Júdasarbréfið 1:1–25

  • Kveðjur (1, 2)

  • Falskennarar hljóta dóm (3–16)

    • Deila Mikaels við Djöfulinn (9)

    • Spádómur Enoks (14, 15)

  • Haldið ykkur í skjóli kærleika Guðs (17–23)

  • Guði sé dýrð (24, 25)

 Frá Júdasi, sem er þjónn Jesú Krists og bróðir Jakobs,+ til hinna kölluðu+ sem Guð faðirinn elskar og varðveitir handa Jesú Kristi.+  Megið þið njóta miskunnar, friðar og kærleika í ríkum mæli.  Þið elskuðu, mér var mikið í mun að skrifa ykkur um sameiginlega frelsun okkar+ en komst að raun um að það væri áríðandi að skrifa og hvetja ykkur til að berjast af krafti fyrir trúnni+ sem hinum heilögu var gefin í eitt skipti fyrir öll.  Ástæðan er sú að nokkrir menn hafa smeygt sér inn á meðal ykkar en spáð var fyrir löngu í Ritningunum að þeir hlytu dóm. Þetta eru óguðlegir menn sem misnota einstaka góðvild Guðs okkar til að réttlæta blygðunarlausa hegðun*+ og afneita okkar eina eiganda* og Drottni, Jesú Kristi.+  Þó að þið vitið þetta mætavel vil ég minna ykkur á að Jehóva* bjargaði fólki sínu frá Egyptalandi+ en eyddi síðar þeim sem sýndu ekki trú.+  Og englana sem gættu ekki upphaflegrar stöðu sinnar heldur yfirgáfu sín réttu heimkynni+ hefur hann geymt í eilífum fjötrum í niðamyrkri til dómsins á hinum mikla degi.+  Sódóma og Gómorra og borgirnar umhverfis þær gáfu sig sömuleiðis á vald grófu kynferðislegu siðleysi* og létu undan óeðlilegum girndum holdsins.+ Þær eru okkur til viðvörunar þar sem þær hlutu dóm og var refsað með eilífum eldi.+  Þrátt fyrir það hegða þessir menn sér eins og fólk gerði þá. Þeir láta sig dreyma, spilla líkamanum, fyrirlíta yfirvald og tala illa um hina dýrlegu.+  En þegar erkiengillinn+ Mikael+ átti í deilu við Djöfulinn um lík Móse+ vogaði hann sér ekki að dæma hann með niðrandi orðum+ heldur sagði: „Jehóva* ávíti þig.“+ 10  Þessir menn tala hins vegar illa um allt sem þeir skilja ekki.+ Og allt sem þeir skilja af eðlisávísun eins og skynlausar skepnur,+ það gera þeir og það spillir þeim. 11  Það fer illa fyrir þeim því að þeir hafa fylgt vegi Kains,+ anað út á villigötur Bíleams+ í gróðaskyni og gert uppreisn og tortímst+ líkt og Kóra.*+ 12  Þeir eru blindsker við kærleiksmáltíðir ykkar+ þegar þeir borða með ykkur, hirðar sem háma í sig blygðunarlaust,+ vatnslaus ský sem hrekjast fyrir vindi,+ ávaxtalaus tré síðla hausts, tvisvar dauð* og rifin upp með rótum, 13  trylltar sjávaröldur sem freyða sinni eigin skömm,+ reikandi stjörnur sem eiga eilíft svartamyrkur í vændum.+ 14  Enok,+ sjöundi maður frá Adam, spáði líka um þá þegar hann sagði: „Jehóva* kom með sínum heilögu þúsundum*+ 15  til að fullnægja dómi yfir öllum+ og dæma alla óguðlega menn seka fyrir öll þau óguðlegu verk sem þeir höfðu framið og fyrir allt það yfirgengilega sem þessir óguðlegu syndarar höfðu sagt um hann.“+ 16  Þessir menn eru nöldurseggir+ sem kvarta yfir hlutskipti sínu í lífinu. Þeir láta stjórnast af eigin girndum,+ hreykja sér hátt og smjaðra fyrir öðrum* í eiginhagsmunaskyni.+ 17  En þið elskuðu, munið eftir því sem postular Drottins okkar Jesú Krists hafa áður sagt.* 18  Þeir sögðu oft við ykkur: „Á síðustu tímum koma fram menn sem gera gys að því sem er rétt og láta stjórnast af óguðlegum girndum sínum.“+ 19  Þetta eru þeir sem valda sundrung,+ hugsa aðallega um langanir holdsins* og hafa ekki andlegt hugarfar.* 20  En þið elskuðu, byggið ykkur upp í ykkar helgustu trú og biðjið í krafti heilags anda+ 21  svo að þið haldið ykkur í skjóli kærleika Guðs+ meðan þið bíðið eftir miskunn Drottins okkar Jesú Krists sem leiðir til eilífs lífs.+ 22  Haldið líka áfram að sýna þeim miskunn+ sem efast+ 23  og bjargið þeim+ með því að hrífa þá út úr eldinum. Sýnið öðrum einnig miskunn en gætið ykkar og hatið jafnvel fötin sem eru flekkuð af vondum verkum.*+ 24  Guð getur verndað ykkur svo að þið hrasið ekki. Hann getur látið ykkur standa frammi fyrir dýrð sinni* óflekkuð+ og með miklum fögnuði. 25  Honum, hinum eina Guði, sem frelsar okkur fyrir milligöngu Jesú Krists Drottins okkar, sé dýrð, hátign, máttur og vald frá eilífð, nú og til eilífðar. Amen.

Neðanmáls

Eða „ósvífna hegðun“. Á grísku asel′geia. Sjá orðaskýringar.
Eða „húsbónda“.
Orðrétt „hafa tortímst í uppreisnartali Kóra“.
Eða „steindauð“.
Eða „tugþúsundum“.
Eða „dást að áberandi mönnum“.
Eða „hafa sagt fyrir“.
Eða „hegða sér eins og dýr“.
Orðrétt „andann“.
Orðrétt „holdinu“.
Eða „í dýrlegri návist sinni“.