Matteus 19:1–30
19 Eftir að Jesús hafði lokið máli sínu fór hann frá Galíleu og kom að útjaðri* Júdeu handan við Jórdan.
2 Fólk fylgdi honum hópum saman og hann læknaði það.
3 Farísear komu til hans, ákveðnir í að reyna hann, og þeir spurðu: „Má maður skilja við konu sína fyrir hvaða sök sem er?“
4 Hann svaraði: „Hafið þið ekki lesið að sá sem skapaði þau í upphafi gerði þau karl og konu
5 og sagði: ‚Af þeirri ástæðu yfirgefur maður föður sinn og móður og binst konu sinni og þau tvö verða eitt‘?*
6 Þannig eru þau ekki lengur tvö heldur eitt.* Það sem Guð hefur tengt saman má enginn maður aðskilja.“
7 Þeir sögðu við hann: „Hvers vegna fyrirskipaði Móse þá að gefa út skilnaðarbréf og leyfði að maður skildi við hana?“
8 Hann svaraði: „Það var vegna þess hve harðbrjósta þið eruð sem Móse gerði þá tilslökun að þið mættuð skilja við eiginkonur ykkar, en þannig var það ekki frá upphafi.
9 Ég segi ykkur að sá sem skilur við konu sína, nema hún hafi gerst sek um kynferðislegt siðleysi,* og giftist annarri fremur hjúskaparbrot.“
10 Lærisveinarnir sögðu við hann: „Fyrst sambandi karls og konu er þannig háttað er ekki ráðlegt að giftast.“
11 Hann sagði við þá: „Það er ekki á allra færi að gera eins og ég segi heldur aðeins þeirra sem það er gefið.*
12 Sumir eru fæddir þannig að þeir geta ekki gifst* og sumir eru þannig af mannavöldum en sumir neita sér líka um að giftast* til að geta helgað sig himnaríki. Sá sem hefur tök á því ætti að gera það.“
13 Fólk kom nú til hans með börn til að hann legði hendur yfir þau og bæði fyrir þeim. Lærisveinarnir ávítuðu fólkið
14 en Jesús sagði: „Látið börnin í friði og reynið ekki að hindra að þau komi til mín því að himnaríki tilheyrir þeim sem eru eins og þau.“
15 Og hann lagði hendurnar yfir þau og fór síðan þaðan.
16 Þá kom til hans ungur maður og sagði: „Kennari, hvað gott þarf ég að gera til að hljóta eilíft líf?“
17 Jesús svaraði: „Hvers vegna spyrðu mig hvað sé gott? Aðeins einn er góður. En ef þú vilt ganga inn til lífsins skaltu halda boðorðin.“
18 „Hvaða boðorð?“ spurði hann. Jesús svaraði: „Þú skalt ekki myrða, þú skalt ekki fremja hjúskaparbrot, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki bera ljúgvitni,
19 heiðraðu föður þinn og móður og þú skalt elska náungann eins og sjálfan þig.“
20 Ungi maðurinn sagði við hann: „Ég hef haldið allt þetta. Hvað fleira þarf ég að gera?“
21 Jesús svaraði: „Ef þú vilt vera fullkominn farðu þá og seldu eigur þínar og gefðu fátækum, og þá áttu fjársjóð á himni. Komdu síðan og fylgdu mér.“
22 Ungi maðurinn fór hryggur burt þegar hann heyrði þetta því að hann átti miklar eignir.
23 Jesús sagði þá við lærisveinana: „Trúið mér, það verður erfitt fyrir ríkan mann að komast inn í himnaríki.
24 Ég segi ykkur að það er auðveldara fyrir úlfalda að komast gegnum nálarauga en fyrir ríkan mann að ganga inn í ríki Guðs.“
25 Þegar lærisveinarnir heyrðu þetta voru þeir steini lostnir og sögðu: „Hver getur þá eiginlega bjargast?“
26 Jesús horfði einbeittur á þá og sagði: „Mönnum er það ógerlegt en Guð getur allt.“
27 Þá sagði Pétur: „Við höfum yfirgefið allt og fylgt þér. Hvað fáum við þá?“
28 Jesús sagði við þá: „Trúið mér, þegar allt verður endurnýjað* og Mannssonurinn sest í dýrlegt hásæti sitt munuð þið sem hafið fylgt mér sitja í 12 hásætum og dæma 12 ættkvíslir Ísraels.
29 Og allir sem hafa yfirgefið heimili, bræður eða systur, föður eða móður, börn eða landareignir vegna nafns míns fá hundraðfalt aftur og hljóta eilíft líf.
30 En margir hinna fyrstu verða síðastir og hinir síðustu fyrstir.
Neðanmáls
^ Eða „landamærum“.
^ Orðrétt „eitt hold“.
^ Orðrétt „eitt hold“.
^ Á grísku pornei′a. Sjá orðaskýringar.
^ Það er, aðeins þeirra sem það er gefið að geta verið einhleypir.
^ Orðrétt „fæddir geldingar“.
^ Orðrétt „gera sig að geldingum“.
^ Eða „endurskapað“.