Fyrri Samúelsbók 4:1–22

  • Filistear taka örk Guðs herfangi (1–11)

  • Elí og synir hans deyja (12–22)

4  Boðskapur Samúels barst til alls Ísraels. Ísraelsmenn héldu nú til bardaga við Filistea. Þeir settu upp búðir sínar við Ebeneser en Filistear höfðu slegið upp búðum sínum við Afek.  Filistear fóru fylktu liði gegn Ísraelsmönnum og voru þeim yfirsterkari. Ísraelsmenn biðu ósigur fyrir Filisteum sem felldu um 4.000 menn á vígvellinum.  Þegar herinn kom aftur í búðirnar sögðu öldungar Ísraels: „Hvers vegna lét Jehóva okkur bíða ósigur fyrir* Filisteum í dag?+ Við skulum sækja sáttmálsörk Jehóva til Síló+ svo að hún verði hjá okkur og bjargi okkur úr greipum óvina okkar.“  Fólkið sendi þá menn til Síló og þeir sóttu sáttmálsörk Jehóva hersveitanna sem situr í hásæti sínu yfir kerúbunum.*+ Báðir synir Elí, þeir Hofní og Pínehas,+ fylgdu sáttmálsörk hins sanna Guðs.  Þegar sáttmálsörk Jehóva kom inn í búðirnar brutust út mikil fagnaðarlæti meðal allra Ísraelsmanna. Þeir hrópuðu svo hátt að jörðin skalf.  Filistear heyrðu hrópin og sögðu: „Hvernig stendur á þessum hrópum frá búðum Hebreanna?“ Þegar þeir fréttu að örk Jehóva væri komin inn í herbúðirnar  urðu þeir hræddir og sögðu: „Guð er kominn í herbúðirnar!“+ Þeir bættu við: „Það er úti um okkur! Annað eins hefur aldrei gerst.  Nú er úti um okkur! Hver getur bjargað okkur úr höndum þessa máttuga Guðs? Það var hann sem sló Egypta alls konar plágum í eyðimörkinni.+  Verið nú hugrakkir, Filistear, og sýnið karlmennsku svo að þið verðið ekki þrælar Hebreanna eins og þeir voru þrælar ykkar.+ Sýnið karlmennsku og berjist!“ 10  Filistear lögðu þá til atlögu. Ísraelsmenn biðu ósigur+ og hver og einn flúði heim í tjald sitt. Mannfallið var mjög mikið: 30.000 fótgönguliðar Ísraelsmanna féllu. 11  Örk Guðs var tekin herfangi og báðir synir Elí, þeir Hofní og Pínehas, létu lífið.+ 12  Maður nokkur af ættkvísl Benjamíns hljóp frá vígvellinum og kom til Síló sama dag. Hann var í rifnum fötum og með mold á höfðinu.+ 13  Þegar maðurinn kom sat Elí á stól við veginn og beið. Hann hafði miklar áhyggjur af örk hins sanna Guðs.+ Maðurinn fór inn í borgina og sagði fréttirnar. Þá hrópuðu og kveinuðu allir borgarbúar. 14  „Hvaða læti eru þetta?“ spurði Elí þegar hann heyrði ópin. Maðurinn flýtti sér til Elí og sagði honum hvað hafði gerst. 15  (Elí var 98 ára og sá ekki því að augun voru stirðnuð.)+ 16  Maðurinn sagði við Elí: „Ég er nýkominn frá vígvellinum. Ég flúði þaðan í dag.“ „Hvað gerðist, sonur minn?“ spurði Elí. 17  Maðurinn sem flutti fréttirnar sagði: „Ísraelsmenn flúðu undan Filisteum og mannfallið var gríðarlegt.+ Báðir synir þínir, Hofní og Pínehas, eru dánir+ og örk hins sanna Guðs var tekin herfangi.“+ 18  Um leið og hann minntist á örk hins sanna Guðs féll Elí aftur fyrir sig af stólnum við borgarhliðið. Hann hálsbrotnaði og dó því að hann var gamall og þungur. Hann hafði verið dómari í Ísrael í 40 ár. 19  Tengdadóttir hans, kona Pínehasar, var barnshafandi og komin langt á leið. Þegar hún heyrði að örk hins sanna Guðs hefði verið tekin herfangi og að tengdafaðir hennar og eiginmaður væru dánir fékk hún skyndilega hríðir, hné niður og fæddi. 20  Þegar hún var að deyja sögðu konurnar sem stóðu hjá henni: „Vertu ekki hrædd. Þú hefur eignast son.“ En hún svaraði engu og gaf því engan gaum. 21  Hún nefndi drenginn Íkabóð*+ og sagði: „Dýrðin hefur verið herleidd frá Ísrael,“+ og átti þá við að örk hins sanna Guðs hefði verið tekin herfangi og að tengdafaðir hennar og eiginmaður væru dánir.+ 22  „Dýrðin hefur verið herleidd frá Ísrael,“ sagði hún, „vegna þess að örk hins sanna Guðs hefur verið tekin herfangi.“+

Neðanmáls

Orðrétt „sigraði Jehóva okkur frammi fyrir“.
Eða hugsanl. „á milli kerúbanna“.
Sem þýðir ‚hvar er dýrðin?‘