Síðari Konungabók 20:1–21
20 Um þetta leyti veiktist Hiskía og lá fyrir dauðanum.+ Jesaja Amotsson spámaður kom til hans og sagði: „Jehóva segir: ‚Tjáðu heimilisfólki þínu síðustu ósk þína því að þú munt deyja. Þú nærð þér ekki.‘“+
2 Þá sneri hann sér upp að vegg og bað til Jehóva:
3 „Ég bið þig, Jehóva, mundu að ég hef þjónað þér af trúfesti og af öllu hjarta og gert það sem er gott í þínum augum.“+ Síðan grét Hiskía sárlega.
4 Áður en Jesaja var kominn út úr miðforgarðinum kom orð Jehóva til hans:+
5 „Snúðu við og segðu við Hiskía, leiðtoga þjóðar minnar: ‚Jehóva, Guð Davíðs forföður þíns, segir: „Ég hef heyrt bæn þína. Ég hef séð tár þín.+ Ég ætla að lækna þig.+ Þú munt fara upp til húss Jehóva+ ekki á morgun heldur hinn.*
6 Ég mun lengja ævi* þína um 15 ár. Ég ætla að bjarga þér og þessari borg úr höndum Assýríukonungs+ og verja hana sjálfs mín vegna og vegna Davíðs þjóns míns.“‘“+
7 Þá sagði Jesaja: „Komið með köku úr þurrkuðum fíkjum.“ Þeir gerðu það og lögðu hana á kýlið. Eftir það batnaði konungi.+
8 Hiskía hafði spurt Jesaja: „Hvert verður tákn þess+ að Jehóva lækni mig svo að ég geti farið upp til húss Jehóva ekki á morgun heldur hinn?“
9 Jesaja svaraði: „Þetta er táknið sem Jehóva mun gefa til að þú sjáir að Jehóva ætlar að gera það sem hann hefur sagt: Hvort viltu að skugginn á stiganum* færist fram um tíu þrep eða aftur um tíu þrep?“+
10 Hiskía svaraði: „Það er auðvelt fyrir skuggann að færast fram um tíu þrep en ekki að færast aftur um tíu þrep.“
11 Þá hrópaði Jesaja spámaður til Jehóva sem lét skuggann á stiga Akasar færast aftur um þau tíu þrep sem hann hafði þegar farið niður.+
12 Um þetta leyti sendi Beródak Baladan Baladansson, konungur í Babýlon, bréf og gjöf til Hiskía því að hann hafði frétt af veikindum hans.+
13 Hiskía tók vel á móti sendiboðunum og sýndi þeim alla fjárhirslu sína+ – silfrið, gullið, balsamolíuna og aðrar dýrindisolíur, vopnabúr sitt og allt sem var í fjárhirslunum. Það var ekkert í höll Hiskía eða nokkurs staðar í ríki hans sem hann sýndi þeim ekki.
14 Eftir það kom Jesaja spámaður til Hiskía konungs og spurði: „Hvað sögðu þessir menn og hvaðan komu þeir?“ „Þeir komu frá fjarlægu landi,“ svaraði Hiskía, „frá Babýlon.“+
15 Þá spurði Jesaja: „Hvað sáu þeir í höllinni?“ „Þeir sáu allt í höllinni,“ svaraði Hiskía. „Það er ekkert í fjárhirslum mínum sem ég sýndi þeim ekki.“
16 Þá sagði Jesaja við Hiskía: „Hlustaðu á það sem Jehóva segir:+
17 ‚Þeir dagar koma þegar allt í höll þinni og allt sem forfeður þínir hafa safnað til þessa dags verður flutt til Babýlonar.+ Ekkert verður eftir,‘ segir Jehóva.
18 ‚Og nokkrir af afkomendum þínum, sem þú átt eftir að eignast, verða teknir+ og gerðir að hirðmönnum í höll konungsins í Babýlon.‘“+
19 Hiskía sagði þá við Jesaja: „Það sem Jehóva hefur falið þér að segja er gott.“+ Og hann bætti við: „Ég er feginn að það verður friður og stöðugleiki* meðan ég lifi.“+
20 Það sem er ósagt af sögu Hiskía, öllu sem hann afrekaði og hvernig hann gerði tjörnina+ og vatnsleiðsluna og leiddi vatnið inn í borgina,+ er skráð í bókinni um sögu Júdakonunga.
21 Hiskía var lagður til hvíldar hjá forfeðrum sínum.+ Manasse+ sonur hans varð konungur eftir hann.+
Neðanmáls
^ Orðrétt „á þriðja degi“.
^ Orðrétt „daga“.
^ Ef til vill voru þrepin í stiganum notuð til að sýna tíma dags og svipaði þannig til sólskífu.
^ Eða „sannleikur“.