Fyrri Samúelsbók 11:1–15

  • Sál sigrar Ammóníta (1–11)

  • Konungdómur Sáls staðfestur (12–15)

11  Nahas Ammóníti+ kom nú og settist um Jabes+ í Gíleað. Íbúar Jabes sögðu þá við Nahas: „Gerðu sáttmála* við okkur og þá munum við þjóna þér.“  Nahas Ammóníti svaraði þeim: „Ég skal gera það með einu skilyrði: að hægra augað sé stungið úr ykkur öllum. Þannig niðurlægi ég allan Ísrael.“  Öldungarnir í Jabes svöruðu honum: „Gefðu okkur sjö daga frest svo að við getum sent sendiboða um allt land Ísraels. Ef enginn getur bjargað okkur gefumst við upp fyrir þér.“  Þegar sendiboðarnir komu til Gíbeu,+ heimaborgar Sáls,* og sögðu fólkinu frá þessu grétu allir hástöfum.  Rétt í þessu kom Sál úr haganum og rak nautgripina á undan sér. „Hvað er að fólkinu?“ spurði hann. „Af hverju grætur það?“ Hann frétti þá hvað mennirnir frá Jabes höfðu sagt.  Andi Guðs kom yfir Sál+ þegar hann heyrði fréttirnar og hann varð bálreiður.  Hann tók tvö naut, bútaði þau niður og sendi stykkin um allan Ísrael með sendiboðunum. Þeir sögðu: „Svona fer fyrir nautgripum þess sem fylgir ekki Sál og Samúel.“ Þá kom ótti Jehóva yfir fólkið og menn lögðu af stað sem einn maður.  Sál taldi liðið í Besek og Ísraelsmenn reyndust vera 300.000 og Júdamenn 30.000.  Þeir sögðu við sendiboðana frá Jabes: „Flytjið íbúum Jabes í Gíleað þessi skilaboð: Á morgun þegar sólin er hæst á lofti verður ykkur bjargað.“ Sendiboðarnir fluttu Jabesbúum skilaboðin og þeir urðu himinlifandi. 10  Þeir sögðu við Ammóníta: „Á morgun gefumst við upp fyrir ykkur og þið getið farið með okkur eins og ykkur sýnist.“+ 11  Daginn eftir skipti Sál liðinu í þrennt. Á morgunvökunni* brutust menn hans inn í herbúðir Ammóníta+ og felldu þá þar til sólin var komin hátt á loft. Þeir sem komust lífs af tvístruðust svo rækilega að hvergi var að finna tvo og tvo saman. 12  Þá sagði fólkið við Samúel: „Hverjir voru það sem sögðu: ‚Á Sál að vera konungur yfir okkur?‘+ Komið með þá svo að við getum tekið þá af lífi.“ 13  En Sál sagði: „Í dag skal enginn tekinn af lífi+ því að í dag bjargaði Jehóva Ísrael.“ 14  Eftir þetta sagði Samúel við fólkið: „Komið, við skulum fara til Gilgal+ og staðfesta konungdóminn.“+ 15  Þá fór allt fólkið til Gilgal og gerði Sál að konungi frammi fyrir Jehóva. Síðan færði það samneytisfórnir frammi fyrir Jehóva.+ Og Sál og allir Ísraelsmenn glöddust og héldu mikla hátíð.+

Neðanmáls

Eða „samkomulag“.
Orðrétt „Gíbeu Sáls“.
Það er, um kl. 2 til kl. 6.