Bréfið til Hebrea 12:1–29
12 Þar sem við erum umkringd slíkum fjölda votta* skulum við líkja eftir þeim og losa okkur við allar byrðar og syndina sem er auðvelt að flækja sig í.+ Hlaupum þolgóð í hlaupinu sem við eigum fram undan+
2 og horfum einbeitt til Jesú, höfðingja trúar okkar sem fullkomnar hana.+ Vegna gleðinnar sem hann átti í vændum þraukaði hann á kvalastaur,* lét smánina ekki á sig fá og er nú sestur hægra megin við hásæti Guðs.+
3 Já, virðið hann vandlega fyrir ykkur sem hefur þolað slíkan fjandskap* syndara,+ manna sem gera sjálfum sér ógagn. Þá þreytist þið ekki og gefist ekki upp.+
4 Enn hefur barátta ykkar við syndina ekki komist á það stig að hún hafi kostað ykkur lífið.
5 Þið hafið steingleymt hvatningunni sem þið fáið sem synir: „Sonur minn, gerðu ekki lítið úr öguninni frá Jehóva* og gefstu ekki upp þegar hann leiðréttir þig,
6 því að Jehóva* agar þá sem hann elskar og refsar* öllum sem hann tekur að sér sem syni.“+
7 Þið þurfið að halda út til að njóta góðs af öguninni.* Guð fer með ykkur eins og syni.+ Hvaða sonur hlýtur ekki ögun frá föður sínum?+
8 Ef þið hafið ekki fengið ögun eins og hinir eruð þið óskilgetin börn en ekki synir.
9 Mennskir feður* okkar öguðu okkur og við bárum virðingu fyrir þeim. Ættum við þá ekki enn frekar að vera undirgefin andlegum föður okkar* og lifa?+
10 Þeir öguðu okkur um stuttan tíma eins og þeir töldu best en hann gerir það okkur til góðs þannig að við getum átt hlutdeild í heilagleika hans.+
11 Reyndar virðist enginn agi vera gleðiefni í byrjun heldur er hann sársaukafullur* en eftir á færir hann þeim sem hafa þegið hann ávöxt sem leiðir til friðar, það er að segja réttlæti.
12 Styrkið því máttlausar hendur og veikburða hné+
13 og látið fætur ykkar alltaf ganga beinar brautir+ til að hið veikburða fari ekki úr lið heldur verði heilbrigt.
14 Leggið ykkur fram um að eiga frið við alla+ og vera heilög*+ en án þess getur enginn séð Drottin.
15 Gætið þess vandlega að enginn fari á mis við einstaka góðvild Guðs svo að engin eiturrót spretti sem veldur usla og eitrar* marga.+
16 Og gætið þess að enginn sé meðal ykkar sem stundar kynferðislegt siðleysi* eða kann ekki að meta það sem er heilagt, líkt og Esaú sem lét frumburðarrétt sinn af hendi í skiptum fyrir eina máltíð.+
17 Eins og þið vitið var honum síðar hafnað þegar hann vildi hljóta blessunina. Hann reyndi ákaft og með tárum að fá föður sinn til að skipta um skoðun+ en allt kom fyrir ekki.*
18 Þið eruð ekki komin til fjalls sem hægt er að þreifa á+ og stendur í ljósum logum,+ né að dimmu skýi, svartamyrkri og stormi,+
19 lúðrablæstri+ og rödd sem talar.+ Þegar fólkið heyrði hana baðst það undan því að meira væri talað til sín.+
20 Það hræddist skipunina: „Þó að það sé ekki nema skepna sem snertir fjallið skal grýta hana.“+
21 Það sem fólkið sá var svo ógnvekjandi að Móse sagði: „Ég skelf af hræðslu.“+
22 En þið eruð komin til Síonarfjalls+ og borgar hins lifandi Guðs, hinnar himnesku Jerúsalem,+ og til óteljandi* engla
23 á fjöldasamkomu,+ til safnaðar frumgetinna sem eru skráðir á himnum, til Guðs sem er dómari allra,+ til andlegs lífs+ hinna réttlátu sem hafa fullkomnast,+
24 til Jesú, milligöngumanns+ nýs sáttmála,+ og til blóðsins sem slett var og talar með betri hætti en blóð Abels.+
25 Gætið þess að hafna ekki* þeim sem talar. Þeir sem vildu ekki hlusta á þann sem flutti viðvörun Guðs á jörð komust ekki undan. Hve miklu síður komumst við þá undan ef við snúum baki við honum sem talar af himnum.+
26 Jörðin skalf undan rödd hans+ á þeim tíma en nú hefur hann lofað: „Ég mun enn einu sinni láta jörðina skjálfa og sömuleiðis himininn.“+
27 Þegar sagt er „enn einu sinni“ gefur það til kynna að það sem skelfur verði fjarlægt, það er að segja það sem myndað hefur verið, til að það sem skelfur ekki skuli standa.
28 Þar sem við eigum að fá ríki sem getur ekki bifast biðjum við að við megum halda áfram að njóta einstakrar góðvildar, en hennar vegna getum við veitt Guði heilaga þjónustu á velþóknanlegan hátt með lotningu og guðsótta
29 því að Guð okkar er eyðandi eldur.+
Neðanmáls
^ Orðrétt „svo stóru skýi af vottum“.
^ Sjá orðaskýringar.
^ Eða „þolað svo mörg fjandsamleg orð“.
^ Sjá viðauka A5.
^ Sjá viðauka A5.
^ Orðrétt „hýðir“.
^ Eða „uppeldinu“.
^ Orðrétt „Feður holds“.
^ Eða „undirgefin föður okkar andlega lífs“.
^ Eða „til hryggðar“.
^ Eða „helguð“.
^ Eða „óhreinkar“.
^ Sjá orðaskýringar.
^ Orðrétt „en fann ekkert rúm fyrir það“.
^ Eða „tugþúsunda“.
^ Eða „afsaka ykkur ekki frammi fyrir; hunsa ekki“.