Matteus 15:1–39
15 Nú komu farísear og fræðimenn frá Jerúsalem til Jesú og sögðu:
2 „Af hverju bregða lærisveinar þínir út af erfðavenjum manna frá fyrri tíð? Þeir þvo sér* til dæmis ekki um hendurnar áður en þeir borða.“
3 Hann svaraði þeim: „Af hverju brjótið þið boðorð Guðs vegna erfðavenja ykkar?
4 Guð sagði til dæmis: ‚Heiðraðu föður þinn og móður,‘ og: ‚Sá sem smánar* föður sinn eða móður skal líflátinn.‘
5 En þið segið: ‚Hver sem segir við föður sinn eða móður: „Það sem ég á og hefði getað gagnast ykkur er gjöf helguð Guði,“
6 hann þarf alls ekki að heiðra föður sinn.‘ Þannig hafið þið ógilt orð Guðs með erfikenningum ykkar.
7 Hræsnarar, Jesaja spáði réttilega um ykkur þegar hann sagði:
8 ‚Þetta fólk heiðrar mig með vörunum en hjörtu þess eru fjarlæg mér.
9 Það tilbiður mig til einskis því að það kennir boðorð manna eins og trúarsetningar.‘“
10 Hann kallaði nú mannfjöldann til sín og sagði: „Hlustið og reynið að skilja þetta:
11 Það sem fer inn um munninn óhreinkar ekki manninn heldur það sem fer út af munninum.“
12 Lærisveinarnir komu þá og sögðu við hann: „Veistu að farísearnir hneyksluðust á því sem þú sagðir?“
13 Hann svaraði: „Sérhver planta sem himneskur faðir minn hefur ekki gróðursett verður upprætt.
14 Látið þá eiga sig. Þeir eru blindir leiðtogar. Ef blindur leiðir blindan falla báðir í gryfju.“
15 Þá sagði Pétur: „Skýrðu líkinguna fyrir okkur.“
16 Hann svaraði: „Hafið þið ekki heldur skilið þetta?
17 Vitið þið ekki að allt sem kemur inn um munninn fer gegnum magann og síðan út í skólpræsið?
18 En það sem kemur út af munninum kemur frá hjartanu, og það óhreinkar manninn.
19 Frá hjartanu koma til dæmis illar hugsanir sem hafa í för með sér morð, hjúskaparbrot, kynferðislegt siðleysi,* þjófnað, ljúgvitni og lastmæli.
20 Það er þetta sem óhreinkar manninn, en að borða með óþvegnum* höndum óhreinkar ekki manninn.“
21 Jesús fór nú þaðan og hélt til héraðs Týrusar og Sídonar.
22 Fönikísk kona úr héraðinu kom þá og kallaði: „Miskunnaðu mér, Drottinn sonur Davíðs. Dóttir mín er sárþjáð af illum anda.“
23 En hann svaraði henni ekki einu orði. Lærisveinar hans komu þá og sögðu við hann: „Segðu henni að fara því að hún hættir ekki að kalla á eftir okkur.“
24 Hann svaraði: „Ég var ekki sendur nema til týndra sauða af ætt Ísraels.“
25 En konan kom, kraup fyrir honum* og sagði: „Drottinn, hjálpaðu mér!“
26 Hann svaraði: „Það er ekki rétt að taka brauð barnanna og kasta því fyrir hvolpana.“
27 Hún sagði: „Það er satt, Drottinn, en hvolparnir éta samt brauðmolana sem falla af borði húsbændanna.“
28 Þá svaraði Jesús: „Mikil er trú þín, kona. Verði þér að ósk þinni.“ Og dóttir hennar læknaðist samstundis.
29 Jesús fór nú þaðan og kom að Galíleuvatni. Hann hélt upp á fjallið og settist þar.
30 Fólk kom þá til hans hópum saman og hafði með sér halta, fatlaða, blinda, mállausa og marga aðra og lagði þá við fætur hans, og hann læknaði þá.
31 Fólkið var agndofa þegar það sá mállausa tala, fatlaða verða heilbrigða, halta ganga og blinda sjá, og það lofaði Guð Ísraels.
32 Jesús kallaði lærisveinana til sín og sagði: „Ég kenni í brjósti um fólkið því að það er búið að vera hjá mér í þrjá daga og hefur ekkert fengið að borða. Ég vil ekki senda það svangt* frá mér því að það gæti örmagnast á leiðinni.“
33 En lærisveinarnir sögðu við hann: „Hvar eigum við að fá nóg af brauði á þessum afskekkta stað til að metta allan þennan fjölda?“
34 Þá spurði Jesús: „Hve mörg brauð eruð þið með?“ Þeir svöruðu: „Sjö, og fáeina litla fiska.“
35 Hann sagði fólkinu að setjast á jörðina,
36 tók brauðin sjö og fiskana og fór með þakkarbæn. Síðan braut hann þau og gaf lærisveinunum og lærisveinarnir fólkinu.
37 Allir átu og urðu saddir. Þeir tóku saman leifarnar og þær fylltu sjö stórar körfur.*
38 En þeir sem borðuðu voru 4.000 karlmenn, auk kvenna og barna.
39 Að lokum lét hann mannfjöldann fara, steig um borð í bátinn og fór til Magadanhéraðs.
Neðanmáls
^ Það er, þvo sér eftir helgisiðareglum Gyðinga.
^ Eða „formælir“.
^ Fleirtala gríska orðsins pornei′a. Sjá orðaskýringar.
^ Það er, ekki þvegnum eftir helgisiðareglum Gyðinga.
^ Eða „veitti honum lotningu“.
^ Eða „fastandi“.
^ Eða „birgðakörfur“.