Síðari Kroníkubók 32:1–33

  • Sanheríb ógnar Jerúsalem (1–8)

  • Sanheríb ögrar Jehóva (9–19)

  • Engill drepur her Assýringa (20–23)

  • Veikindi Hiskía og hroki (24–26)

  • Afrek Hiskía og ævilok (27–33)

32  Eftir að Hiskía hafði gert allt þetta og sýnt slíka trúfesti+ réðst Sanheríb Assýríukonungur inn í Júda. Hann settist um víggirtu borgirnar og ætlaði sér að brjótast í gegnum múra þeirra og ná þeim á sitt vald.+  Þegar Hiskía sá að Sanheríb var kominn til að segja Jerúsalem stríð á hendur  ráðfærði hann sig við höfðingja sína og hermenn. Í framhaldi af því ákvað hann að stífla uppspretturnar fyrir utan borgina,+ og þeir veittu honum stuðning sinn.  Miklum fjölda var safnað saman og fólkið stíflaði allar uppspretturnar og lækinn sem rann um landið. Það sagði: „Hvers vegna ættu Assýríukonungar að finna mikið af vatni þegar þeir koma?“  Hiskía sýndi dug og endurreisti allan múrinn sem hafði verið brotinn niður. Hann reisti turna á honum og fyrir utan borgarmúrinn reisti hann annan múr. Hann gerði einnig við Milló*+ í Davíðsborg og smíðaði fjöldann allan af vopnum* og skjöldum.  Síðan skipaði hann herforingja yfir fólkið og safnaði því saman á torginu við borgarhliðið. Hann hvatti það til dáða* og sagði:  „Verið hugrökk og sterk. Óttist ekki né skelfist Assýríukonung+ og hans fjölmenna her því að það eru fleiri með okkur en honum.+  Með honum er mannlegur máttur* en með okkur er Jehóva Guð okkar til að hjálpa okkur og berjast fyrir okkur.“+ Þessi orð Hiskía Júdakonungs styrktu fólkið.+  Eftir þetta sendi Sanheríb Assýríukonungur þjóna sína til Jerúsalem, en sjálfur var hann við Lakís+ ásamt öllum herafla sínum. Hann sendi þá til Hiskía Júdakonungs og allra Júdamanna í Jerúsalem+ með þessi skilaboð: 10  „Sanheríb Assýríukonungur segir: ‚Á hvað treystið þið fyrst þið eruð um kyrrt í Jerúsalem þótt hún sé umsetin?+ 11  Látið ekki Hiskía blekkja ykkur. Hann segir: „Jehóva Guð okkar bjargar okkur úr höndum Assýríukonungs.“ En þið munuð deyja úr hungri og þorsta.+ 12  Var það ekki einmitt Hiskía sem fjarlægði fórnarhæðir Guðs ykkar*+ og ölturu hans+ og sagði síðan við Júdamenn og Jerúsalembúa: „Þið megið aðeins falla fram fyrir einu altari og láta fórnarreyk ykkar stíga upp af því“?+ 13  Vitið þið ekki hvernig ég og forfeður mínir fórum með þjóðirnar í hinum löndunum?+ Gátu guðir þessara þjóða bjargað landi þeirra úr höndum mínum?+ 14  Enginn af guðum þessara þjóða, sem forfeður mínir tortímdu,* gat bjargað þjóð sinni frá mér. Hvernig á þá Guð ykkar að geta það?+ 15  Látið ekki Hiskía blekkja ykkur og villa um fyrir ykkur á þennan hátt.+ Trúið honum ekki! Enginn guð nokkurrar þjóðar eða ríkis hefur getað bjargað fólki sínu frá mér og forfeðrum mínum. Hvernig á þá Guð ykkar að geta bjargað ykkur frá mér?‘“+ 16  Þjónar hans héldu áfram að hæðast að Jehóva, hinum sanna Guði, og Hiskía þjóni hans. 17  Sanheríb skrifaði einnig bréf+ til að smána Jehóva Guð Ísraels+ og hæðast að honum. Þar stóð: „Guðir þjóðanna í hinum löndunum gátu ekki bjargað fólki sínu frá mér+ og Guð Hiskía getur það ekkert frekar.“ 18  Þeir hrópuðu hátt á máli Gyðinga til íbúa Jerúsalem sem voru uppi á múrnum til að hræða þá og skelfa svo að þeir gætu hertekið borgina.+ 19  Þeir hæddust að Guði Jerúsalem eins og þeir hæddust að guðunum sem þjóðir jarðar tilbiðja og menn hafa búið til. 20  En Hiskía konungur og Jesaja+ Amotsson spámaður báðust fyrir út af þessu og hrópuðu til himins á hjálp+ hvað eftir annað. 21  Þá sendi Jehóva engil og drap alla stríðskappa,+ liðsforingja og hershöfðingja í herbúðum Assýríukonungs. Hann fór því aftur til lands síns með skömm. Nokkru síðar, þegar hann gekk í hof* guðs síns, drápu synir hans hann með sverði.+ 22  Þannig bjargaði Jehóva Hiskía og íbúum Jerúsalem frá Sanheríb Assýríukonungi og öllum óvinum þeirra og gaf þeim frið allt um kring. 23  Margir færðu Jehóva gjafir í Jerúsalem og gáfu Hiskía Júdakonungi gersemar.+ Eftir þetta naut hann mikillar virðingar meðal allra þjóða. 24  Um þetta leyti veiktist Hiskía og lá fyrir dauðanum. Hann bað til Jehóva+ og hann svaraði honum og gaf honum tákn.*+ 25  En Hiskía kunni ekki að meta það góða sem var gert fyrir hann af því að hjarta hans var orðið hrokafullt. Þess vegna kom reiði Guðs yfir hann, Júda og Jerúsalem. 26  En Hiskía auðmýkti sig og hætti að vera hrokafullur+ og íbúar Jerúsalem sömuleiðis. Reiði Jehóva kom því ekki yfir þá á dögum Hiskía.+ 27  Hiskía varð mjög ríkur og mikils metinn.+ Hann gerði sér birgðageymslur+ fyrir silfur, gull, eðalsteina, balsamolíu, skildi og alls konar dýrgripi. 28  Hann gerði einnig geymslur fyrir korn, nýtt vín og olíu, gripahús fyrir alls konar búfé og fjárhús fyrir hjarðirnar. 29  Auk þess reisti hann sér borgir og eignaðist stórar hjarðir nautgripa, sauða og geita því að Guð gaf honum miklar eignir. 30  Það var Hiskía sem stíflaði efri uppsprettu+ Gíhonlindar+ og veitti vatninu niður og vestur til Davíðsborgar.+ Hiskía heppnaðist allt sem hann tók sér fyrir hendur. 31  En þegar talsmenn höfðingja Babýlonar voru sendir til að spyrja hann út í táknið*+ sem hafði orðið í landinu+ lét hinn sanni Guð hann standa á eigin fótum til að reyna hann+ og komast að því hvað byggi í hjarta hans.+ 32  Það sem er ósagt af sögu Hiskía og verkum hans sem vitnuðu um tryggan kærleika+ er skráð í sýn Jesaja+ Amotssonar spámanns í Bók Júda- og Ísraelskonunga.+ 33  Hiskía var lagður til hvíldar hjá forfeðrum sínum og jarðaður í brekkunni upp að gröfum sona Davíðs.+ Allir Júdamenn og Jerúsalembúar heiðruðu hann þegar hann dó. Manasse sonur hans varð konungur eftir hann.

Neðanmáls

Sem þýðir ‚jarðfylling‘. Hugsanlega var þetta einhvers konar virki.
Eða „kastvopnum“.
Orðrétt „talaði til hjartna þess“.
Orðrétt „handleggur úr holdi“.
Orðrétt „fórnarhæðir hans“.
Eða „helguðu eyðingu“. Sjá orðaskýringar.
Orðrétt „hús“.
Eða „fyrirboða“.
Eða „fyrirboðann“.