Jósúabók 8:1–35

  • Jósúa setur menn í launsátur við Aí (1–13)

  • Aí tekin (14–29)

  • Lögin lesin á Ebalfjalli (30–35)

8  Jehóva sagði nú við Jósúa: „Vertu ekki hræddur né óttasleginn.+ Taktu með þér allan herinn og haltu gegn Aí. Ég hef gefið konunginn í Aí, þegna hans, borg hans og land þér á vald.+  Farðu með Aí og konung hennar eins og þú fórst með Jeríkó og konung hennar.+ Þið megið þó taka herfangið og búféð handa ykkur. Láttu menn leggjast í launsátur hinum megin við borgina.“  Þá hélt Jósúa og allur herinn gegn Aí. Jósúa valdi 30.000 stríðskappa og sendi þá af stað um nóttina.  Hann gaf þeim þessi fyrirmæli: „Leggist í launsátur á bak við borgina. Farið ekki mjög langt frá henni og verið allir viðbúnir.  Ég og allt liðið sem er með mér munum halda gegn borginni og þegar þeir koma út á móti okkur eins og í fyrra skiptið+ hörfum við undan þeim.  Þegar þeir veita okkur eftirför lokkum við þá burt frá borginni því að þeir munu segja: ‚Nú flýja þeir undan okkur eins og síðast.‘+ Og við hörfum undan þeim.  Þá skuluð þið koma fram úr launsátrinu og taka borgina. Jehóva Guð ykkar gefur hana á ykkar vald.  Um leið og þið hafið tekið borgina skuluð þið leggja eld að henni.+ Gerið eins og Jehóva hefur sagt. Þetta eru fyrirmæli mín.“  Síðan sendi Jósúa þá af stað og þeir fóru og lögðust í launsátur vestan við Aí, milli Betel og Aí, en Jósúa var eftir hjá hernum um nóttina. 10  Snemma næsta morgun kallaði Jósúa liðið saman og hélt síðan með það til Aí ásamt öldungum Ísraels. 11  Allt herliðið+ sem var með honum hélt þangað og setti upp búðir sínar á móts við borgina norðan megin, en dalurinn var milli búðanna og Aí. 12  Á meðan hafði hann sent um 5.000 menn í launsátur+ milli Betel+ og Aí, vestan við borgina. 13  Herinn setti sem sagt upp aðalbúðir sínar norðan við borgina+ og bakvarðasveitin kom sér fyrir vestan við hana,+ en Jósúa fór niður í miðjan dalinn* um nóttina. 14  Þegar konungurinn í Aí sá þetta dreif hann sig af stað ásamt borgarmönnum snemma um morguninn til að berjast við Ísraelsmenn á ákveðnum stað þar sem sér yfir eyðisléttuna. En hann vissi ekki að menn lágu í launsátri hinum megin við borgina. 15  Þegar Aímenn gerðu árás lögðu Jósúa og allur Ísrael á flótta eftir veginum í átt að óbyggðunum.+ 16  Þá voru allir borgarmenn kallaðir út til að reka flóttann og þegar þeir veittu Jósúa eftirför fjarlægðust þeir borgina. 17  Ekki einn einasti karlmaður var eftir í Aí og Betel því að allir héldu á eftir Ísrael. Þeir skildu borgina eftir óvarða þegar þeir veittu Ísrael eftirför. 18  Jehóva sagði nú við Jósúa: „Réttu fram kastspjótið sem þú ert með í hendinni í áttina að Aí+ því að ég gef þér hana í hendur.“+ Jósúa rétti þá fram spjótið sem hann var með í hendinni í átt að borginni. 19  Um leið og hann rétti fram höndina stukku mennirnir fram úr launsátrinu. Þeir hlupu inn í borgina, tóku hana og lögðu eld að henni.+ 20  Þegar Aímenn sneru sér við sáu þeir reykinn frá borginni stíga upp til himins og þeir gátu hvergi flúið. Herliðið sem hafði flúið í átt að óbyggðunum snerist gegn þeim sem höfðu elt það. 21  Þegar Jósúa og allur Ísrael sáu að launsátursmennirnir höfðu tekið borgina og sáu reykinn stíga upp af borginni sneru þeir við og réðust á Aímenn. 22  Hinir komu út úr borginni á móti þeim þannig að Aímenn voru innikróaðir með Ísraelsmenn á báðar hliðar. Ísraelsmenn felldu þá svo að enginn varð eftir og enginn komst undan.+ 23  En konunginn í Aí+ tóku þeir lifandi og fóru með hann til Jósúa. 24  Eftir að Ísraelsmenn höfðu fellt alla íbúa Aí úti á víðavangi, í óbyggðunum þangað sem þeir höfðu veitt þeim eftirför og sá síðasti var fallinn fyrir sverði, sneru allir Ísraelsmenn aftur til Aí og felldu íbúana með sverði. 25  Þann dag féllu 12.000 manns, bæði karlar og konur, allir íbúar Aí. 26  Jósúa dró ekki að sér höndina sem hann var með kastspjótið í+ fyrr en íbúum Aí hafði verið útrýmt.*+ 27  En Ísrael tók búféð og herfangið úr borginni handa sér í samræmi við fyrirmælin sem Jehóva hafði gefið Jósúa.+ 28  Síðan brenndi Jósúa Aí og gerði hana að rústahaug+ til frambúðar, og þannig er hún enn þann dag í dag. 29  Hann hengdi lík konungsins í Aí á staur* og lét það hanga þar til kvölds en um sólsetur lét hann taka líkið niður af staurnum.+ Því var fleygt fyrir utan borgarhliðið og menn hlóðu mikla steindys yfir það sem er þar enn í dag. 30  Jósúa reisti nú Jehóva Guði Ísraels altari á Ebalfjalli+ 31  eins og Móse þjónn Jehóva hafði gefið Ísraelsmönnum fyrirmæli um og stendur skrifað í lögbók+ Móse: „Altari úr óhöggnum steinum sem ekki hafa verið unnir með járnverkfæri.“+ Á því færðu þeir Jehóva brennifórnir og samneytisfórnir.+ 32  Hann skrifaði síðan á steinana þar afrit af lögunum+ sem Móse hafði skrifað að Ísraelsmönnum ásjáandi.+ 33  Allur Ísrael, öldungar, umsjónarmenn og dómarar stóðu báðum megin við örkina frammi fyrir Levítaprestunum sem báru sáttmálsörk Jehóva. Þar voru bæði útlendingar og innfæddir.+ Helmingur fólksins stóð við rætur Garísímfjalls og hinn helmingurinn við rætur Ebalfjalls+ (eins og Móse þjónn Jehóva hafði áður gefið fyrirmæli um)+ til að hægt væri að blessa Ísraelsmenn. 34  Því næst las hann upp öll lögin,+ blessunina+ og bölvunina,+ í samræmi við allt sem stendur í lögbókinni. 35  Ekkert orð sem Móse hafði gefið fyrirmæli um féll niður. Jósúa las allt upp fyrir öllum söfnuði Ísraels,+ þar á meðal konum, börnum og útlendingum+ sem bjuggu* meðal þeirra.+

Neðanmáls

Eða „á miðja sléttuna“.
Eða „fyrr en hann hafði helgað alla íbúa Aí eyðingu“. Sjá orðaskýringar, „helga eyðingu“.
Eða „tré“.
Orðrétt „gengu“.