Síðari Kroníkubók 23:1–21

  • Jójada skerst í leikinn; Jóas gerður að konungi (1–11)

  • Atalía drepin (12–15)

  • Umbætur Jójada (16–21)

23  Á sjöunda árinu tók Jójada í sig kjark og gerði samning* við hundraðshöfðingjana,+ þá Asarja Jeróhamsson, Ísmael Jóhanansson, Asarja Óbeðsson, Maaseja Adajason og Elísafat Síkríson.  Þeir fóru síðan um allan Júda og söfnuðu saman Levítunum+ úr öllum borgum Júda og einnig ættarhöfðingjum Ísraels. Þegar þeir komu til Jerúsalem  gerði allur söfnuðurinn sáttmála+ við konunginn í húsi hins sanna Guðs. Síðan sagði Jójada við þá: „Takið eftir! Sonur konungsins mun ríkja, rétt eins og Jehóva hefur lofað sonum Davíðs.+  Gerið þetta: Þriðjungur prestanna og Levítanna sem eru á vakt+ á hvíldardaginn skal gæta dyranna,+  þriðjungur skal standa við konungshöllina+ og þriðjungur við Grunnhliðið. Allt fólkið skal vera í forgörðum húss Jehóva.+  Leyfið engum að fara inn í hús Jehóva nema prestunum og Levítunum sem þjóna þar.+ Þeir mega ganga inn þar sem þeir eru heilagir. Allt fólkið skal fylgja fyrirmælum Jehóva.  Levítarnir skulu slá hring um konunginn, allir með vopn í hendi. Ef einhver reynir að ryðjast inn í húsið skal drepa hann. Haldið ykkur hjá konunginum hvert sem hann fer.“*  Levítarnir og allir Júdamenn gerðu allt sem Jójada prestur fyrirskipaði. Þeir sóttu menn sína, bæði þá sem voru á vakt á hvíldardeginum og hina sem voru það ekki,+ því að Jójada prestur hafði ekki leyft flokkunum+ að fara að lokinni vakt þeirra.  Jójada prestur lét hundraðshöfðingjana+ hafa spjótin, litlu skildina* og kringlóttu skildina sem Davíð konungur hafði átt+ og voru í húsi hins sanna Guðs.+ 10  Hann lét síðan allt liðið taka sér stöðu með vopn* í hendi, frá suðurhlið hússins til norðurhliðar þess, við altarið og við húsið, allt í kringum konung. 11  Menn leiddu konungssoninn+ út, settu á hann kórónuna og vitnisburðinn*+ og gerðu hann að konungi. Jójada og synir hans smurðu hann og hrópuðu: „Lengi lifi konungurinn!“+ 12  Þegar Atalía heyrði hávaðann í fólkinu sem hljóp um og lofaði konunginn fór hún þegar í stað til húss Jehóva þar sem mannfjöldinn hafði safnast saman.+ 13  Þar sá hún konunginn standa við súluna sína við innganginn. Hún sá höfðingjana+ og lúðrablásarana standa hjá konungi og alla landsmenn fagna+ og blása í lúðra. Söngvararnir stóðu með hljóðfæri sín og stýrðu lofgjörðinni.* Þá reif Atalía föt sín og hrópaði: „Samsæri! Samsæri!“ 14  En Jójada prestur lét hundraðshöfðingjana, yfirmenn hersins, ganga fram og sagði: „Leiðið hana burt frá liðinu og drepið með sverði hvern þann sem fylgir henni!“ En presturinn hafði áður sagt: „Drepið hana ekki í húsi Jehóva.“ 15  Síðan gripu þeir hana og þegar hún var komin að inngangi Hrossahliðsins við konungshöllina drápu þeir hana. 16  Jójada gerði síðan sáttmála milli sín og allrar þjóðarinnar og konungsins um að hún skyldi áfram vera þjóð Jehóva.+ 17  Því næst fór allt fólkið til musteris* Baals, reif það niður,+ braut ölturu hans og líkneski+ og drap Baalsprestinn+ Mattan fyrir framan ölturun. 18  Síðan fól Jójada prestunum og Levítunum umsjón með húsi Jehóva. Davíð hafði skipað þeim í flokka til að gegna þjónustu í húsi Jehóva og færa Jehóva brennifórnir+ eins og lög Móse kváðu á um,+ með gleði og söng í samræmi við fyrirmæli Davíðs. 19  Jójada skipaði einnig hliðvörðunum+ að taka sér stöðu við hliðin að húsi Jehóva svo að enginn sem væri óhreinn á einhvern hátt kæmist inn. 20  Hann safnaði saman hundraðshöfðingjunum,+ aðalsmönnunum, leiðtogum þjóðarinnar og öllum landsmönnum og fylgdi konungi niður frá húsi Jehóva. Þeir gengu gegnum efra hliðið til konungshallarinnar og létu konunginn setjast í konungshásætið.+ 21  Allir íbúar landsins fögnuðu og friður og ró ríkti í borginni því að Atalía hafði verið drepin með sverði.

Neðanmáls

Eða „sáttmála“.
Orðrétt „þegar hann fer út og þegar hann kemur inn“.
Eða „buklarana“. Buklari var lítill skjöldur, gjarnan borinn af bogaskyttum.
Eða „kastvopn“.
Hugsanlega bókrolla með lögum Guðs.
Eða „gáfu merki til lofgjörðarinnar“.
Orðrétt „húss“.