Þriðja Mósebók 12:1–8
-
Hreinsun eftir barnsburð (1–8)
12 Jehóva sagði síðan við Móse:
2 „Segðu Ísraelsmönnum: ‚Ef kona verður barnshafandi og fæðir dreng er hún óhrein í sjö daga eins og hún er óhrein þá daga sem hún er á blæðingum.+
3 Á áttunda degi á að umskera drenginn.+
4 Hún á að halda sig heima í 33 daga til að hreinsa sig af blæðingunni. Hún á ekki að snerta neitt heilagt né koma í helgidóminn fyrr en hreinsunardagar hennar eru liðnir.
5 Ef hún fæðir stúlku er hún óhrein í 14 daga á sama hátt og þegar hún er á blæðingum. Hún á að halda sig heima í 66 daga til að hreinsa sig af blæðingunni.
6 Þegar hreinsunardagar hennar vegna fæðingar sonar eða dóttur eru liðnir á hún að færa prestinum hrútlamb að brennifórn,+ ekki eldra en veturgamalt, og unga dúfu eða turtildúfu að syndafórn við inngang samfundatjaldsins.
7 Presturinn skal bera það fram fyrir Jehóva og friðþægja fyrir hana og hún verður hrein af blæðingu sinni. Þetta eru lögin um konu sem fæðir barn, hvort heldur dreng eða stúlku.
8 En ef hún hefur ekki efni á sauðkind á hún að koma með tvær turtildúfur eða tvær ungar dúfur,+ aðra í brennifórn og hina í syndafórn. Presturinn skal friðþægja fyrir hana og hún verður hrein.‘“