Jóhannes segir frá 13:1–38

  • Jesús þvær fætur lærisveinanna (1–20)

  • Jesús gefur til kynna að Júdas svíki hann (21–30)

  • Nýtt boðorð (31–35)

    • „Ef þið berið kærleika hver til annars“ (35)

  • Jesús segir fyrir að Pétur afneiti honum (36–38)

13  Jesús vissi fyrir páskahátíðina að tíminn var kominn+ til að hann yfirgæfi þennan heim og færi til föðurins.+ Hann hafði elskað sína sem voru í heiminum og hann elskaði þá allt til enda.+  Þeir voru að borða kvöldmáltíðina og Djöfullinn hafði nú þegar blásið Júdasi Ískaríot+ Símonarsyni í brjóst að svíkja hann.+  Jesús vissi að faðirinn hafði lagt allt í hendur hans og að hann var kominn frá Guði og var að fara til hans.+  Hann stóð því upp frá kvöldmáltíðinni, lagði frá sér yfirhöfnina, tók handklæði og batt það um mittið.+  Síðan hellti hann vatni í þvottaskál og fór að þvo fætur lærisveinanna og þurrka þá með handklæðinu sem hann hafði bundið um sig.  Nú kom röðin að Símoni Pétri. „Drottinn, ætlarðu að þvo mér um fæturna?“ spurði hann.  Jesús svaraði: „Þú skilur ekki núna hvað ég er að gera en þú skilur það seinna.“  Þá sagði Pétur: „Þú skalt aldrei nokkurn tíma þvo mér um fæturna.“ Jesús svaraði: „Ef ég þvæ þér ekki+ áttu enga samleið með mér.“  „Drottinn, þvoðu mér ekki bara um fæturna heldur líka um hendurnar og höfuðið,“ sagði Símon Pétur. 10  Jesús svaraði: „Sá sem hefur baðað sig þarf ekki annað en að fá fæturna þvegna því að hann er allur hreinn. Og þið eruð hreinir en þó ekki allir.“ 11  Hann vissi hver myndi svíkja hann+ og það var þess vegna sem hann sagði: „Þið eruð ekki allir hreinir.“ 12  Þegar hann hafði þvegið þeim um fæturna og klætt sig í yfirhöfnina lagðist hann aftur til borðs og sagði við þá: „Skiljið þið hvað ég hef gert fyrir ykkur? 13  Þið kallið mig ‚kennara‘ og ‚Drottin‘ og það er rétt hjá ykkur því að ég er það.+ 14  Fyrst ég, sem er Drottinn og kennari, hef þvegið ykkur um fæturna+ ættuð þið líka* að þvo fætur hver annars.+ 15  Ég hef gefið ykkur fordæmi. Þið skuluð gera það sama og ég hef gert fyrir ykkur.+ 16  Ég segi ykkur með sanni að þjónn er ekki æðri húsbónda sínum né sendiboði æðri þeim sem sendi hann. 17  Þetta vitið þið og þið eruð hamingjusamir ef þið farið eftir því.+ 18  Ég er ekki að tala um ykkur alla. Ég þekki þá sem ég hef valið. En þetta var til þess að ritningarstaðurinn myndi rætast+ sem segir: ‚Sá sem borðaði af brauði mínu hefur snúist gegn mér.‘*+ 19  Ég segi ykkur þetta núna svo að þið trúið, þegar það gerist, að ég er sá sem ég segist vera.+ 20  Ég segi ykkur með sanni að hver sem tekur við þeim sem ég sendi tekur líka við mér+ og hver sem tekur við mér tekur líka við þeim sem sendi mig.“+ 21  Að svo mæltu fylltist Jesús mikilli angist og sagði berum orðum: „Ég segi ykkur með sanni: Einn ykkar mun svíkja mig.“+ 22  Lærisveinarnir litu hver á annan og vissu ekki við hvern hann ætti.+ 23  Sá lærisveinn Jesú sem hann elskaði+ lá til borðs við hliðina á* honum. 24  Símon Pétur gaf honum bendingu og sagði: „Segðu okkur um hvern hann er að tala.“ 25  Lærisveinninn hallaði sér þá upp að brjósti Jesú og spurði: „Drottinn, hver er það?“+ 26  Jesús svaraði: „Það er sá sem ég rétti brauðbitann sem ég dýfi í skálina.“+ Eftir að hafa dýft brauðinu í skálina rétti hann Júdasi það, syni Símonar Ískaríots. 27  Þegar Júdas hafði tekið brauðbitann fór Satan í hann.+ Jesús sagði þá: „Það sem þú gerir skaltu gera fljótt.“ 28  En enginn þeirra sem lágu til borðs skildi hvers vegna hann sagði þetta við hann. 29  Þar sem Júdas sá um peningabaukinn+ héldu reyndar sumir að Jesús væri að biðja hann að kaupa það sem þeir þurftu til hátíðarinnar eða að gefa fátækum eitthvað. 30  Eftir að hafa fengið brauðbitann fór hann rakleiðis út, en þá var nótt.+ 31  Þegar hann var farinn sagði Jesús: „Nú verður Mannssonurinn upphafinn+ og Guð verður dýrlegur vegna hans. 32  Guð sjálfur veitir honum dýrð+ og hann gerir það umsvifalaust. 33  Börnin mín, ég verð hjá ykkur skamma stund í viðbót. Þið munuð leita að mér og ég segi nú við ykkur eins og ég sagði við Gyðingana: ‚Þið komist ekki þangað sem ég fer.‘+ 34  Ég gef ykkur nýtt boðorð, að þið elskið hver annan. Elskið hver annan+ eins og ég hef elskað ykkur.+ 35  Allir munu vita að þið eruð lærisveinar mínir ef þið berið kærleika hver til annars.“+ 36  Símon Pétur sagði við hann: „Drottinn, hvert ertu að fara?“ Jesús svaraði: „Þú getur ekki fylgt mér núna þangað sem ég fer en þú fylgir mér seinna.“+ 37  Pétur sagði þá: „Drottinn, hvers vegna get ég ekki fylgt þér núna? Ég skal leggja líf mitt í sölurnar fyrir þig.“+ 38  Jesús svaraði: „Ertu fús til að leggja lífið í sölurnar fyrir mig? Ég segi þér með sanni að hani mun alls ekki gala fyrr en þú hefur afneitað mér þrisvar.“+

Neðanmáls

Eða „ber ykkur líka skylda til“.
Orðrétt „lyft hæl sínum á móti mér“.
Orðrétt „við brjóst“.