Þriðja Mósebók 13:1–59

  • Ákvæði um holdsveiki (1–46)

  • Holdsveiki í fötum (47–59)

13  Jehóva hélt áfram og sagði við Móse og Aron:  „Ef bólga, hrúður eða blettur myndast á húð einhvers og gæti orðið að holdsveiki*+ á að fara með hann til Arons prests eða einhvers af sonum hans, prestunum.+  Presturinn á að skoða sýkinguna í húðinni. Ef hárið á sýkta svæðinu er orðið hvítt og sýkta svæðið virðist liggja dýpra en húðin umhverfis er það holdsveiki. Presturinn á að skoða sýkta svæðið og úrskurða hann óhreinan.  En ef bletturinn á húðinni er hvítur og virðist ekki liggja dýpra en húðin umhverfis og hárið er ekki orðið hvítt á presturinn að setja hinn sýkta í einangrun í sjö daga.+  Presturinn skoðar hann síðan á sjöunda degi og ef sýkingin virðist óbreytt og ekki hafa breiðst út skal presturinn halda honum í einangrun í sjö daga í viðbót.  Presturinn á að skoða hann aftur á sjöunda degi og ef sýkingin hefur hjaðnað og ekki breiðst út á húðinni skal presturinn úrskurða hann hreinan.+ Þetta var bara hrúður. Maðurinn á síðan að þvo föt sín og er þá hreinn.  En ef útbrotin* breiðast út eftir að hann hefur sýnt sig prestinum til að fá staðfest að hann sé hreinn þarf hann að sýna sig prestinum aftur.*  Presturinn á að skoða hann og ef útbrotin hafa breiðst út á húðinni á hann að úrskurða hann óhreinan. Þetta er holdsveiki.+  Ef einhver fær holdsveiki á að fara með hann til prestsins 10  og presturinn á að skoða hann.+ Ef hvít bólga hefur myndast á húðinni, hárið er orðið hvítt og opið sár+ er á bólgusvæðinu 11  er um að ræða langvinna holdsveiki og presturinn skal úrskurða hann óhreinan. Hann á ekki að setja hann í einangrun+ því að hann er óhreinn. 12  Ef holdsveikin breiðist út þannig að hún þekur allan líkamann frá hvirfli til ilja að því er presturinn fær best séð, 13  og presturinn hefur skoðað hinn sýkta og staðfest að holdsveikin þekur alla húðina skal hann úrskurða hann hreinan.* Fyrst öll húðin er orðin hvít er hann hreinn. 14  En um leið og opið sár myndast á húðinni verður hann óhreinn. 15  Þegar presturinn sér sárið á hann að úrskurða hann óhreinan.+ Sárið er óhreint. Þetta er holdsveiki.+ 16  En ef sárið grær og verður hvítt á hann að fara til prestsins. 17  Presturinn á að skoða hinn sýkta+ og ef sýkta svæðið er orðið hvítt úrskurðar hann að maðurinn sé hreinn. Hann er hreinn. 18  Ef kýli myndast á húð einhvers og hjaðnar síðan 19  en hvít bólga eða ljósrauður blettur myndast þar sem kýlið var, á hann að sýna sig prestinum. 20  Presturinn á að skoða blettinn+ og ef hann virðist liggja dýpra en húðin umhverfis og hárið á honum er orðið hvítt á presturinn að úrskurða hann óhreinan. Það er holdsveiki sem hefur myndast í kýlinu. 21  En ef presturinn skoðar blettinn og sér ekkert hvítt hár á honum, hann liggur ekki dýpra en húðin umhverfis og virðist hafa fölnað á presturinn að setja manninn í einangrun í sjö daga.+ 22  Og ef bletturinn hefur þá breiðst út á húðinni á presturinn að úrskurða hann óhreinan. Þetta er holdsveiki. 23  En ef bletturinn hefur ekki breiðst út er þetta aðeins bólga út frá kýlinu og presturinn skal úrskurða manninn hreinan.+ 24  Ef einhver er með brunasár og ljósrauður eða hvítur blettur myndast á beru holdinu í sárinu 25  á presturinn að skoða hann. Ef hárið á blettinum er orðið hvítt og hann virðist liggja dýpra en húðin umhverfis hefur myndast holdsveiki í sárinu og presturinn á að úrskurða manninn óhreinan. Þetta er holdsveiki. 26  En ef presturinn skoðar blettinn og sér að það er ekkert hvítt hár á honum, hann liggur ekki dýpra en húðin umhverfis og hefur fölnað á presturinn að setja manninn í einangrun í sjö daga.+ 27  Presturinn á að skoða hann á sjöunda degi og ef bletturinn hefur greinilega breiðst út á húðinni á presturinn að úrskurða manninn óhreinan. Þetta er holdsveiki. 28  En ef bletturinn hefur ekki breiðst út heldur fölnað er þetta aðeins bólga í sárinu og presturinn skal úrskurða manninn hreinan. Þetta er bólga í brunasárinu. 29  Þegar sýking myndast á höfði eða höku karls eða konu 30  á presturinn að skoða sýkta svæðið.+ Ef það virðist liggja dýpra en húðin umhverfis og hárið er gult og þunnt skal presturinn úrskurða einstaklinginn óhreinan. Hann er með sýkingu í hársverði eða skeggi. Þetta er holdsveiki á höfði eða höku. 31  En ef presturinn sér að sýkta svæðið virðist ekki liggja dýpra en húðin umhverfis og ekkert svart hár er á því skal hann setja hinn sýkta í einangrun í sjö daga.+ 32  Presturinn á að skoða sýkta svæðið á sjöunda degi og ef sýkingin hefur ekki breiðst út, ekkert gult hár hefur myndast þar og sýkta svæðið virðist ekki liggja dýpra en húðin umhverfis 33  á hinn sýkti að raka sig en þó ekki sýkta svæðið. Síðan á presturinn að setja hann í einangrun í sjö daga. 34  Presturinn á að skoða sýkta svæðið aftur á sjöunda degi og ef sýkingin í hársverðinum eða skegginu hefur ekki breiðst út og virðist ekki liggja dýpra en húðin umhverfis skal presturinn úrskurða manninn hreinan. Hann á að þvo föt sín og er þá hreinn. 35  En ef sýkingin breiðist út á húðinni eftir að hann hefur verið úrskurðaður hreinn 36  á presturinn að skoða hann. Ef sýkingin hefur breiðst út þarf presturinn ekki að leita að gulum hárum. Maðurinn er óhreinn. 37  En ef í ljós kemur að sýkingin hefur ekki breiðst út og svart hár hefur vaxið á sýkta svæðinu er sýkingin horfin. Maðurinn er hreinn og presturinn á að úrskurða hann hreinan.+ 38  Ef blettir myndast á húð karls eða konu og þeir eru hvítir 39  á presturinn að skoða þá.+ Ef húðblettirnir eru fölhvítir eru þetta skaðlaus útbrot. Manneskjan er hrein. 40  Ef maður missir hárið og verður sköllóttur er hann hreinn. 41  Ef hann missir hárið á höfðinu framanverðu og verður sköllóttur þar er hann hreinn. 42  En ef ljósrautt sár myndast á skallanum eða enninu er það holdsveiki sem hann hefur fengið. 43  Presturinn á að skoða hann og ef sýkingin hefur valdið ljósrauðri bólgu á skallanum eða enninu og lítur út eins og holdsveiki 44  þá er hann holdsveikur. Hann er óhreinn og presturinn á að úrskurða hann óhreinan vegna holdsveikinnar á höfði hans. 45  Sá sem er holdsveikur á að ganga í rifnum fötum, hárið á að vera óhirt og hann á að hylja yfirvaraskeggið og kalla: ‚Óhreinn, óhreinn!‘ 46  Hann er óhreinn allan þann tíma sem hann er með sjúkdóminn. Hann á að búa einangraður þar sem hann er óhreinn. Hann á að búa fyrir utan búðirnar.+ 47  Ef holdsveiki leggst á föt, hvort sem þau eru úr ull eða líni, 48  hvort heldur á uppistöðuþræði eða ívaf línsins eða ullarinnar, eða á leður eða eitthvað gert úr leðri 49  og gulgrænn eða rauðleitur blettur myndast á flíkinni, leðrinu, vefnaðinum* eða einhverju úr leðri er það holdsveiki og á að sýna prestinum. 50  Presturinn á að skoða hið sýkta og einangra það í sjö daga.+ 51  Á sjöunda degi á hann að skoða hið sýkta og ef hann sér að bletturinn hefur stækkað á flíkinni, vefnaðinum eða leðrinu (hvernig sem leðrið er notað) þá er um að ræða illkynja holdsveiki og efnið er óhreint.+ 52  Hann á að brenna flíkina, ullar- eða línvefnaðinn eða hvaðeina sem er gert úr leðri og holdsveikin hefur lagst á því að hún er illkynja. Það skal brennt í eldi. 53  En ef presturinn skoðar flíkina, vefnaðinn eða það sem er gert úr leðri og bletturinn hefur ekki stækkað 54  á hann að fyrirskipa að hið sýkta sé þvegið og einangra það í sjö daga til viðbótar. 55  Presturinn á að skoða hið sýkta eftir að það hefur verið þvegið vandlega. Ef sýkti bletturinn virðist óbreyttur er efnið óhreint jafnvel þótt bletturinn hafi ekki stækkað. Þú skalt brenna það í eldi því að sýkingin hefur étið sig inn í það, annaðhvort á réttunni eða röngunni. 56  En ef presturinn hefur skoðað það og sýkti bletturinn hefur dofnað eftir rækilegan þvott á hann að rífa úr flíkinni, leðrinu eða vefnaðinum það sem bletturinn er á. 57  Ef blettur kemur hins vegar í ljós annars staðar á flíkinni, vefnaðinum eða einhverju úr leðri er sýkingin að breiðast út. Þú skalt brenna allt sem er sýkt í eldi.+ 58  En þegar sýktur blettur hverfur af flík, vefnaði eða einhverju úr leðri eftir þvott á að þvo það aftur og þá er það hreint. 59  Þetta eru lögin um holdsveiki í fötum úr ull eða líni, í vefnaði eða í einhverju úr leðri til að hægt sé að úrskurða það hreint eða óhreint.“

Neðanmáls

Hebreska orðið sem þýtt er „holdsveiki“ hefur breiða merkingu og getur náð yfir ýmsa smitnæma húðsjúkdóma. Það getur einnig náð yfir ýmsar sýkingar í húsum eða fatnaði.
Eða „sýkingin“.
Eða „öðru sinni“.
Eða „að hann sé ekki smitberi“.
Orðrétt „uppistöðuþræðinum eða ívafinu“.