Önnur Mósebók 39:1–43
39 Þeir gerðu fatnað fyrir þjónustuna í helgidóminum úr fínum vefnaði úr bláa garninu, purpuralitu ullinni og skarlatsrauða garninu.+ Þeir gerðu hinn heilaga fatnað handa Aroni+ eins og Jehóva hafði gefið Móse fyrirmæli um.
2 Hann* gerði hökulinn+ úr gulli, bláu garni, purpuralitri ull, skarlatsrauðu garni og fínu tvinnuðu líni.
3 Þeir hömruðu þynnur úr gullplötum og hann skar þær í þræði. Þræðirnir voru notaðir til að sauma út hökulinn sem var ofinn úr bláa garninu, purpuralitu ullinni, skarlatsrauða garninu og fína líninu.
4 Þeir gerðu hlýra á hökulinn sem voru festir saman að ofan.
5 Beltið* á höklinum til að gyrða hann að sér+ var ofið úr sömu efnum, úr gulli, bláu garni, purpuralitri ull, skarlatsrauðu garni og fínu tvinnuðu líni, eins og Jehóva hafði gefið Móse fyrirmæli um.
6 Síðan greyptu þeir ónyxsteinana í umgjarðir úr gulli og grófu á þá nöfn sona Ísraels eins og grafið er á innsigli.+
7 Hann setti þá á hlýra hökulsins sem minnissteina fyrir syni Ísraels+ eins og Jehóva hafði gefið Móse fyrirmæli um.
8 Hann bjó til brjóstskjöldinn+ og saumaði hann út eins og hökulinn. Hann notaði gull, blátt garn, purpuralita ull, skarlatsrautt garn og fínt tvinnað lín.+
9 Brjóstskjöldurinn var ferningslaga þegar efnið var brotið saman, spönn* á lengd og spönn á breidd.
10 Þeir festu á hann fjórar raðir af steinum. Í fyrstu röðinni var rúbín, tópas og smaragður.
11 Í annarri röðinni var túrkis, safír og jaspis.
12 Í þriðju röðinni var lesemsteinn,* agat og ametýst.
13 Og í fjórðu röðinni var krýsólít, ónyx og jaði. Steinarnir voru greyptir í umgjarðir úr gulli,
14 einn steinn fyrir hvern af 12 sonum Ísraels. Á hverjum steini stóð nafn, grafið eins og á innsigli, en nöfnin stóðu fyrir ættkvíslirnar 12.
15 Síðan gerðu þeir keðjur úr hreinu gulli fyrir brjóstskjöldinn, snúnar saman eins og reipi.+
16 Þeir gerðu tvær umgjarðir úr gulli og tvo gullhringi og festu hringina á efri horn brjóstskjaldarins.
17 Þeir þræddu gullkeðjurnar tvær í gegnum hringina á báðum hornum brjóstskjaldarins.
18 Þeir þræddu síðan endana á keðjunum í gegnum umgjarðirnar tvær og festu þær á hlýra hökulsins að framanverðu.
19 Þeir gerðu tvo gullhringi og festu þá í neðri horn brjóstskjaldarins að innanverðu sem snýr að höklinum.+
20 Þeir gerðu svo tvo gullhringi til viðbótar og festu þá framan á hökulinn fyrir neðan hlýrana og fyrir ofan beltið* þar sem hökullinn er festur saman.
21 Að lokum bundu þeir brjóstskjöldinn með bláu bandi sem lá úr hringjum hans í hringi hökulsins til að halda brjóstskildinum á sínum stað á höklinum fyrir ofan beltið* eins og Jehóva hafði gefið Móse fyrirmæli um.
22 Hann óf ermalausu yfirhöfnina sem er undir höklinum. Hún var öll ofin úr bláu garni.+
23 Hálsmálið á yfirhöfninni var með borða eins og á brynju svo að ekki myndi rifna út úr því.
24 Þessu næst gerðu þeir granatepli úr bláu garni, purpuralitri ull og skarlatsrauðu garni sem var tvinnað saman og festu þau á faldinn á ermalausu yfirhöfninni.
25 Þeir gerðu líka bjöllur úr hreinu gulli og festu á milli granateplanna hringinn í kring á fald yfirhafnarinnar.
26 Þeir settu bjöllur og granatepli á víxl hringinn í kring á fald yfirhafnarinnar sem var notuð við þjónustuna eins og Jehóva hafði gefið Móse fyrirmæli um.
27 Þeir gerðu kyrtla handa Aroni og sonum hans, ofna úr fínu líni.+
28 Þeir gerðu vefjarhöttinn+ og skreyttan höfuðbúnaðinn+ úr fínu líni, stuttbuxurnar*+ úr fínu tvinnuðu líni
29 og beltið, ofið úr fínu tvinnuðu líni, bláu garni, purpuralitri ull og skarlatsrauðu garni, eins og Jehóva hafði gefið Móse fyrirmæli um.
30 Að lokum gerðu þeir gljáandi plötuna, hið heilaga vígslutákn,* úr hreinu gulli og grófu á hana eins og á innsigli: „Jehóva er heilagur.“*+
31 Þeir festu hana á vefjarhöttinn með bandi úr bláu garni eins og Jehóva hafði gefið Móse fyrirmæli um.
32 Allri vinnunni við tjaldbúðina, samfundatjaldið, var nú lokið og Ísraelsmenn gerðu allt sem Jehóva hafði gefið Móse fyrirmæli um.+ Þeir gerðu það í einu og öllu.
33 Síðan komu þeir með tjaldbúðina+ til Móse, tjaldið+ og allan búnað þess: krókana,+ veggrammana,+ þverslárnar,+ súlurnar og undirstöðuplöturnar;+
34 yfirtjaldið úr rauðlituðum hrútskinnum,+ yfirtjaldið úr selskinnum og fortjaldið;+
35 örk vitnisburðarins ásamt stöngum+ og loki;+
36 borðið, öll áhöld þess+ og skoðunarbrauðin;
37 ljósastikuna úr hreinu gulli, lamparöðina á henni,+ öll áhöld hennar+ og olíuna til lýsingar;+
38 gullaltarið,+ smurningarolíuna,+ ilmreykelsið,+ forhengið+ fyrir inngang tjaldsins;
39 koparaltarið+ og kopargrind þess ásamt burðarstöngum+ og öllum áhöldum,+ kerið ásamt undirstöðugrindinni;+
40 tjöld forgarðsins, súlurnar ásamt undirstöðuplötunum,+ forhengið+ fyrir inngang forgarðsins, stögin og tjaldhælana+ og öll áhöld fyrir þjónustuna við tjaldbúðina, það er samfundatjaldið;
41 fatnaðinn úr fínum vefnaði fyrir þjónustuna í helgidóminum, hinn heilaga fatnað Arons prests+ og prestfatnað sona hans.
42 Ísraelsmenn unnu allt verkið í samræmi við öll þau fyrirmæli sem Jehóva hafði gefið Móse.+
43 Móse skoðaði allt verk þeirra og sá að þeir höfðu unnið það eins og Jehóva hafði gefið fyrirmæli um, og Móse blessaði þá.
Neðanmáls
^ Greinilega er átt við Besalel hér og í versi 7, 8 og 22.
^ Eða „Mittisbandið“.
^ Um 22 cm. Sjá viðauka B14.
^ Óþekktur eðalsteinn, hugsanlega raf, hýasint, ópal eða túrmalín.
^ Eða „mittisbandið“.
^ Eða „mittisbandið“.
^ Eða „nærbuxurnar“.
^ Eða „hina heilögu ennisspöng“.
^ Eða „Heilagleiki tilheyrir Jehóva“.