Fyrsta Mósebók 40:1–23
40 Nokkru síðar brutu drykkjarþjónn*+ Egyptalandskonungs og bakarinn gegn herra sínum, konunginum.
2 Faraó reiddist þá báðum hirðmönnum sínum, yfirdrykkjarþjóninum og yfirbakaranum,+
3 og lét varpa þeim í fangelsið í húsi lífvarðarforingjans,+ fangelsið þar sem Jósef var haldið föngnum.+
4 Lífvarðarforinginn fól Jósef að vera hjá þeim og þjóna þeim,+ og þeir sátu í fangelsinu um nokkurn tíma.
5 Nótt eina í fangelsinu dreymdi þá sinn drauminn hvorn, drykkjarþjóninn og bakara Egyptalandskonungs, en draumarnir höfðu hvor sína merkinguna.
6 Þegar Jósef kom inn til þeirra morguninn eftir sá hann að þeir voru daufir í dálkinn.
7 „Hvers vegna eruð þið svona daprir í bragði í dag?“ spurði hann þá hirðmenn faraós sem sátu með honum í haldi í húsi húsbónda hans.
8 „Okkur dreymdi báða draum,“ svöruðu þeir, „en hér er enginn sem getur ráðið draumana.“ Jósef sagði þá: „Er það ekki Guðs að ráða drauma?+ Segið mér hvað ykkur dreymdi.“
9 Yfirdrykkjarþjónninn sagði þá Jósef draum sinn: „Mig dreymdi að vínviður væri fyrir framan mig.
10 Á honum voru þrjár greinar og um leið og þær skutu frjóknöppum sprungu blóm hans út og klasarnir báru þroskuð vínber.
11 Ég hélt á bikar faraós, tók vínberin og kreisti safann úr þeim í bikarinn. Síðan rétti ég faraó bikarinn.“
12 Jósef sagði þá við hann: „Draumurinn merkir þetta: Greinarnar þrjár merkja þrjá daga.
13 Eftir þrjá daga leysir faraó þig úr haldi* og lætur þig endurheimta fyrra embætti þitt.+ Þú munt aftur fá að rétta faraó bikarinn eins og þú varst vanur þegar þú varst drykkjarþjónn hans.+
14 En mundu eftir mér þegar gæfan snýst þér í hag. Sýndu mér tryggan kærleika og minnstu á mig við faraó svo að ég komist út héðan.
15 Mér var rænt úr landi Hebrea+ og varpað hér í fangelsi* þótt ég væri alsaklaus.“+
16 Þegar yfirbakarinn heyrði að ráðning draumsins var góð sagði hann við Jósef: „Mig dreymdi líka draum. Ég var með þrjár körfur af hvítu brauði á höfðinu.
17 Í efstu körfunni var alls kyns brauðmeti handa faraó og fuglar átu það úr körfunni á höfðinu á mér.“
18 Þá sagði Jósef: „Draumurinn merkir þetta: Körfurnar þrjár merkja þrjá daga.
19 Eftir þrjá daga lætur faraó hálshöggva þig* og hengja þig á staur, og fuglarnir munu éta hold þitt.“+
20 Þriðji dagurinn reyndist vera afmælisdagur+ faraós. Þá sló hann upp veislu fyrir alla þjóna sína og leysti úr haldi bæði yfirdrykkjarþjóninn og yfirbakarann* í viðurvist þeirra.
21 Hann lét drykkjarþjóninn endurheimta fyrri stöðu sína svo að hann fékk aftur að rétta faraó bikarinn,
22 en lét hengja yfirbakarann, rétt eins og Jósef hafði sagt þegar hann réð drauma þeirra.+
23 En yfirdrykkjarþjónninn mundi ekki eftir Jósef heldur gleymdi honum.+
Neðanmáls
^ Embættismaður við hirð konungs sem skenkti honum vín og aðra drykki.
^ Orðrétt „hefur faraó upp höfuð þitt“.
^ Orðrétt „gryfju; pytt“.
^ Orðrétt „hefja höfuð þitt af þér“.
^ Orðrétt „hóf upp höfuð yfirdrykkjarþjónsins og yfirbakarans“.