Dómarabókin 15:1–20

  • Samson hefnir sín á Filisteum (1–20)

15  Nokkru síðar, um hveitiuppskerutímann, fór Samson til að hitta konuna sína og hafði með sér kiðling. Hann sagði: „Ég ætla að fara inn í svefnherbergið* til konunnar minnar.“ En faðir hennar vildi ekki hleypa honum inn  heldur sagði: „Ég var viss um að þú hataðir hana+ svo að ég gaf hana brúðarsveini þínum.+ Er ekki yngri systir hennar fallegri en hún? Taktu hana í staðinn.“  En Samson sagði: „Í þetta sinn geta Filistear ekki ásakað mig fyrir að gera sér mein.“  Samson fór síðan og veiddi 300 refi. Hann tók blys, batt refina saman á skottinu tvo og tvo og batt blysin við skottin.  Síðan kveikti hann á blysunum og sleppti refunum út á kornakra Filistea. Hann kveikti í öllu, bæði óslegnu korni og knippum, og sömuleiðis víngörðum og ólívulundum.  „Hver gerði þetta?“ spurðu Filistear. Menn svöruðu: „Það var Samson, tengdasonur Timnítans, því að hann tók konu hans og gaf brúðarsveini hans.“+ Filistear fóru þá upp eftir og brenndu hana og föður hennar til bana.+  Samson sagði við þá: „Fyrst þið farið svona að ætla ég ekki að hætta fyrr en ég hef náð fram hefndum á ykkur.“+  Hann felldi Filisteana hvern á fætur öðrum* og gersigraði þá. Síðan fór hann þaðan og kom sér fyrir í helli* í Etamskletti.  Filistear komu nú upp eftir, settu búðir sínar í Júda og voru á sveimi um Lekí.+ 10  Júdamenn spurðu þá: „Af hverju komið þið og ráðist á okkur?“ En þeir svöruðu: „Við erum komnir til að taka Samson til fanga* og fara með hann eins og hann fór með okkur.“ 11  Þá fóru 3.000 Júdamenn niður að hellinum* í Etamskletti og sögðu við Samson: „Veistu ekki að Filistear ráða yfir okkur?+ Af hverju hefurðu gert okkur þetta?“ „Ég gerði þeim það sama og þeir gerðu mér,“ svaraði hann. 12  En þeir sögðu við hann: „Við komum til að handtaka* þig og framselja þig Filisteum.“ Þá sagði Samson: „Sverjið mér þess eið að þið ætlið ekki sjálfir að drepa mig.“ 13  Þeir svöruðu: „Við ætlum bara að binda þig og framselja þig þeim. Við drepum þig ekki.“ Þeir bundu hann síðan með tveim nýjum reipum og fóru með hann burt frá klettinum. 14  Þegar hann kom til Lekí og Filistear sáu hann ráku þeir upp siguróp. En andi Jehóva gaf honum kraft+ og reipin um hendur hans urðu eins og sviðnir línþræðir og fjötrarnir féllu af höndum hans.+ 15  Hann fann nýtt kjálkabein úr asna, greip það og drap með því 1.000 menn.+ 16  Síðan sagði Samson: „Með asnakjálka – haugur af líkum á haug ofan! Með asnakjálka drap ég 1.000 menn.“+ 17  Að svo mæltu kastaði hann frá sér kjálkabeininu og hann kallaði staðinn Ramat Lekí.*+ 18  Samson varð nú mjög þyrstur og kallaði til Jehóva: „Þú hefur veitt þjóni þínum þennan mikla sigur. Á ég nú að deyja úr þorsta og falla í hendur óumskorinna manna?“ 19  Guð klauf þá holu sem var í Lekí og vatn spratt upp úr henni.+ Þegar hann drakk hjarnaði hann við og hresstist allur. Þess vegna nefndi hann staðinn En Hakkóre* en lindin er í Lekí enn þann dag í dag. 20  Samson var dómari í Ísrael í 20 ár á dögum Filistea.+

Neðanmáls

Eða „innsta herbergið“.
Eða „felldi þá og hrúgaði leggjum á læri“.
Eða „skoru“.
Eða „binda Samson“.
Eða „skorunni“.
Eða „binda“.
Sem þýðir ‚kjálkahæð‘.
Sem þýðir ‚lind þess sem kallar‘.