Jóhannes segir frá 4:1–54

  • Jesús og samverska konan (1–38)

    • Að tilbiðja Guð „í anda og sannleika“ (23, 24)

  • Margir Samverjar trúa á Jesú (39–42)

  • Jesús læknar son embættismanns (43–54)

4  Drottinn uppgötvaði að farísear hefðu frétt að hann* fengi og skírði+ fleiri lærisveina en Jóhannes.  Reyndar skírði Jesús ekki sjálfur heldur lærisveinar hans.  Hann fór þá frá Júdeu og sneri aftur til Galíleu  en hann varð að fara um Samaríu.  Á leiðinni kom hann til borgar í Samaríu sem heitir Síkar, nálægt landspildunni sem Jakob gaf Jósef syni sínum.+  Þar var Jakobsbrunnur.+ Jesús var þreyttur eftir ferðalagið og hafði sest við brunninn.* Þetta var um sjöttu stund.*  Samversk kona kom til að sækja vatn. Jesús sagði við hana: „Gefðu mér að drekka.“  (En lærisveinar hans höfðu farið inn í borgina til að kaupa mat.)  Konan spurði hann þá: „Hvernig stendur á því að þú sem ert Gyðingur biður mig, samverska konu, um vatn að drekka?“ (En Gyðingar eiga engin samskipti við Samverja.)+ 10  Jesús svaraði: „Ef þú vissir af gjöf Guðs+ og hver það er sem segir við þig: ‚Gefðu mér að drekka,‘ þá myndirðu biðja hann um vatn og hann gæfi þér lifandi vatn.“+ 11  Þá sagði hún: „Herra, þú ert ekki einu sinni með fötu til að sækja vatn og brunnurinn er djúpur. Hvaðan færðu þá þetta lifandi vatn? 12  Ekki ertu meiri en Jakob forfaðir okkar sem gaf okkur brunninn og drakk úr honum ásamt sonum sínum og búfé?“ 13  Jesús svaraði: „Allir sem drekka af þessu vatni verða þyrstir aftur. 14  En sá sem drekkur af vatninu sem ég gef honum verður aldrei þyrstur framar+ því að vatnið sem ég gef honum verður að uppsprettu í honum sem streymir fram og veitir eilíft líf.“+ 15  Konan sagði við hann: „Herra, gefðu mér þetta vatn svo að ég verði ekki þyrst og þurfi ekki að koma hingað til að sækja vatn.“ 16  Jesús sagði þá: „Farðu og náðu í eiginmann þinn.“ 17  „Ég á engan mann,“ svaraði konan. „Það er rétt sem þú segir að þú eigir engan mann,“ sagði Jesús, 18  „því að þú hefur átt fimm menn og maðurinn sem þú býrð með núna er ekki eiginmaður þinn. Þetta sagðirðu satt.“ 19  Konan sagði: „Herra, ég sé að þú ert spámaður.+ 20  Forfeður okkar tilbáðu Guð á þessu fjalli en þið segið að það sé í Jerúsalem sem eigi að tilbiðja hann.“+ 21  Jesús svaraði henni: „Trúðu mér, kona, sá tími kemur að þið munuð hvorki tilbiðja föðurinn á þessu fjalli né í Jerúsalem. 22  Þið tilbiðjið það sem þið þekkið ekki.+ Við tilbiðjum það sem við þekkjum því að frelsunin hefst hjá Gyðingum.+ 23  En sá tími kemur, og er nú kominn, að hinir sönnu tilbiðjendur tilbiðja föðurinn í anda og sannleika því að faðirinn leitar þeirra sem tilbiðja hann þannig.+ 24  Guð er andi+ og þeir sem tilbiðja hann eiga að tilbiðja í anda og sannleika.“+ 25  Konan sagði við hann: „Ég veit að Messías kemur, hann sem er kallaður Kristur. Þegar hann kemur mun hann kunngera okkur allt.“ 26  Jesús sagði við hana: „Ég er hann, ég sem tala við þig.“+ 27  Í sömu andrá komu lærisveinarnir og þeir furðuðu sig á að hann skyldi vera að tala við konu. Enginn spurði þó: „Hvað viltu henni?“ eða „Af hverju ertu að tala við hana?“ 28  Konan skildi nú vatnskerið eftir, fór inn í borgina og sagði við fólkið: 29  „Komið og sjáið mann sem sagði mér allt sem ég hef gert. Ætli þetta geti verið Kristur?“ 30  Fólkið kom þá til Jesú úr borginni. 31  Meðan þessu fór fram báðu lærisveinarnir hann: „Rabbí,+ fáðu þér að borða.“ 32  En hann svaraði: „Ég hef mat að borða sem þið vitið ekki um.“ 33  Lærisveinarnir sögðu sín á milli: „Ætli einhver hafi fært honum mat?“ 34  Jesús sagði við þá: „Minn matur er að gera vilja þess sem sendi mig+ og ljúka verkinu sem hann fól mér.+ 35  Segið þið ekki að enn séu fjórir mánuðir í uppskeruna? Sjáið! Ég segi ykkur: Lítið upp og horfið á akrana, þeir eru hvítir og tilbúnir til uppskeru.+ 36  Kornskurðarmaðurinn fær nú þegar laun og safnar ávexti til eilífs lífs og þá geta báðir glaðst saman, hann og sá sem sáir.+ 37  Hér á máltækið við sem segir: Einn sáir og annar sker upp. 38  Ég sendi ykkur til að uppskera það sem þið hafið ekki unnið að. Aðrir hafa erfiðað og þið njótið góðs af erfiði þeirra.“ 39  Margir Samverjar úr borginni tóku trú á hann vegna vitnisburðar konunnar sem sagði: „Hann sagði mér allt sem ég hef gert.“+ 40  Þegar Samverjarnir komu til Jesú báðu þeir hann að staldra við hjá sér og hann var þar í tvo daga. 41  Fyrir vikið tóku enn fleiri trú þegar þeir heyrðu það sem hann sagði. 42  Þeir sögðu við konuna: „Nú trúum við ekki aðeins vegna orða þinna því að við höfum sjálfir heyrt hann tala og við vitum að þessi maður er í raun og veru frelsari heimsins.“+ 43  Að þessum tveim dögum liðnum fór Jesús þaðan til Galíleu. 44  Hann hafði þó sjálfur sagt að spámaður væri ekki metinn í heimalandi sínu.+ 45  Þegar hann kom til Galíleu tóku Galíleumenn vel á móti honum. Þeir höfðu séð allt sem hann gerði á hátíðinni í Jerúsalem+ því að þeir höfðu líka sótt hátíðina.+ 46  Hann kom nú aftur til Kana í Galíleu þar sem hann hafði breytt vatni í vín.+ Í Kapernaúm var maður nokkur, embættismaður konungs, en sonur hans var veikur. 47  Þegar maðurinn frétti að Jesús væri kominn frá Júdeu til Galíleu fór hann til hans og bað hann að koma niður eftir og lækna son sinn sem lá fyrir dauðanum. 48  En Jesús sagði við hann: „Þið trúið ekki nema þið sjáið undur og kraftaverk.“+ 49  Embættismaðurinn sagði þá: „Drottinn, komdu niður eftir áður en barnið mitt deyr.“ 50  Jesús svaraði: „Farðu heim, sonur þinn lifir.“+ Maðurinn trúði orðum Jesú og fór. 51  Meðan hann var á leiðinni niður eftir komu þjónar hans á móti honum til að segja honum að drengurinn væri á lífi.* 52  Hann spurði þá hvenær honum hefði farið að batna. Þeir svöruðu: „Hitinn hvarf um sjöundu stund* í gær.“ 53  Faðirinn vissi að það var einmitt þá sem Jesús hafði sagt við hann: „Sonur þinn lifir.“+ Hann tók trú og allt heimilisfólk hans. 54  Þetta var í annað sinn sem Jesús vann kraftaverk+ eftir að hann kom frá Júdeu til Galíleu.

Neðanmáls

Orðrétt „Jesús“.
Eða „uppsprettuna; lindina“.
Það er, um kl. 12.
Eða „batavegi“.
Það er, um kl. 13.