Bréfið til Efesusmanna 5:1–33
5 Líkið því eftir Guði+ sem elskuð börn hans
2 og lifið í kærleika+ eins og Kristur elskaði okkur*+ og gaf sjálfan sig fyrir okkur* að fórnargjöf og sláturfórn sem ilmar vel fyrir Guði.+
3 Kynferðislegt siðleysi* og hvers kyns óhreinleiki eða ágirnd á ekki einu sinni að koma til tals meðal ykkar+ því að það sæmir ekki heilögum.+
4 Forðist líka skammarlega hegðun, heimskulegt tal og grófa brandara+ því að allt slíkt er óviðeigandi. Færið heldur Guði þakkir.+
5 Þið vitið og ykkur er fullljóst að enginn sem er siðlaus í kynferðismálum,*+ óhreinn eða ágjarn,+ sem er það sama og að dýrka skurðgoð, fær nokkurn arf í ríki Krists og Guðs.+
6 Látið engan villa um fyrir ykkur með innantómum orðum því að vegna þess sem ég hef nefnt kemur reiði Guðs yfir þá sem hlýða ekki.
7 Eigið ekkert saman við þá að sælda.
8 Einu sinni voruð þið myrkur en nú eruð þið ljós+ þar sem þið tilheyrið Drottni.+ Hegðið ykkur áfram sem börn ljóssins
9 því að ávöxtur ljóssins er hvers kyns góðvild, réttlæti og sannleikur.+
10 Haldið áfram að fullvissa ykkur um hvað Drottni er þóknanlegt+
11 og hættið að taka þátt í verkum myrkursins+ sem eru einskis virði. Afhjúpið þau öllu heldur.
12 Það sem fólk gerir í leynum er jafnvel skammarlegt að nefna.
13 Allt er afhjúpað þegar það kemur fram í ljósið og það sem kemur fram í ljósið er upplýst.
14 Þess vegna segir: „Vaknaðu, þú sem sefur, og rístu upp frá dauðum.+ Þá mun Kristur skína á þig.“+
15 Gætið þess vandlega að hegða ykkur ekki eins og óskynsamar manneskjur heldur skynsamar
16 og notið tímann sem best*+ því að dagarnir eru vondir.
17 Verið því ekki lengur óskynsöm heldur reynið að átta ykkur á hver sé vilji Jehóva.*+
18 Og drekkið ykkur ekki drukkin af víni+ því að það leiðir til ólifnaðar.* Fyllist heldur andanum.
19 Styrkið hvert annað* með sálmum, lofsöngvum til Guðs og andlegum ljóðum. Syngið+ fyrir Jehóva* og leikið undir+ í hjörtum ykkar+
20 og þakkið alltaf+ Guði okkar og föður fyrir allt í nafni Drottins okkar Jesú Krists.+
21 Verið undirgefin hvert öðru+ af lotningu fyrir Kristi.
22 Konur séu undirgefnar eiginmönnum sínum+ eins og þær eru undirgefnar Drottni
23 því að maðurinn er höfuð konu sinnar+ eins og Kristur er höfuð safnaðarins,+ líkama síns sem hann frelsar.
24 Konur eiga að vera undirgefnar eiginmönnum sínum í öllu eins og söfnuðurinn er undirgefinn Kristi.
25 Þið menn, elskið eiginkonur ykkar+ eins og Kristur elskaði söfnuðinn og gaf líf sitt fyrir hann+
26 til að helga hann og hreinsa með vatni, það er orði Guðs.+
27 Þannig gat hann leitt söfnuðinn fram fyrir sig í allri sinni dýrð, heilagan og lýtalausan,+ án þess að hann hefði blett eða hrukku eða nokkuð slíkt.+
28 Á sama hátt á eiginmaður að elska konu sína eins og eigin líkama. Sá sem elskar konu sína elskar sjálfan sig.
29 Enginn hefur nokkurn tíma hatað eigin líkama heldur nærir hann líkamann og annast eins og Kristur söfnuðinn
30 en við erum limir á líkama hans.+
31 „Af þeirri ástæðu yfirgefur maður föður sinn og móður og binst* konu sinni og þau tvö verða eitt.“*+
32 Þessi heilagi leyndardómur+ er mikill. Nú er ég að tala um Krist og söfnuðinn.+
33 Hvað sem því líður á hver og einn að elska eiginkonu sína+ eins og sjálfan sig en konan beri djúpa virðingu fyrir manni sínum.+
Neðanmáls
^ Eða hugsanl. „ykkur“.
^ Eða hugsanl. „ykkur“.
^ Á grísku pornei′a. Sjá orðaskýringar.
^ Sjá orðaskýringar, „kynferðislegt siðleysi“.
^ Orðrétt „kaupið upp tíma“.
^ Sjá viðauka A5.
^ Eða „taumleysis“.
^ Eða hugsanl. „sjálf ykkur“.
^ Sjá viðauka A5.
^ Eða „heldur sig við“.
^ Orðrétt „eitt hold“.