Síðari Kroníkubók 3:1–17
3 Salómon hófst nú handa við að byggja hús Jehóva+ í Jerúsalem á Móríafjalli+ þar sem Jehóva hafði birst Davíð föður hans,+ á staðnum sem Davíð hafði undirbúið á þreskivelli Ornans+ Jebúsíta.
2 Hann byrjaði að byggja á öðrum degi annars mánaðarins, á fjórða stjórnarári sínu.
3 Grunnurinn sem Salómon lagði að húsi hins sanna Guðs var 60 álnir á lengd og 20 álnir á breidd+ miðað við eldra lengdarmál.*
4 Forsalurinn var 20 álnir á breidd, jafn breiður og húsið, og 20 álnir* á hæð. Hann klæddi hann hreinu gulli að innan.+
5 Stóra rýmið* þiljaði hann með einiviði, þakti það fínasta gulli+ og skreytti með pálmum+ og keðjum.+
6 Hann skreytti líka húsið með fallegum eðalsteinum+ og gullið+ sem hann notaði var frá Parvaím.
7 Hann þakti húsið gulli,+ þaksperrurnar, þröskuldana, veggina og hurðirnar, og skar út kerúba í veggina.+
8 Því næst gerði hann hið allra helgasta.+ Það var 20 álnir á lengd, eins og húsið var á breiddina, og 20 álnir á breidd. Hann klæddi það 600 talentum* af fínasta gulli.+
9 Gullið sem var notað í naglana vó 50 sikla* og þakherbergin klæddi hann gulli.
10 Í hinu allra helgasta gerði hann höggmyndir af tveim kerúbum sem hann lagði gulli.+
11 Vængir kerúbanna+ voru samanlagt 20 álnir á lengd. Annar vængur annars kerúbsins var fimm álnir á lengd og snerti vegg hússins. Hinn vængurinn var líka fimm álnir og snerti væng hins kerúbsins.
12 Annar vængur hins kerúbsins var fimm álnir á lengd og snerti vegginn á móti. Hinn vængurinn var líka fimm álnir og snerti væng fyrrnefnda kerúbsins.
13 Vænghaf kerúbanna var 20 álnir. Þeir stóðu uppréttir og sneru í átt að stóra rýminu.*
14 Hann gerði einnig fortjaldið+ úr bláu og djúprauðu garni, purpuralitri ull og gæðaefni og skreytti það með kerúbum.+
15 Fyrir framan húsið gerði hann tvær súlur,+ 35 álnir á hæð. Súlnahöfuðin voru hvort um sig fimm álnir.+
16 Hann gerði keðjur sem voru eins og hálsfestar og setti þær efst á súlurnar og einnig 100 granatepli sem hann festi á keðjurnar.
17 Hann reisti súlurnar fyrir framan musterið, aðra hægra* megin og hina vinstra* megin. Hægri súluna nefndi hann Jakín* og þá vinstri Bóas.*
Neðanmáls
^ Stöðluð alin jafngilti 44,5 cm en sumir telja að ‚eldra lengdarmálið‘ eigi við langa alin sem var 51,8 cm. Sjá viðauka B14.
^ Í sumum fornum handritum stendur „120“ en í öðrum handritum og sumum þýðingum segir „20 álnir“.
^ Orðrétt „Stóra húsið“. Líklega er átt við hið heilaga.
^ Talenta jafngilti 34,2 kg. Sjá viðauka B14.
^ Sikill jafngilti 11,4 g. Sjá viðauka B14.
^ Það er, hinu heilaga.
^ Eða „sunnan“.
^ Eða „norðan“.
^ Sem þýðir ‚megi hann [það er, Jehóva] staðfesta‘.
^ Merkir hugsanl. ‚með krafti‘.