Síðari Konungabók 6:1–33

  • Elísa lætur axarhöfuð fljóta (1–7)

  • Viðureign Elísa og Sýrlendinga (8–23)

    • Augu þjóns Elísa opnuð (16, 17)

    • Sýrlendingar blindaðir (18, 19)

  • Hungursneyð í Samaríu vegna umsáturs (24–33)

6  Dag einn sögðu synir spámannanna+ við Elísa: „Húsnæðið þar sem við búum hjá þér er of lítið fyrir okkur.  Leyfðu okkur að fara að Jórdan. Hver og einn okkar skal sækja þangað bjálka svo að við getum byggt þar hús til að búa í.“ Hann svaraði: „Farið.“  Einn þeirra sagði: „Viltu ekki koma með þjónum þínum?“ Hann svaraði: „Ég skal koma með.“  Hann fór með þeim að Jórdan og þeir tóku að höggva tré.  Þegar einn af þeim var að fella tré flaug axarhöfuðið af og lenti í ánni. Hann hrópaði: „Æ nei, herra, þetta var lánsöxi!“  Maður hins sanna Guðs spurði: „Hvar lenti hún?“ Hann sýndi honum staðinn. Elísa skar þá af trjágrein, henti henni þangað og lét axarhöfuðið fljóta.  „Taktu það upp,“ sagði hann. Þá teygði hann út höndina og tók það upp.  Sýrlandskonungur hélt nú í stríð gegn Ísrael.+ Hann ráðfærði sig við menn sína og sagði þeim hvar hann vildi slá upp búðum með þeim.  Maður hins sanna Guðs+ sendi þá þessi skilaboð til Ísraelskonungs: „Gættu þess að fara ekki fram hjá þessum stað því að þar ætla Sýrlendingar að halda til.“ 10  Þá sendi Ísraelskonungur boð til manna sinna sem voru á staðnum sem guðsmaðurinn hafði varað við. Elísa varaði hann ítrekað við og hann forðaðist oftar en einu sinni og oftar en tvisvar að fara þangað.+ 11  Sýrlandskonungur varð bálreiður. Hann safnaði saman mönnum sínum og sagði við þá: „Hver af okkar mönnum heldur með Ísraelskonungi? Segið mér það!“ 12  Einn af mönnum hans svaraði: „Enginn okkar, herra minn og konungur. Það er Elísa spámaður í Ísrael sem skýrir Ísraelskonungi frá því sem þú segir í svefnherbergi þínu.“+ 13  Þá sagði hann: „Farið og komist að því hvar hann er svo að ég geti sent menn til að handsama hann.“ Nokkru síðar var honum tilkynnt að Elísa væri í Dótan.+ 14  Þá sendi hann hesta og stríðsvagna þangað ásamt fjölmennum her. Þeir komu að næturlagi og umkringdu borgina. 15  Þjónn guðsmannsins fór á fætur snemma um morguninn. Þegar hann gekk út sá hann að her með hesta og stríðsvagna hafði umkringt borgina. „Æ, herra! Hvað eigum við að gera?“ sagði þjónninn við Elísa. 16  En hann svaraði: „Vertu ekki hræddur+ því að það eru fleiri með okkur en þeim.“+ 17  Síðan baðst Elísa fyrir og sagði: „Jehóva, opnaðu augu hans svo að hann sjái.“+ Jehóva opnaði augu þjónsins þegar í stað og hann sá að fjalllendið var þakið eldhestum og eldvögnum+ hringinn í kringum Elísa.+ 18  Þegar Sýrlendingar sóttu fram bað Elísa til Jehóva og sagði: „Gerðu þessa menn* blinda.“+ Hann gerði þá blinda eins og Elísa bað um. 19  Elísa sagði við þá: „Þetta er ekki rétt leið og ekki rétt borg. Fylgið mér. Ég skal leiða ykkur til mannsins sem þið leitið að.“ Síðan fylgdi hann þeim til Samaríu.+ 20  Þegar þeir komu til Samaríu sagði Elísa: „Jehóva, opnaðu augu þeirra svo að þeir sjái.“ Þá opnaði Jehóva augu þeirra og þeir sáu að þeir voru í miðri Samaríu. 21  Þegar Ísraelskonungur sá þá spurði hann Elísa: „Á ég að drepa þá, faðir minn? Á ég að drepa þá?“ 22  En hann svaraði: „Þú skalt ekki drepa þá. Ertu vanur að drepa þá sem þú tekur til fanga með sverði þínu og boga? Gefðu þeim brauð og vatn svo að þeir geti borðað og drukkið.+ Síðan geta þeir snúið aftur til herra síns.“ 23  Þá bauð hann þeim til höfðinglegrar máltíðar og þeir átu og drukku. Síðan sendi hann þá burt og þeir sneru aftur til herra síns. Þaðan í frá komu ránsflokkar Sýrlendinga+ aldrei aftur inn í Ísraelsland. 24  Eftir þetta safnaði Benhadad Sýrlandskonungur öllum her sínum saman, hélt upp til Samaríu og settist um hana.+ 25  Þá varð mikil hungursneyð+ í Samaríu. Umsátrið stóð svo lengi að asnahöfuð+ kostaði 80 silfursikla og fjórðungur úr kab* af dúfnadriti kostaði 5 silfursikla. 26  Eitt sinn þegar Ísraelskonungur var á gangi uppi á borgarmúrnum hrópaði kona til hans: „Hjálpaðu okkur, herra minn og konungur!“ 27  Hann svaraði: „Ef Jehóva hjálpar þér ekki, hvert á ég þá að sækja hjálp handa þér? Til þreskivallarins? Til vín- eða olíupressunnar?“ 28  Síðan spurði konungurinn: „Hvað amar að?“ Hún svaraði: „Þessi kona sagði við mig: ‚Komdu með son þinn. Við skulum borða hann í dag og son minn á morgun.‘+ 29  Þá suðum við son minn og átum hann.+ Daginn eftir sagði ég við hana: ‚Komdu með son þinn svo að við getum borðað hann.‘ En hún faldi son sinn.“ 30  Þegar konungur heyrði það sem konan sagði reif hann fötin sín+ og gekk síðan áfram eftir múrnum. Fólkið sá þá að hann var í hærusekk innan undir fötunum.* 31  Hann sagði: „Guð refsi mér harðlega ef höfuðið situr enn á Elísa Safatssyni í lok dags!“+ 32  Elísa sat í húsi sínu ásamt öldungunum. Konungur sendi mann á undan sér til Elísa en áður en sendiboðinn var kominn sagði Elísa við öldungana: „Vitið þið að þessi morðingjasonur+ hefur sent mann til að höggva af mér höfuðið? Standið vörð og lokið dyrunum þegar sendiboðinn kemur. Haldið dyrunum lokuðum. Heyrist ekki fótatak herra hans á eftir honum?“ 33  Meðan hann var enn að tala við þá kom sendiboðinn til hans. Konungurinn sagði: „Þessi ógæfa kemur frá Jehóva. Hvers vegna ætti ég að bíða lengur eftir hjálp Jehóva?“

Neðanmáls

Orðrétt „þjóð“.
Kab jafngilti 1,22 l. Sjá viðauka B14.
Eða „næst líkama sínum“.