Síðara bréfið til Þessaloníkumanna 1:1–12
1 Frá Páli, Silvanusi* og Tímóteusi+ til safnaðar Þessaloníkumanna sem eru sameinaðir Guði föður okkar og Drottni Jesú Kristi.
2 Megi Guð faðirinn og Drottinn Jesús Kristur sýna ykkur einstaka góðvild og veita ykkur frið.
3 Okkur er skylt, bræður og systur, að þakka Guði alltaf fyrir ykkur. Það er við hæfi því að trú ykkar verður sífellt sterkari og kærleikur ykkar allra hvers til annars fer vaxandi.+
4 Við tölum þess vegna af stolti um ykkur+ meðal safnaða Guðs og segjum frá þolgæði ykkar og trú í öllum þeim ofsóknum og erfiðleikum* sem þið verðið fyrir.*+
5 Allt er þetta sönnun fyrir því að dómur Guðs er réttlátur og leiðir til þess að þið teljist verðug þess að ganga inn í ríki Guðs sem þið þjáist fyrir.+
6 Þessi dómur er réttlátur þar sem Guð refsar þeim sem valda ykkur þjáningum.+
7 En þið sem þjáist fáið hvíld ásamt okkur þegar Drottinn Jesús opinberast+ af himni með máttugum englum sínum+
8 í logandi eldi. Þá kemur hann fram hefndum á þeim sem þekkja ekki Guð og þeim sem hlýða ekki fagnaðarboðskapnum um Drottin okkar Jesú.+
9 Þeir verða dæmdir til eilífrar eyðingar,+ fjarlægðir frá Drottni og dýrlegum mætti hans.
10 Daginn sem hann kemur verður hann dýrlegur ásamt sínum heilögu og allir sem trúa á hann munu dást að honum. Þið trúðuð því sem við boðuðum ykkur og verðið því meðal þeirra.
11 Þess vegna biðjum við alltaf fyrir ykkur að Guð telji ykkur verðug þess að hafa kallað ykkur+ og noti kraft sinn til að fullkomna allt hið góða sem hann vill gera og allt sem gert er í trú.
12 Þá verður nafn Drottins okkar Jesú dýrlegt fyrir atbeina ykkar og þið verðið upphafin vegna sambandsins við hann, þökk sé einstakri góðvild Guðs okkar og Drottins Jesú Krists.