Fjórða Mósebók 13:1–33
13 Jehóva sagði nú við Móse:
2 „Sendu menn til að kanna Kanaansland, landið sem ég ætla að gefa Ísraelsmönnum. Sendið einn mann af hverri ættkvísl. Allir eiga þeir að vera höfðingjar.“+
3 Móse sendi þá mennina frá óbyggðum Paran+ í samræmi við fyrirmæli Jehóva. Þeir voru allir höfðingjar meðal Ísraelsmanna.
4 Þeir hétu Sammúa Sakkúrsson af ættkvísl Rúbens,
5 Safat Hóríson af ættkvísl Símeons,
6 Kaleb+ Jefúnneson af ættkvísl Júda,
7 Jígal Jósefsson af ættkvísl Íssakars,
8 Hósea+ Núnsson af ættkvísl Efraíms,
9 Paltí Rafúson af ættkvísl Benjamíns,
10 Gaddíel Sódíson af ættkvísl Sebúlons,
11 Gaddí Súsíson af ættkvísl Jósefs,+ fyrir ættkvísl Manasse,+
12 Ammíel Gemallíson af ættkvísl Dans,
13 Setúr Mikaelsson af ættkvísl Assers,
14 Nakbí Vofsíson af ættkvísl Naftalí
15 og Geúel Makíson af ættkvísl Gaðs.
16 Þetta eru nöfn þeirra manna sem Móse sendi til að kanna landið. Og Móse gaf Hósea Núnssyni nafnið Jósúa.*+
17 Þegar Móse sendi þá til að kanna Kanaansland sagði hann við þá: „Farið um Negeb og síðan upp í fjalllendið.+
18 Þið skuluð athuga hvers konar land þetta er+ og hvort fólkið sem býr þar er sterkt eða veikburða, fátt eða margt,
19 og hvort landið er gott eða vont og borgirnar þar sem fólkið býr eru óvarðar eða víggirtar.
20 Og kannið hvort landið er frjósamt* eða rýrt*+ og hvort þar vaxa tré eða ekki. Verið hugrakkir+ og komið með eitthvað af ávöxtum landsins.“ En þetta var á þeim árstíma sem vínberin byrja að þroskast.+
21 Þeir fóru þá og könnuðu landið allt frá óbyggðum Sin+ til Rehób+ í grennd við Lebó Hamat.*+
22 Þeir fóru um Negeb og komu til Hebron+ en þar bjuggu Anakítarnir+ Ahíman, Sesaí og Talmaí.+ Hebron var byggð sjö árum á undan Sóan í Egyptalandi.
23 Þegar þeir komu í Eskoldal+ skáru þeir af vínviðargrein með einum vínberjaklasa en tvo menn þurfti til að bera hana og þeir báru hana á burðarstöng. Þeir tóku líka með sér nokkur granatepli og fíkjur.+
24 Þeir kölluðu staðinn Eskoldal*+ vegna klasans sem þeir tóku þar.
25 Eftir 40 daga+ höfðu þeir kannað landið og sneru þá til baka.
26 Þeir komu aftur til Móse, Arons og alls safnaðar Ísraelsmanna í Kades í óbyggðum Paran.+ Þeir sögðu fólkinu frá því sem þeir höfðu séð og sýndu því ávexti frá landinu.
27 Þeir sögðu Móse svo frá: „Við fórum til landsins sem þú sendir okkur til. Það flýtur svo sannarlega í mjólk og hunangi+ og þetta eru ávextir þaðan.+
28 En fólkið sem býr í landinu er sterkt og borgirnar eru víggirtar og mjög stórar. Við sáum líka Anakíta þar.+
29 Amalekítar+ búa á Negebsvæðinu,+ Hetítar, Jebúsítar+ og Amorítar+ í fjalllendinu og Kanverjar+ við sjávarsíðuna+ og meðfram Jórdan.“
30 Kaleb reyndi nú að róa fólkið þar sem það stóð frammi fyrir Móse. Hann sagði: „Förum tafarlaust og leggjum undir okkur landið því að það er öruggt að við getum unnið það.“+
31 En mennirnir sem höfðu farið með honum sögðu: „Við getum ekki farið og barist gegn þessu fólki því að það er öflugra en við.“+
32 Þeir gáfu Ísraelsmönnum slæma mynd af landinu+ sem þeir höfðu kannað og sögðu: „Landið sem við fórum um og könnuðum er land sem gleypir íbúa sína og allir sem við sáum þar voru óvenju stórvaxnir.+
33 Og við sáum risana,* syni Anaks+ sem eru komnir af risunum. Í samanburði við þá vorum við eins og engisprettur, bæði í þeirra augum og okkar eigin.“
Neðanmáls
^ Eða „Jehósúa“ sem merkir ‚Jehóva er hjálpræði‘.
^ Orðrétt „magurt“.
^ Orðrétt „feitt“.
^ Eða „staðinn þar sem farið er inn í Hamat“.
^ Eskol merkir ‚vínberjaklasi‘.
^ Á hebr. nefilím′. Sjá orðaskýringar.