Síðari Kroníkubók 18:1–34

  • Bandalag Jósafats og Akabs (1–11)

  • Míkaja spáir ósigri (12–27)

  • Akab drepinn við Ramót í Gíleað (28–34)

18  Jósafat var stórefnaður og naut mikillar virðingar+ en hann stofnaði til hjúskapartengsla við Akab.*+  Nokkrum árum seinna fór hann niður eftir til Akabs í Samaríu.+ Akab fórnaði fjölda sauða og nauta fyrir hann og þá sem voru með honum. Hann þrýsti á Jósafat* að fara með sér upp til Ramót í Gíleað+ og ráðast á borgina.  Akab Ísraelskonungur spurði Jósafat Júdakonung: „Viltu koma með mér til Ramót í Gíleað?“ Hann svaraði: „Ég stend með þér. Mitt fólk er þitt fólk og við styðjum þig í stríðinu.“  Jósafat sagði síðan við Ísraelskonung: „En ráðfærðu þig fyrst við Jehóva.“+  Ísraelskonungur safnaði þá saman spámönnunum, 400 mönnum, og spurði þá: „Eigum við að halda í stríð gegn Ramót í Gíleað eða á ég að hætta við það?“ Þeir svöruðu: „Farðu. Hinn sanni Guð mun gefa borgina í hendur konungs.“  Þá sagði Jósafat: „Er ekki einhver spámaður Jehóva hér?+ Spyrjum hann líka hvað Guð segir.“+  Ísraelskonungur svaraði Jósafat: „Jú, það er enn þá einn eftir+ sem getur spurt Jehóva fyrir okkur. En mér er meinilla við hann því að hann spáir mér aldrei neinu góðu heldur alltaf illu.+ Hann heitir Míkaja Jimlason.“ Þá sagði Jósafat: „Svona ætti konungur ekki að tala.“  Ísraelskonungur kallaði þá á hirðmann og sagði: „Sæktu Míkaja Jimlason tafarlaust.“+  Ísraelskonungur og Jósafat Júdakonungur sátu nú hvor í sínu hásæti klæddir konunglegum skrúða. Þeir sátu á þreskivellinum við borgarhlið Samaríu, og allir spámennirnir spáðu frammi fyrir þeim. 10  Sedekía Kenaanason gerði sér horn úr járni og sagði: „Jehóva segir: ‚Með þessum hornum muntu stanga Sýrlendinga þangað til þú hefur útrýmt þeim.‘“ 11  Allir hinir spámennirnir spáðu því sama og sögðu: „Farðu upp til Ramót í Gíleað og þú munt sigra.+ Jehóva mun gefa borgina í hendur konungs.“ 12  Sendiboðinn sem hafði farið til að sækja Míkaja sagði við hann: „Allir spámennirnir spá konungi góðu gengi. Gerðu það líka+ og spáðu konungi í vil.“+ 13  En Míkaja svaraði: „Svo sannarlega sem Jehóva lifir segi ég aðeins það sem Guð minn segir.“+ 14  Þegar hann kom á fund konungs spurði konungur hann: „Míkaja, eigum við að halda í stríð gegn Ramót í Gíleað eða á ég að hætta við það?“ Hann svaraði um hæl: „Farðu og þú munt sigra. Þeir verða gefnir í hendur ykkar.“ 15  Þá sagði konungur við hann: „Hversu oft þarf ég að láta þig sverja að segja mér eingöngu sannleikann í nafni Jehóva?“ 16  Þá sagði Míkaja: „Ég sé alla Ísraelsmenn dreifða um fjöllin eins og sauði án hirðis.+ Jehóva sagði: ‚Þeir hafa engan herra. Þeir skulu hver og einn fara heim til sín í friði.‘“ 17  Ísraelskonungur sagði þá við Jósafat: „Hvað sagði ég ekki? Hann spáir mér aldrei góðu, bara illu.“+ 18  Míkaja hélt áfram: „Hlustaðu nú á orð Jehóva. Ég sá Jehóva sitja í hásæti sínu+ og allan her himinsins+ standa honum til hægri og vinstri handar.+ 19  Jehóva spurði: ‚Hver vill lokka Akab Ísraelskonung til að fara upp til Ramót í Gíleað og falla þar?‘ Þá sagði einn þetta og annar hitt. 20  Loks steig andi* nokkur+ fram, nam staðar frammi fyrir Jehóva og sagði: ‚Ég skal lokka hann.‘ ‚Hvernig ætlarðu að fara að?‘ spurði Jehóva. 21  Hann svaraði: ‚Ég fer og verð lygaandi í munni allra spámanna hans.‘ Þá sagði Guð: ‚Þú skalt lokka hann og þér mun takast það. Farðu og gerðu þetta.‘ 22  Nú hefur Jehóva lagt lygaanda í munn spámanna þinna.+ En sannleikurinn er sá að Jehóva hefur ákveðið að leiða yfir þig ógæfu.“ 23  Nú gekk Sedekía+ Kenaanason fram, sló Míkaja+ utan undir+ og sagði: „Ertu að segja að andi Jehóva hafi yfirgefið mig til að tala við þig?“+ 24  Míkaja svaraði: „Þú kemst að raun um það daginn sem þú felur þig í innsta herbergi hússins.“ 25  Ísraelskonungur sagði þá: „Takið Míkaja og farið með hann til Amons borgarstjóra og Jóasar konungssonar. 26  Segið við þá: ‚Konungur skipar svo fyrir: „Varpið þessum manni í fangelsi.+ Gefið honum brauð og vatn af skornum skammti þar til ég kem aftur heill á húfi.“‘“ 27  En Míkaja sagði: „Ef þú kemur aftur heill á húfi hefur Jehóva ekki talað við mig.“+ Og hann bætti við: „Heyrið það, allir saman.“ 28  Ísraelskonungur og Jósafat Júdakonungur héldu síðan af stað til Ramót í Gíleað.+ 29  Ísraelskonungur sagði við Jósafat: „Ég ætla að dulbúa mig áður en ég held út í bardagann en þú skalt klæðast konungsskrúðanum.“ Konungur Ísraels dulbjó sig og þeir héldu út í bardagann. 30  Sýrlandskonungur hafði gefið vagnliðsforingjum sínum þessi fyrirmæli: „Berjist ekki við neinn, hvorki háan né lágan, nema konung Ísraels.“ 31  Þegar vagnliðsforingjarnir sáu Jósafat hugsuðu þeir með sér: „Þetta er Ísraelskonungur.“ Þeir héldu því gegn honum til að ráðast á hann. Þá hrópaði Jósafat á hjálp+ og Jehóva hjálpaði honum. Guð bægði þeim frá honum. 32  Þegar vagnliðsforingjarnir sáu að þetta var ekki Ísraelskonungur hættu þeir að elta hann. 33  Maður nokkur skaut handahófskennt af boga sínum og hæfði Ísraelskonung gegnum samskeyti á brynju hans. Konungur sagði þá við vagnstjóra sinn: „Snúðu við og komdu mér úr bardaganum því að ég er illa særður.“+ 34  Bardaginn geisaði allan daginn og Ísraelskonungur þurfti hjálp til að standa uppréttur í vagninum andspænis Sýrlendingum allt til kvölds. Hann dó um sólsetur.+

Neðanmáls

Sonur Jósafats giftist dóttur Akabs af pólitískum ástæðum.
Eða „taldi Jósafat á“.
Eða „engill“.