarnir komu og átu það.  Annað féll í grýtta jörð þar sem var lítill jarðvegur, og það spratt fljótt því að jarðvegurinn var grunnur.  En þegar sólin hækkaði á lofti skrælnaði það og dó vegna þess að það hafði litlar sem engar rætur.  Annað féll meðal þyrna og þyrnarnir uxu og kæfðu það.  En sumt féll í góðan jarðveg og bar ávöxt, sumt hundraðfaldan, sumt sextugfaldan og annað þrítugfaldan.  Sá sem hefur eyru hann hlusti.“ 10  Lærisveinarnir komu nú til hans og spurðu: „Hvers vegna kennirðu fólkinu með dæmisögum?“ 11  Hann svaraði: „Ykkur er gefið að skilja heilaga leyndardóma himnaríkis en hinum er það ekki gefið. 12  Þeim sem hefur verður gefið meira og hann mun hafa gnægð. En frá þeim sem hefur ekki verður tekið jafnvel það litla sem hann hefur. 13  Þess vegna tala ég til fólksins í dæmisögum því að það sér að vísu en horfir þó til einskis og heyrir en hlustar til einskis og það nær ekki merkingunni. 14  Spádómur Jesaja rætist á því en þar segir: ‚Þið munuð vissulega heyra en alls ekki skilja og horfa en alls ekki sjá. 15  Hjörtu þessa fólks eru orðin ónæm. Það heyrir með eyrunum án þess að bregðast við því og það hefur lokað augunum svo að það sjái ekki með augunum né heyri með eyrunum né skilji með hjartanu og snúi við og ég lækni það.‘ 16  En þið eruð hamingjusöm þar sem augu ykkar sjá og eyru ykkar heyra. 17  Trúið mér, margir spámenn og réttlátir menn þráðu að sjá það sem þið sjáið en sáu það ekki, og heyra það sem þið heyrið en heyrðu það ekki. 18  Heyrið nú hvað dæmisagan um akuryrkjumanninn merkir: 19  Þegar einhver heyrir boðskapinn um ríkið en skilur hann ekki kemur hinn vondi og hrifsar frá honum það sem var sáð í hjarta hans. Þetta er sáðkornið sem var sáð meðfram veginum. 20  Það sem var sáð í grýtta jörð er sá sem heyrir orðið og tekur strax við því með fögnuði 21  en hefur enga rótfestu. Hann stendur um tíma en fellur um leið og erfiðleikar eða ofsóknir verða vegna orðsins. 22  Það sem var sáð meðal þyrna er sá sem heyrir orðið en áhyggjur daglegs lífs* og tál auðæfanna kæfir orðið svo að það ber ekki ávöxt. 23  Það sem var sáð í góða jörð er sá sem heyrir orðið, skilur það og ber ávöxt. Einn gefur af sér hundraðfalt, annar sextugfalt og annar þrítugfalt.“ 24  Hann sagði þeim aðra dæmisögu: „Líkja má himnaríki við mann sem sáði góðu korni í akur sinn. 25  Meðan menn sváfu kom óvinur hans og sáði illgresi meðal hveitisins og fór síðan. 26  Þegar hveitið spratt og myndaði öx kom illgresið einnig í ljós. 27  Þjónar húsbóndans komu þá til hans og sögðu: ‚Herra, sáðirðu ekki góðu korni í akurinn? Hvaðan kemur þá illgresið?‘ 28  Hann svaraði þeim: ‚Þetta hefur einhver óvinur gert.‘ Þjónarnir sögðu þá: ‚Viltu að við förum og reytum það?‘ 29  Hann svaraði: ‚Nei, ef þið reytið illgresið er hætta á að þið slítið upp hveitið um leið. 30  Látið hvort tveggja vaxa saman fram að uppskerunni, og þegar uppskerutíminn kemur segi ég við kornskurðarmennina: Safnið fyrst illgresinu og bindið í knippi til að brenna það. Safnið síðan hveitinu í hlöðuna.‘“ 31  Hann sagði þeim aðra dæmisögu: „Himnaríki er eins og sinnepsfræ sem maður sáði í akur sinn. 32  Það er smæst allra fræja en þegar það vex verður það stærst allra plantna. Það verður að tré og fuglar himins koma og hreiðra sig í greinum þess.“ 33  Hann sagði þeim aðra dæmisögu: „Himnaríki er eins og súrdeig sem kona tók og blandaði í þrjá stóra mæla mjöls svo að allt deigið gerjaðist.“ 34  Jesús talaði allt þetta í dæmisögum. Hann talaði reyndar ekki til mannfjöldans án dæmisagna 35  til að það rættist sem spámaðurinn sagði: „Ég tala í dæmisögum, ég boða það sem hefur verið hulið frá upphafi.“* 36  Síðan sendi hann fólkið burt og fór inn í húsið. Lærisveinarnir komu til hans og sögðu: „Útskýrðu fyrir okkur dæmisöguna um illgresið á akrinum.“ 37  Hann sagði: „Sá sem sáir góða korninu er Mannssonurinn 38  og akurinn er heimurinn. Góða kornið er synir ríkisins, illgresið er synir hins vonda 39  og óvinurinn sem sáði því er Djöfullinn. Uppskerutíminn er lokaskeið þessarar heimsskipanar* og kornskurðarmennirnir eru englar. 40  Rétt eins og illgresinu er safnað og það brennt í eldi, þannig verður á lokaskeiði þessarar heimsskipanar.* 41  Mannssonurinn sendir engla sína og þeir fjarlægja úr ríki hans allt sem verður öðrum að falli og fólk sem gerir illt 42  og kasta því í brennsluofn. Þar mun það gráta og gnísta tönnum. 43  Þá munu hinir réttlátu skína eins skært og sólin í ríki föður þeirra. Sá sem hefur eyru hann hlusti. 44  Himnaríki er eins og fjársjóður sem var falinn á akri. Maður nokkur fann hann og faldi aftur. Í gleði sinni fer hann og selur allar eigur sínar og kaupir akurinn. 45  Himnaríki er einnig eins og farandkaupmaður sem leitar að fögrum perlum. 46  Þegar hann finnur eina dýrmæta perlu fer hann strax og selur allar eigur sínar og kaupir hana. 47  Himnaríki er einnig eins og dragnet sem lagt er í sjó og safnar alls konar fiski. 48  Þegar það fyllist er það dregið í land og menn setjast við og safna góðu fiskunum í ker en kasta hinum óætu burt. 49  Þannig verður á lokaskeiði þessarar heimsskipanar.* Englarnir verða sendir út og aðgreina vonda frá réttlátum 50  og kasta þeim í brennsluofn. Þar munu þeir gráta og gnísta tönnum. 51  Skiljið þið allt þetta?“ „Já,“ svöruðu þeir. 52  Þá sagði hann: „Fyrst svo er skuluð þið vita að sérhver kennari sem hefur fengið fræðslu um himnaríki er eins og húsbóndi sem ber fram bæði nýtt og gamalt úr forðabúri* sínu.“ 53  Eftir að Jesús hafði sagt þessar dæmisögur fór hann þaðan. 54  Hann kom í heimabyggð sína og fór að kenna í samkunduhúsinu. Menn voru agndofa og sögðu: „Hvaðan hefur maðurinn þessa visku og hvernig getur hann gert þessi máttarverk? 55  Er þetta ekki sonur smiðsins? Heitir ekki móðir hans María og bræður hans Jakob, Jósef, Símon og Júdas? 56  Og systur hans, búa þær ekki allar á meðal okkar? Hvaðan hefur hann þá allt þetta?“ 57  Og þeir höfnuðu honum. En Jesús sagði við þá: „Spámaður er alls staðar mikils metinn nema í heimabyggð sinni og á eigin heimili.“ 58  Vegna vantrúar þeirra vann hann ekki mörg máttarverk þar.

Neðanmáls

Eða „áhyggjur þessarar aldar“. Sjá orðaskýringar, „heimsskipan“.
Eða hugsanl. „grundvöllun heims“.
Eða „aldar“. Sjá orðaskýringar.
Eða „aldar“. Sjá orðaskýringar.
Eða „aldar“. Sjá orðaskýringar.
Orðrétt „sjóði“.