Fyrsta Mósebók 24:1–67

  • Leitað að konu handa Ísak (1–58)

  • Rebekka og Ísak hittast (59–67)

24  Abraham var nú orðinn gamall og aldurhniginn og Jehóva hafði blessað hann í öllu.+  Þá sagði Abraham við þjón sinn, þann sem var elstur í húsi hans og hafði umsjón með öllu sem hann átti:+ „Settu hönd þína undir læri mitt  og sverðu við Jehóva, Guð himins og Guð jarðar, að þú takir ekki syni mínum konu af dætrum Kanverja sem ég bý á meðal.+  Farðu heldur til lands míns og ættingja minna+ og taktu konu handa Ísak syni mínum.“  Þjónninn svaraði honum: „En hvað ef konan vill ekki koma með mér hingað til þessa lands? Á ég þá að fara með son þinn aftur til landsins þaðan sem þú komst?“+  „Nei,“ svaraði Abraham, „þú mátt alls ekki fara með son minn þangað.+  Jehóva Guð himnanna tók mig úr húsi föður míns og úr ættlandi mínu.+ Hann talaði við mig og sór þess eið+ að gefa afkomendum mínum+ þetta land.+ Hann mun senda engil sinn á undan þér+ og þú munt taka syni mínum konu þaðan.+  En ef konan vill ekki fara með þér ertu laus undan eiðnum. Hvað sem því líður máttu ekki fara með son minn þangað.“  Þá setti þjónninn hönd sína undir læri Abrahams húsbónda síns og sór honum eið að þessu.+ 10  Þjónninn tók nú tíu af úlföldum húsbónda síns og lagði af stað til Mesópótamíu, til borgar Nahors. Hann hafði með sér alls konar góðar gjafir frá húsbónda sínum. 11  Loks kom hann að brunni fyrir utan borgina og þar lét hann úlfaldana leggjast. Það var að kvöldi dags, um það leyti sem konurnar fóru út að sækja vatn. 12  Hann sagði: „Jehóva, Guð Abrahams húsbónda míns, láttu allt ganga að óskum í dag og sýndu Abraham húsbónda mínum tryggan kærleika. 13  Hér stend ég við vatnslind og dætur borgarmanna koma nú til að sækja vatn. 14  Ég ætla að segja við eina af stúlkunum: ‚Taktu niður vatnsker þitt svo að ég geti fengið mér að drekka.‘ Ef hún svarar: ‚Fáðu þér að drekka og ég skal líka brynna úlföldum þínum,‘ þá veit ég að það er hún sem þú hefur valið handa Ísak þjóni þínum og að þú hefur sýnt húsbónda mínum tryggan kærleika.“ 15  Áður en hann hafði sleppt orðinu birtist Rebekka með vatnsker á öxlinni. Hún var dóttir Betúels+ sonar Milku+ eiginkonu Nahors+ bróður Abrahams. 16  Stúlkan var ákaflega falleg. Hún hafði ekki sofið hjá karlmanni og var hrein mey. Hún gekk niður að lindinni, fyllti vatnsker sitt og kom síðan aftur upp frá lindinni. 17  Þjónninn hljóp rakleiðis til hennar og sagði: „Gefðu mér smá vatnssopa úr keri þínu.“ 18  Hún svaraði: „Drekktu, herra minn,“ og flýtti sér að taka kerið niður af öxlinni til að gefa honum að drekka. 19  Þegar hún hafði gefið honum að drekka sagði hún: „Ég skal líka sækja vatn handa úlföldum þínum þar til þeir hafa drukkið nægju sína.“ 20  Hún flýtti sér að tæma úr kerinu í vatnsþróna og hljóp síðan fram og til baka til að sækja vatn í brunninn. Hún sótti vatn handa öllum úlföldum hans. 21  Maðurinn starði þögull á hana, undrandi yfir því sem hann sá, og velti fyrir sér hvort Jehóva hefði látið ferð hans heppnast eða ekki. 22  Þegar úlfaldarnir höfðu drukkið nægju sína tók maðurinn fram nefhring úr gulli sem vó hálfan sikil* og tvö gullarmbönd sem vógu tíu sikla* og gaf henni. 23  Síðan sagði hann: „Segðu mér hvers dóttir þú ert. Er pláss fyrir okkur í húsi föður þíns svo að við getum gist þar í nótt?“ 24  Hún svaraði: „Ég er dóttir Betúels,+ sonar Milku og Nahors.“+ 25  Hún bætti við: „Við eigum bæði hálm og nóg af fóðri og það er líka pláss til að gista.“ 26  Þá féll maðurinn á grúfu frammi fyrir Jehóva 27  og sagði: „Lofaður sé Jehóva, Guð Abrahams húsbónda míns, því að hann hefur ekki látið af tryggum kærleika sínum og trúfesti við húsbónda minn. Jehóva hefur leitt mig til húss bræðra húsbónda míns.“ 28  Stúlkan hljóp þá heim í hús móður sinnar og sagði frá því sem hafði gerst. 29  Rebekka átti bróður sem hét Laban.+ Hann hljóp nú til mannsins við lindina. 30  Hann hafði séð nefhringinn og armböndin á höndum Rebekku systur sinnar og heyrt hana segja: „Þannig talaði maðurinn við mig.“ Hann fór því til mannsins sem stóð enn hjá úlföldunum við lindina. 31  Hann sagði: „Komdu, þú sem nýtur blessunar Jehóva. Af hverju stendurðu hérna úti? Ég hef gert allt tilbúið fyrir þig í húsinu og rýmt til fyrir úlföldunum.“ 32  Maðurinn gekk þá inn í húsið og hann* spretti af úlföldunum og gaf þeim hálm og fóður og sótti vatn til að hann og mennirnir sem voru með honum gætu þvegið fætur sína. 33  Síðan var matur borinn fram fyrir hann en hann sagði: „Ég borða ekkert fyrr en ég hef borið upp erindi mitt.“ „Lát heyra,“ sagði Laban. 34  Hann sagði þá: „Ég er þjónn Abrahams.+ 35  Jehóva hefur blessað húsbónda minn ríkulega og gert hann stórauðugan. Hann hefur gefið honum sauðfé og nautgripi, silfur og gull, þjóna og þjónustustúlkur, úlfalda og asna.+ 36  Og Sara, eiginkona húsbónda míns, ól honum son í elli sinni+ og húsbóndi minn mun gefa honum allt sem hann á.+ 37  Húsbóndi minn lét mig því sverja eið og sagði: ‚Þú mátt ekki taka syni mínum konu af dætrum Kanverja, þeirra sem ég bý á meðal.+ 38  Þú skalt heldur fara til húss föður míns og til ættingja minna+ til að finna konu handa syni mínum.‘+ 39  En ég spurði húsbónda minn: ‚Hvað ef konan vill ekki koma með mér?‘+ 40  Hann svaraði: ‚Ég hef gengið með Jehóva.+ Hann mun senda engil sinn+ með þér og láta ferð þína heppnast. Þú skalt fara til ættingja minna og fá konu handa syni mínum úr húsi föður míns.+ 41  En þú losnar undan eiðnum ef þú ferð til ættingja minna og þeir vilja ekki gefa þér hana. Það leysir þig undan eiðnum.‘+ 42  Þegar ég kom að lindinni í dag sagði ég: ‚Jehóva, Guð Abrahams húsbónda míns. Ég bið þig að láta ferð mína heppnast. 43  Hér stend ég við lind. Þegar stúlka+ kemur til að sækja vatn ætla ég að segja: „Gefðu mér smá vatnssopa úr keri þínu.“ 44  Ef hún svarar: „Fáðu þér að drekka og ég skal líka sækja vatn handa úlföldum þínum,“ þá veit ég að hún er sú kona sem þú, Jehóva, hefur valið handa syni húsbónda míns.‘+ 45  Áður en ég gat lokið bæn minni* sá ég Rebekku koma með ker sitt á öxlinni. Hún gekk niður að lindinni og fór að ausa vatni. Ég sagði þá við hana: ‚Gefðu mér að drekka.‘+ 46  Hún flýtti sér að taka kerið niður af öxlinni og sagði: ‚Fáðu þér að drekka+ og ég skal líka brynna úlföldum þínum.‘ Ég fékk mér að drekka og hún brynnti úlföldunum líka. 47  Síðan spurði ég hana: ‚Hvers dóttir ertu?‘ og hún svaraði: ‚Ég er dóttir Betúels, sonar Nahors og Milku.‘ Ég setti þá hringinn í nef hennar og armböndin á hendur hennar.+ 48  Ég féll á grúfu frammi fyrir Jehóva og lofaði Jehóva, Guð Abrahams húsbónda míns,+ sem hafði leitt mig réttan veg til að taka dóttur bróðursonar húsbónda míns fyrir konu handa syni hans. 49  Segðu mér nú hvort þú viljir sýna húsbónda mínum tryggan kærleika og trúfesti. Ef þú vilt það ekki skaltu segja mér það svo að ég viti hvað ég á að gera.“*+ 50  Laban og Betúel svöruðu: „Þetta er komið frá Jehóva svo að við höfum ekkert um það að segja.* 51  Hér er Rebekka. Taktu hana og farðu leiðar þinnar. Hún skal giftast syni húsbónda þíns eins og Jehóva hefur sagt.“ 52  Þegar þjónn Abrahams heyrði þetta varpaði hann sér til jarðar frammi fyrir Jehóva. 53  Hann tók síðan fram skrautmuni úr silfri og gulli og föt og gaf Rebekku. Bróður hennar og móður gaf hann einnig dýrgripi. 54  Hann og mennirnir sem voru með honum átu síðan og drukku og gistu þar um nóttina. Þegar hann fór á fætur morguninn eftir sagði hann: „Leyfið mér að fara til húsbónda míns.“ 55  Bróðir Rebekku og móðir svöruðu: „Leyfðu stúlkunni að vera hjá okkur í að minnsta kosti tíu daga í viðbót. Síðan má hún fara.“ 56  En hann sagði við þau: „Tefjið mig ekki. Jehóva hefur látið ferð mína heppnast. Leyfið mér að fara heim til húsbónda míns.“ 57  Þau sögðu þá: „Köllum á stúlkuna og spyrjum hana sjálfa.“ 58  Þau kölluðu á Rebekku og spurðu hana: „Viltu fara með þessum manni?“ „Já, það vil ég,“ svaraði hún. 59  Þá létu þau Rebekku systur sína+ fara ásamt fóstru* hennar+ og þjóni Abrahams og mönnum hans. 60  Þau blessuðu Rebekku og sögðu við hana: „Systir, megi þúsundir tugþúsunda koma af þér og megi afkomendur þínir eignast borgarhlið* þeirra sem hata þá.“+ 61  Rebekka og þjónustustúlkur hennar settust á bak úlföldunum og fóru með manninum. Þjónninn hélt af stað og tók Rebekku með sér. 62  Ísak bjó í Negeb+ og var nýkominn frá svæðinu í grennd við Beer Lahaj Róí.+ 63  Það var kvöld og Ísak hafði farið út að ganga til að hugleiða.+ Hann leit upp og sá þá úlfaldalest nálgast. 64  Rebekka leit einnig upp og kom auga á Ísak. Hún steig strax af baki 65  og spurði þjóninn: „Hvaða maður er þetta sem gengur þarna á móti okkur?“ „Þetta er húsbóndi minn,“ svaraði þjónninn. Hún tók þá blæju sína og huldi sig. 66  Þjónninn sagði nú Ísak frá öllu sem hann hafði gert. 67  Síðan leiddi Ísak Rebekku inn í tjald Söru móður sinnar+ og hún varð kona hans. Hann varð ástfanginn af henni+ og fékk huggun eftir móðurmissinn.+

Neðanmáls

Sikill jafngilti 11,4 g. Sjá viðauka B14.
Sikill jafngilti 11,4 g. Sjá viðauka B14.
Sennilega er átt við Laban.
Orðrétt „lokið við að tala í hjarta mínu“.
Orðrétt „geti snúið mér til hægri eða vinstri“.
Eða „getum ekkert sagt við þig, hvorki illt né gott“.
Það er, brjóstmóður hennar sem var nú í þjónustu hennar.
Eða „borgir“.