Síðari Kroníkubók 12:1–16

  • Sísak ræðst á Jerúsalem (1–12)

  • Stjórnartíð Rehabeams lýkur (13–16)

12  Fljótlega eftir að Rehabeam var orðinn fastur í sessi sem konungur+ og mjög voldugur yfirgaf hann lög Jehóva+ og allur Ísrael með honum.  Á fimmta stjórnarári Rehabeams konungs fór Sísak+ Egyptalandskonungur í herferð gegn Jerúsalem af því að Ísraelsmenn höfðu verið Jehóva ótrúir.  Hann hafði með sér 1.200 stríðsvagna, 60.000 riddara og ótal hermenn frá Egyptalandi: Líbíumenn, Súkíta og Eþíópíumenn.+  Hann hertók víggirtu borgirnar í Júda og komst að lokum til Jerúsalem.  Semaja+ spámaður kom til Rehabeams og höfðingja Júda sem höfðu safnast saman í Jerúsalem af ótta við Sísak. Hann sagði við þá: „Jehóva segir: ‚Þið hafið yfirgefið mig. Þess vegna yfirgef ég ykkur líka+ og gef ykkur í hendur Sísaks.‘“  Höfðingjar Ísraels og konungurinn auðmýktu sig+ þá og sögðu: „Jehóva er réttlátur.“  Þegar Jehóva sá að þeir auðmýktu sig kom orð Jehóva til Semaja: „Þar sem þeir hafa auðmýkt sig ætla ég ekki að tortíma þeim.+ Áður en langt um líður mun ég bjarga þeim. Ég mun ekki úthella reiði minni yfir þá og ekki láta Sísak eyða Jerúsalem.  En þeir verða þjónar hans svo að þeir sjái muninn á að þjóna mér og konungum annarra landa.“  Sísak Egyptalandskonungur hélt nú í herferð gegn Jerúsalem. Hann tók dýrgripina úr húsi Jehóva+ og konungshöllinni. Hann tók allt saman, þar á meðal gullskildina sem Salómon hafði gert.+ 10  Rehabeam konungur gerði koparskildi í þeirra stað og fól þá foringjum lífvarðanna* til umsjónar en þeir gættu dyra konungshallarinnar. 11  Í hvert skipti sem konungur gekk í hús Jehóva fóru verðirnir með honum og báru skildina en skiluðu þeim síðan aftur í lífvarðaherbergið. 12  Þar sem konungur auðmýkti sig sefaðist reiði Jehóva+ og hann tortímdi þeim ekki með öllu.+ Auk þess var eitt og annað gott í Júda.+ 13  Rehabeam konungur styrkti völd sín í Jerúsalem og ríkti áfram sem konungur. Rehabeam var 41 árs þegar hann varð konungur og hann ríkti í 17 ár í Jerúsalem, borginni sem Jehóva hafði valið úr öllum ættkvíslum Ísraels til að setja nafn sitt á. Móðir hans hét Naama og var frá Ammón.+ 14  En hann gerði það sem var illt því að hann var ekki ákveðinn í að leita Jehóva.+ 15  Saga Rehabeams frá upphafi til enda er skráð í frásögn Semaja+ spámanns og Iddós+ sjáanda, í ættartölunum. Rehabeam og Jeróbóam áttu stöðugt í stríði hvor við annan.+ 16  Rehabeam var lagður til hvíldar hjá forfeðrum sínum og jarðaður í Davíðsborg.+ Abía+ sonur hans varð konungur eftir hann.

Neðanmáls

Orðrétt „hlauparanna“.