Matteus 4:1–25

  • Djöfullinn freistar Jesú (1–11)

  • Jesús byrjar boðun í Galíleu (12–17)

  • Fyrstu lærisveinarnir kallaðir (18–22)

  • Jesús boðar, kennir og læknar (23–25)

4  Andinn leiddi nú Jesú út í óbyggðirnar þar sem Djöfullinn freistaði hans.  Eftir að hafa fastað í 40 daga og 40 nætur var hann orðinn sársvangur.  Freistarinn kom þá til hans og sagði: „Ef þú ert sonur Guðs segðu þá þessum steinum að verða að brauði.“  En hann svaraði: „Skrifað stendur: ‚Maðurinn lifir ekki aðeins á brauði heldur á hverju orði sem kemur af munni Jehóva.‘“*  Þá fór Djöfullinn með hann inn í borgina helgu, setti hann upp á virkisvegg* musterisins  og sagði við hann: „Ef þú ert sonur Guðs kastaðu þér þá fram af, því að skrifað stendur: ‚Hann sendir engla sína til þín,‘ og: ‚Þeir munu bera þig á höndum sér til að þú hnjótir ekki um stein.‘“  Jesús sagði við hann: „Einnig stendur skrifað: ‚Þú skalt ekki ögra Jehóva* Guði þínum.‘“  Eftir það fór Djöfullinn með hann upp á afar hátt fjall, sýndi honum öll ríki heims og dýrð þeirra  og sagði við hann: „Ég skal gefa þér allt þetta ef þú fellur fram og tilbiður mig einu sinni.“ 10  Þá svaraði Jesús: „Farðu burt, Satan! Skrifað stendur: ‚Þú skalt tilbiðja Jehóva* Guð þinn og honum einum skaltu veita heilaga þjónustu.‘“ 11  Þá yfirgaf Djöfullinn hann og englar komu og þjónuðu honum. 12  Þegar Jesús frétti að Jóhannes hefði verið handtekinn hélt hann til Galíleu. 13  Síðar fór hann frá Nasaret og settist að í Kapernaúm við vatnið í héruðum Sebúlons og Naftalí, 14  til að það rættist sem Jesaja spámaður sagði: 15  „Sebúlonsland og Naftalíland, við veginn til sjávar* handan við Jórdan, Galílea þjóðanna. 16  Fólkið sem sat í myrkri sá mikið ljós og ljós skein á þá sem sátu í skuggalandi dauðans.“ 17  Upp frá því fór Jesús að boða: „Iðrist því að himnaríki er í nánd.“ 18  Hann gekk meðfram Galíleuvatni og sá þá tvo bræður kasta neti í vatnið. Það voru þeir Símon, sem er kallaður Pétur, og Andrés bróðir hans en þeir voru fiskimenn. 19  Hann sagði við þá: „Komið og fylgið mér og ég skal láta ykkur veiða menn.“ 20  Þeir yfirgáfu netin samstundis og fylgdu honum. 21  Hann gekk áfram og sá tvo aðra bræður, þá Jakob Sebedeusson og Jóhannes bróður hans. Þeir voru í bátnum með Sebedeusi föður sínum að bæta netin. Hann kallaði á þá 22  og þeir yfirgáfu bátinn og föður sinn samstundis og fylgdu honum. 23  Hann fór síðan um alla Galíleu, kenndi í samkunduhúsunum, boðaði fagnaðarboðskapinn um ríkið og læknaði fólk af hvers kyns sjúkdómum og meinum. 24  Fréttirnar af honum bárust út um allt Sýrland og fólk kom til hans með alla sem kvöldust og þjáðust af ýmsum sjúkdómum, voru andsetnir, flogaveikir og lamaðir, og hann læknaði þá. 25  Mikill fjöldi fylgdi honum þess vegna frá Galíleu, Dekapólis,* Jerúsalem, Júdeu og landinu handan við Jórdan.

Neðanmáls

Sjá orðaskýringar.
Eða „brjóstrið; efstu brún“.
Sjá orðaskýringar.
Sjá orðaskýringar.
Sennilega Miðjarðarhaf en samkvæmt sumum heimildum Galíleuvatn.
Eða „Tíuborgasvæðinu“.