Fyrri Kroníkubók 19:1–19
19 Nokkru síðar dó Nahas konungur Ammóníta og sonur hans varð konungur eftir hann.+
2 Þá sagði Davíð: „Ég vil sýna Hanún Nahassyni velvild*+ af því að faðir hans sýndi mér velvild.“ Síðan sendi Davíð sendiboða til að votta honum samúð sína eftir föðurmissinn. En þegar þjónar Davíðs komu inn í land Ammóníta+ til að hugga Hanún
3 sögðu höfðingjar Ammóníta við Hanún: „Ertu viss um að Davíð hafi sent þessa menn til að votta þér samúð sína og heiðra minningu föður þíns? Eru þjónar hans ekki frekar komnir til þín til að safna upplýsingum og njósna um landið til að geta steypt þér af stóli?“
4 Hanún tók þá þjóna Davíðs, rakaði þá+ og skar af þeim fötin til hálfs, við rasskinnarnar, og sendi þá síðan burt.
5 Þegar Davíð frétti að menn sínir hefðu verið svo sárlega niðurlægðir sendi hann tafarlaust aðra menn á móti þeim með þessi skilaboð: „Verið um kyrrt í Jeríkó+ og komið ekki heim fyrr en skegg ykkar er vaxið aftur.“
6 Ammónítum varð nú ljóst að þeir höfðu bakað sér óvild Davíðs. Hanún og Ammónítar sendu þá menn með 1.000 talentur* af silfri til að leigja stríðsvagna og riddara frá Mesópótamíu,* Aram Maaka og Sóba.+
7 Þeir leigðu 32.000 vagna og konunginn í Maaka ásamt liði hans, og þeir komu og slógu upp búðum fyrir framan Medeba.+ Ammónítar söfnuðust einnig saman úr borgum sínum og komu til bardagans.
8 Þegar Davíð frétti það sendi hann Jóab+ og allan herinn af stað ásamt fræknustu köppunum.+
9 Ammónítar fóru út og fylktu liði sínu fyrir framan borgina en konungarnir sem höfðu komið stóðu einir síns liðs úti á bersvæði.
10 Þegar Jóab varð ljóst að árásarsveitir sóttu að honum bæði að framan og aftan valdi hann hermenn úr einvalaliði Ísraels og skipaði þeim að fylkja liði gegn Sýrlendingum.+
11 Hina hermennina lét hann undir stjórn Abísaí+ bróður síns og þeir áttu að fylkja liði gegn Ammónítum.
12 Síðan sagði hann: „Ef Sýrlendingar+ reynast mér ofviða verður þú að koma og hjálpa mér. En ef Ammónítar reynast þér ofviða hjálpa ég þér.
13 Við verðum að vera hugrakkir og sterkir+ fyrir þjóð okkar og borgir Guðs okkar. Jehóva gerir síðan það sem hann telur best.“
14 Jóab og menn hans réðust nú til atlögu gegn Sýrlendingum og þeir flúðu undan honum.+
15 Þegar Ammónítar sáu að Sýrlendingar voru flúnir hörfuðu þeir líka undan Abísaí bróður hans og leituðu skjóls í borginni. Eftir það sneri Jóab aftur til Jerúsalem.
16 Þegar Sýrlendingum varð ljóst að þeir höfðu beðið ósigur fyrir Ísrael sendu þeir menn til að safna saman þeim Sýrlendingum sem voru á svæðinu við Fljótið,*+ en Sófak hershöfðingi Hadadesers var foringi þeirra.+
17 Um leið og Davíð frétti af þessu safnaði hann saman öllum her Ísraels, fór yfir Jórdan og fylkti liði sínu gegn Sýrlendingum. Davíð hélt til orrustu gegn þeim og þeir börðust við hann.+
18 En Sýrlendingar neyddust til að flýja undan Ísraelsmönnum. Davíð felldi 7.000 vagnkappa og 40.000 fótgönguliða Sýrlendinga og drap einnig Sófak hershöfðingja þeirra.
19 Þegar mönnum Hadadesers varð ljóst að þeir höfðu lotið í lægra haldi fyrir Ísraelsmönnum+ sömdu þeir frið við Davíð og gerðust þegnar hans.+ Þaðan í frá vildu Sýrlendingar ekki hjálpa Ammónítum.
Neðanmáls
^ Eða „tryggan kærleika“.
^ Talenta jafngilti 34,2 kg. Sjá viðauka B14.
^ Orðrétt „Aram Naharaím“.
^ Það er, Efrat.