Fyrri Samúelsbók 25:1–44

  • Samúel deyr (1)

  • Nabal lítilsvirðir menn Davíðs (2–13)

  • Abígail bregst viturlega við (14–35)

    • „Í pyngju lífsins“ hjá Jehóva (29)

  • Jehóva lætur Nabal deyja (36–38)

  • Davíð giftist Abígail (39–44)

25  Að nokkrum tíma liðnum dó Samúel.+ Allur Ísrael safnaðist saman til að syrgja hann og jarða hann hjá húsi hans í Rama.+ Eftir það fór Davíð til óbyggða Paran.  Í Maon+ var maður nokkur sem átti búfé í Karmel.*+ Hann var vellauðugur og átti 3.000 kindur og 1.000 geitur. Nú var hann í Karmel að rýja sauðfé sitt.  Maður þessi hét Nabal+ og kona hans Abígail.+ Hún var skynsöm og falleg kona en hann var harður og illskeyttur.+ Hann var af ætt Kalebs.+  Davíð frétti í óbyggðunum að Nabal væri að rýja sauðféð.  Davíð sendi þá tíu unga menn af stað og sagði við þá: „Farið til Karmel. Þegar þið komið til Nabals skilið þá kveðju frá mér og spyrjið hvernig hann hafi það.  Segið síðan: ‚Megir þú eiga langa ævi og friður sé með þér og fjölskyldu þinni og öllu sem þú átt.  Ég hef frétt að þú sért að rýja sauðféð. Þegar fjárhirðar þínir voru hjá okkur gerðum við þeim ekkert illt+ og ekkert hefur vantað af fénaði þeirra allan þann tíma sem þeir hafa verið í Karmel.  Spyrðu menn þína, þeir geta staðfest það. Taktu vel á móti ungu mönnunum því að við komum á hátíðardegi.* Vertu svo vænn að gefa þjónum þínum og Davíð syni þínum eitthvað matarkyns sem þú mátt sjá af.‘“+  Menn Davíðs fóru til Nabals og fluttu honum þessi skilaboð frá Davíð. Þegar þeir höfðu lokið máli sínu 10  svaraði Nabal: „Hver er þessi Davíð og hver er þessi sonur Ísaí? Það er svo algengt núorðið að þjónar strjúki frá húsbændum sínum.+ 11  Á ég að taka brauð mitt og vatn og kjötið af því sem ég slátraði handa rúningsmönnum mínum og gefa það mönnum sem ég hef ekki hugmynd um hvaðan eru?“ 12  Ungu mennirnir sneru aftur til Davíðs og sögðu honum allt sem Nabal hafði sagt. 13  Davíð sagði strax við menn sína: „Gyrðið ykkur allir sverði!“+ Þeir gerðu það og Davíð gyrti sig einnig sverði sínu. Um 400 menn fylgdu Davíð upp eftir en 200 menn urðu eftir hjá farangrinum. 14  Einn af þjónum Nabals hafði varað Abígail konu hans við og sagt: „Davíð sendi menn úr óbyggðunum til að óska húsbónda okkar alls hins besta en hann jós yfir þá fúkyrðum.+ 15  Mennirnir reyndust okkur mjög vel. Þeir gerðu okkur ekkert illt og aldrei vantaði neitt af fénu allan þann tíma sem við vorum með þeim í óbyggðunum.+ 16  Þeir voru eins og varnarmúr í kringum okkur dag og nótt, allan þann tíma sem við gættum hjarðarinnar nálægt þeim. 17  Láttu þér nú detta í hug hvað þú getur gert svo að þetta endi ekki með ósköpum fyrir húsbónda okkar og allt heimilisfólk hans.+ Það þýðir ekkert að tala við hann því að hann er alger ræfill.“+ 18  Abígail+ sótti umsvifalaust 200 brauð, tvær stórar vínkrukkur, fimm sauðarskrokka, fimm seur* af ristuðu korni, 100 rúsínukökur og 200 gráfíkjukökur og lagði það allt á asna.+ 19  Síðan sagði hún við þjóna sína: „Farið á undan mér. Ég kem rétt á eftir ykkur.“ En hún sagði Nabal manni sínum ekkert. 20  Þegar hún kom ríðandi á asnanum í hvarfi bak við fjallið mætti hún Davíð og mönnum hans sem komu á móti henni. 21  Davíð hafði sagt: „Það var til einskis að ég gætti alls sem þessi náungi á í óbyggðunum. Ekkert vantaði af öllu sem hann átti+ en samt launar hann mér gott með illu.+ 22  Guð refsi óvinum Davíðs* harðlega ef ég hef þyrmt einum einasta af karlmönnum* Nabals í bítið á morgun.“ 23  Þegar Abígail sá Davíð flýtti hún sér af baki asnanum, kastaði sér niður frammi fyrir honum og laut til jarðar. 24  Síðan féll hún til fóta honum og sagði: „Herra, sökin er mín. Leyfðu ambátt þinni að tala við þig og hlustaðu á það sem ambátt þín hefur að segja. 25  Herra, taktu ekki mark á Nabal því að hann er ræfill+ og stendur undir nafni. Nabal* heitir hann og heimskur er hann. En ég, ambátt þín, sá ekki ungu mennina sem þú sendir, herra minn. 26  Svo sannarlega sem Jehóva lifir og þú lifir, herra, hefur Jehóva nú aftrað þér+ frá því að baka þér blóðskuld+ og hefna þín sjálfur.* Megi óvinir þínir, herra, og þeir sem vilja þér illt verða eins og Nabal. 27  Þiggðu nú þessa gjöf*+ sem ambátt þín færir þér, herra, og gefðu hana ungu mönnunum sem fylgja þér.+ 28  Fyrirgefðu afbrot ambáttar þinnar. Jehóva mun láta ætt herra míns ríkja um langan tíma+ því að þú, herra minn, heyrð stríð Jehóva+ og ekkert illt hefur fundist í fari þínu frá því að þú fæddist.+ 29  Þegar einhver ofsækir þig, herra minn, og sækist eftir lífi þínu verður líf þitt í öruggum höndum hjá Jehóva Guði þínum í pyngju lífsins en lífi óvina þinna þeytir hann burt eins og steinum úr slöngvu. 30  Og þegar Jehóva hefur staðið við allt það góða sem hann hefur lofað þér, herra, og gert þig að leiðtoga yfir Ísrael+ 31  þá mun samviskan ekki angra þig og þú þarft ekki að iðrast þess* að hafa úthellt blóði að ástæðulausu með því að hefna þín sjálfur.*+ Herra, mundu eftir ambátt þinni þegar Jehóva gerir vel við þig.“ 32  Davíð svaraði Abígail: „Lofaður sé Jehóva Guð Ísraels sem sendi þig hingað til mín í dag. 33  Og blessuð sé skynsemi þín! Guð blessi þig fyrir að aftra mér frá því að baka mér blóðskuld+ og hefna mín sjálfur.* 34  Svo sannarlega sem Jehóva Guð Ísraels lifir, sem leyfði mér ekki að gera þér mein,+ væri ekki einn einasti karlmaður* í húsi Nabals á lífi í fyrramálið+ ef þú hefðir ekki komið svona fljótt til mín.“+ 35  Síðan tók Davíð við því sem hún hafði fært honum og sagði: „Farðu heim til þín í friði. Ég hef hlustað á mál þitt og ætla að gera eins og þú biður um.“ 36  Þegar Abígail kom aftur til Nabals sat hann að veislu heima hjá sér eins og konungur væri. Nabal var í góðu skapi og haugdrukkinn. Hún sagði honum því ekkert fyrr en birti af degi. 37  Þegar runnið var af Nabal morguninn eftir sagði Abígail honum allt af létta. Þá dó hjartað í brjósti hans og hann varð stjarfur sem steinn. 38  Um það bil tíu dögum síðar laust Jehóva Nabal og hann dó. 39  Þegar Davíð frétti að Nabal væri dáinn sagði hann: „Lofaður sé Jehóva sem hefur veitt mér uppreisn æru+ eftir að Nabal niðurlægði mig.+ Jehóva hefur haldið þjóni sínum frá því að fremja voðaverk+ en látið illsku Nabals koma honum í koll.“ Síðan sendi Davíð boð til Abígail um að hann vildi giftast henni. 40  Þjónar Davíðs komu til Abígail í Karmel og sögðu við hana: „Davíð hefur sent okkur til þín því að hann vill taka þig fyrir eiginkonu.“ 41  Hún spratt á fætur, hneigði sig og laut höfði til jarðar. Síðan sagði hún: „Ambátt þín er reiðubúin að vera þjónustustúlka og þvo þjónum herra míns um fæturna.“+ 42  Abígail+ bjóst til ferðar þegar í stað. Síðan steig hún á bak asna sínum og fimm þjónustustúlkur hennar fylgdu eftir fótgangandi. Hún fór með sendiboðum Davíðs og varð kona hans. 43  Davíð hafði einnig gifst Akínóam+ frá Jesreel+ og þær urðu báðar eiginkonur hans.+ 44  En Sál hafði gefið Míkal+ dóttur sína, eiginkonu Davíðs, manni sem hét Paltí.+ Hann var sonur Laíss frá Gallím.

Neðanmáls

Hér er ekki átt við Karmelfjall heldur borg í Júda.
Orðrétt „góðum degi“.
Sea jafngilti 7,33 l. Sjá viðauka B14.
Eða hugsanl. „Davíð“.
Orðrétt „einum einasta sem pissar utan í vegg“. Niðrandi hebreskt orðasamband notað um karlmenn.
Sem þýðir ‚heimskur; fífl‘.
Eða „taka réttinn í þínar hendur“.
Orðrétt „blessun“.
Orðrétt „þá muntu hvorki skjögra né hrasa í hjarta þínu yfir“.
Eða „taka réttinn í þínar hendur“.
Eða „taka réttinn í mínar hendur“.
Orðrétt „einn einasti sem pissar utan í vegg“. Niðrandi hebreskt orðasamband notað um karlmenn.