Síðari Kroníkubók 31:1–21
31 Eftir hátíðina fóru allir Ísraelsmenn sem höfðu verið viðstaddir til borga Júda. Þeir mölvuðu helgisúlurnar,+ hjuggu niður helgistólpana*+ og rifu niður fórnarhæðirnar+ og ölturun+ alls staðar í Júda og Benjamín og einnig í Efraím og Manasse+ þar til þeim var gereytt. Síðan sneru allir Ísraelsmenn heim til sín, hver til sinnar borgar.
2 Hiskía skipulagði flokka prestanna+ og Levítanna+ svo að prestarnir og Levítarnir höfðu hver sitt verkefni.+ Þeir áttu að færa brennifórnir og samneytisfórnir, sinna þjónustustörfum og þakka Guði og lofa hann í hliðunum að forgörðum* Jehóva.+
3 Konungurinn gaf hluta af eigum sínum fyrir brennifórnirnar+ sem færa átti kvölds og morgna,+ á hvíldardögum,+ tunglkomudögum+ og hátíðunum+ eins og stendur í lögum Jehóva.
4 Hann skipaði einnig íbúum Jerúsalem að gefa prestunum og Levítunum þeirra hlut+ svo að þeir gætu haldið sig fast við lög Jehóva.*
5 Um leið og skipunin hafði verið gefin komu Ísraelsmenn með frumgróðann af uppskerunni – mikið af korni, nýju víni, olíu+ og hunangi og öllu sem ræktað var á ökrunum.+ Þeir komu með tíund af öllu og það var gríðarlega mikið.+
6 Ísraelsmenn og Júdamenn sem bjuggu í borgum Júda komu líka með tíund af nautgripum og sauðfé og tíund af helgigjöfunum+ sem höfðu verið helgaðar Jehóva Guði þeirra. Þeir komu með það og lögðu í marga hauga.
7 Þeir byrjuðu að leggja framlögin í hauga í þriðja mánuðinum+ og luku við það í sjöunda mánuðinum.+
8 Þegar Hiskía og höfðingjarnir komu og sáu haugana lofuðu þeir Jehóva og blessuðu þjóð hans, Ísrael.
9 Hiskía spurði prestana og Levítana um haugana
10 og Asarja, yfirprestur af ætt Sadóks, svaraði honum: „Frá því að fólk fór að koma með framlög til húss Jehóva+ hefur verið nóg að borða og mikill afgangur því að Jehóva hefur blessað fólk sitt. Allt þetta er eftir.“+
11 Þá sagði Hiskía þeim að útbúa geymslur*+ í húsi Jehóva, og þeir gerðu það.
12 Framlögin, tíundirnar+ og helgigjafirnar voru samviskusamlega fluttar þangað. Kananja Levíta var falin umsjón með þeim og Símeí bróðir hans var næstur á eftir honum.
13 Jehíel, Asasja, Nahat, Asael, Jerímót, Jósabad, Elíel, Jismakja, Mahat og Benaja voru aðstoðarmenn Kananja og Símeí bróður hans samkvæmt skipun Hiskía konungs og Asarja var umsjónarmaður húss hins sanna Guðs.
14 Levítinn Kóre Jimnason, hliðvörður við austurhliðina,+ hafði umsjón með sjálfviljafórnum+ hins sanna Guðs. Hann útdeildi framlögunum sem voru færð Jehóva+ og einnig hinum háheilögu gjöfum.+
15 Í prestaborgunum+ voru Eden, Minjamín, Jesúa, Semaja, Amarja og Sekanja undir hans stjórn. Þeir gegndu ábyrgðarstöðum og áttu að skipta gjöfunum jafnt á milli bræðra sinna í flokkunum,+ hárra sem lágra.
16 Auk þess var mat úthlutað til allra karlmanna þriggja ára og eldri sem voru skráðir í ættartölunum, allra sem komu daglega til að þjóna í húsi Jehóva og vinna þau störf sem flokkum þeirra voru falin.
17 Prestarnir voru skráðir í ættartölunum eftir ættum sínum+ og sömuleiðis Levítarnir, 20 ára og eldri,+ eftir þeim verkefnum sem flokkar þeirra höfðu.+
18 Í ættartölunum voru skráð öll börn þeirra, eiginkonur, synir og dætur – allt samfélag þeirra – því að þeir héldu sér hreinum til að geta gegnt heilagri þjónustu sinni sem þeim hafði verið treyst fyrir.
19 Ættartölurnar náðu líka til afkomenda Arons, prestanna sem bjuggu á beitilöndunum fyrir utan borgir sínar.+ Í öllum borgunum voru menn valdir til að deila út mat til allra karlmanna af prestaættum og til allra sem voru skráðir í ættartölum Levítanna.
20 Þetta gerði Hiskía alls staðar í Júda. Hann gerði það sem var gott og rétt í augum Jehóva Guðs síns og var honum trúr.
21 Allt sem hann gerði til að leita Guðs síns, hvort sem það tengdist þjónustunni við hús hins sanna Guðs+ eða lögunum og boðorðunum, gerði hann af öllu hjarta og vegnaði vel.
Neðanmáls
^ Sjá orðaskýringar.
^ Orðrétt „herbúðum“.
^ Eða „algerlega helgað sig lögum Jehóva“.
^ Eða „matsali“.