Síðari Kroníkubók 25:1–28
25 Amasía var 25 ára þegar hann varð konungur og hann ríkti í 29 ár í Jerúsalem. Móðir hans hét Jóaddan og var frá Jerúsalem.+
2 Hann gerði það sem var rétt í augum Jehóva, þó ekki af heilu hjarta.
3 Þegar hann var orðinn fastur í sessi drap hann þjóna sína sem höfðu drepið föður hans, konunginn.+
4 En hann drap ekki syni þeirra því að hann fylgdi fyrirmælum Jehóva sem skráð eru í lögunum, í bók Móse: „Feður skulu ekki deyja fyrir syndir sona sinna né synir fyrir syndir feðra sinna heldur skal hver og einn deyja fyrir eigin synd.“+
5 Amasía kallaði nú Júdamenn saman. Hann lét alla Júdamenn og Benjamíníta stilla sér upp eftir ættum sínum undir stjórn foringja þúsund manna flokka og foringja hundrað manna flokka.+ Hann skráði þá sem voru 20 ára og eldri.+ Þeir reyndust vera 300.000 þjálfaðir* hermenn sem gátu haldið til bardaga vopnaðir spjótum og stórum skjöldum.
6 Hann réð einnig 100.000 stríðskappa frá Ísrael fyrir 100 talentur* af silfri.
7 En maður hins sanna Guðs kom til hans og sagði: „Konungur, her Ísraels má ekki fara með þér því að Jehóva er ekki með Ísrael+ né neinum frá Efraím.
8 Farðu án þeirra og berstu af hugrekki. Annars gæti hinn sanni Guð látið þig falla frammi fyrir óvini þínum því að Guð hefur mátt til að hjálpa+ og fella.“
9 Þá sagði Amasía við mann hins sanna Guðs: „En hvað um 100 talenturnar sem ég gaf hermönnum Ísraels?“ Maður hins sanna Guðs svaraði: „Jehóva getur gefið þér miklu meira en það.“+
10 Amasía sendi þá hermennina sem höfðu komið til hans frá Efraím aftur heim til sín. En þeir urðu mjög reiðir út í Júdamenn og sneru aftur heim í heiftarreiði.
11 Nú tók Amasía í sig kjark, fór með her sinn í Saltdalinn+ og drap þar 10.000 menn frá Seír.+
12 Júdamenn tóku einnig 10.000 menn lifandi til fanga, fóru með þá efst upp á klett og hrintu þeim fram af svo að þeir biðu bana.
13 En hermennirnir sem Amasía hafði sent frá sér og ekki leyft að fara með sér í bardagann+ réðust á borgir Júda, allt frá Samaríu+ til Bet Hóron.+ Þeir drápu 3.000 manns og tóku mikið herfang.
14 Þegar Amasía sneri heim eftir sigurinn á Edómítum hafði hann með sér guði Seírmanna. Hann setti þá upp hjá sér sem guði sína,+ féll fram fyrir þeim og lét fórnarreyk stíga upp handa þeim.
15 Jehóva varð mjög reiður út í Amasía og sendi spámann til hans sem spurði: „Hvers vegna tilbiður þú þessa guði sem gátu ekki bjargað sínu eigin fólki úr höndum þínum?“+
16 En konungur greip fram í fyrir honum og sagði: „Hver gerði þig að ráðgjafa konungs?+ Hættu,+ annars verðurðu drepinn.“ Spámaðurinn hætti þá að tala en sagði fyrst: „Ég veit að Guð hefur ákveðið að leiða yfir þig ógæfu vegna þess að þú gerðir þetta og hlustaðir ekki á ráð mitt.“+
17 Eftir að Amasía Júdakonungur hafði rætt við ráðgjafa sína sendi hann þessi skilaboð til Jóasar Ísraelskonungs, sonar Jóahasar Jehúsonar: „Við skulum mætast í bardaga.“*+
18 Jóas Ísraelskonungur sendi þá þetta svar til Amasía Júdakonungs: „Þyrnótt illgresið á Líbanon sendi sedrustrénu á Líbanon þessi skilaboð: ‚Gefðu syni mínum dóttur þína fyrir konu.‘ En villidýr á Líbanon kom og traðkaði illgresið niður.
19 Þú segir við sjálfan þig: ‚Ég hef* sigrað Edóm.‘+ Hjarta þitt er orðið hrokafullt og þú vilt hljóta upphefð. En haltu nú kyrru fyrir. Hvers vegna býðurðu ógæfunni heim, bæði þér og Júda til falls?“
20 En Amasía hlustaði ekki+ enda var það vilji hins sanna Guðs að þeir féllu í hendur óvinarins+ af því að þeir höfðu snúið sér til guða Edóms.+
21 Þá lagði Jóas Ísraelskonungur af stað og bardagi braust út milli hans og Amasía Júdakonungs við Bet Semes+ sem tilheyrir Júda.
22 Júda beið ósigur fyrir Ísrael og hver og einn flúði heim til sín.*
23 Jóas Ísraelskonungur tók Amasía Júdakonung, son Jóasar Jóahassonar,* til fanga við Bet Semes. Hann flutti hann til Jerúsalem og reif niður 400 álnir* af borgarmúrum Jerúsalem, frá Efraímshliðinu+ að Hornhliðinu.+
24 Hann tók allt gull og silfur og alla gripina sem voru í húsi hins sanna Guðs hjá* Óbeð Edóm og í fjárhirslum konungshallarinnar.+ Hann tók einnig gísla og sneri síðan aftur til Samaríu.
25 Amasía+ Jóasson Júdakonungur lifði í 15 ár eftir dauða Jóasar+ Jóahassonar Ísraelskonungs.+
26 Það sem er ósagt af sögu Amasía frá upphafi til enda er skráð í Bók Júda- og Ísraelskonunga.
27 Eftir að Amasía hafði hætt að fylgja Jehóva var gert samsæri+ gegn honum í Jerúsalem. Hann flúði þá til Lakís en menn voru sendir á eftir honum til Lakís og drápu hann þar.
28 Þeir fluttu hann þaðan á hestum og jörðuðu hann hjá forfeðrum hans í borg Júda.
Neðanmáls
^ Orðrétt „útvaldir“.
^ Talenta jafngilti 34,2 kg. Sjá viðauka B14.
^ Eða „augliti til auglitis“.
^ Orðrétt „Þú hefur“.
^ Orðrétt „í tjald sitt“.
^ Jóahas er einnig nefndur Ahasía.
^ Um 178 m. Sjá viðauka B14.
^ Eða „í umsjón“.