Bréfið til Kólossumanna 1:1–29
1 Frá Páli, postula Krists Jesú samkvæmt vilja Guðs, og Tímóteusi+ bróður okkar,
2 til hinna heilögu og trúföstu bræðra og systra sem eru fylgjendur Krists í Kólossu.
Megi Guð faðir okkar sýna ykkur einstaka góðvild og veita ykkur frið.
3 Við þökkum Guði, föður Drottins okkar Jesú Krists, í hvert sinn sem við biðjum fyrir ykkur.
4 Við höfum frétt af trú ykkar á Krist Jesú og kærleikanum sem þið berið til allra hinna heilögu
5 vegna vonarinnar um það sem bíður ykkar á himnum.+ Þið heyrðuð um þessa von þegar boðskapur sannleikans, fagnaðarboðskapurinn,
6 barst til ykkar. Fagnaðarboðskapurinn ber ávöxt og vex um allan heim.+ Það hefur hann einnig gert hjá ykkur allt frá þeim degi sem þið heyrðuð af einstakri góðvild Guðs og kynntust henni af eigin raun.
7 Þið lærðuð þetta hjá Epafrasi,+ kærum samstarfsmanni okkar og trúföstum þjóni Krists en hann er fulltrúi okkar.
8 Hann hefur líka sagt okkur frá kærleikanum sem andi Guðs vekur með ykkur.*
9 Frá þeim degi sem við heyrðum þetta höfum við því stöðugt beðið fyrir ykkur.+ Við biðjum þess að þið fáið nákvæma þekkingu+ á vilja Guðs með allri visku og skilningi sem andinn gefur.+
10 Þá getið þið lifað eins og Jehóva* er samboðið til að þóknast honum í einu og öllu og jafnframt borið ávöxt með sérhverju góðu verki og vaxið í þekkingu* á Guði.+
11 Við biðjum þess líka að dýrlegur kraftur Guðs gefi ykkur þann styrk sem þið þurfið+ til að halda út í öllu með þolinmæði og gleði
12 um leið og þið þakkið föðurnum sem gerði ykkur hæf til að taka arf með hinum heilögu+ sem eru í ljósinu.
13 Hann bjargaði okkur undan valdi myrkursins+ og flutti okkur yfir í ríki síns elskaða sonar.
14 Vegna hans erum við leyst með lausnargjaldi, já, við höfum fengið syndir okkar fyrirgefnar.+
15 Hann er eftirmynd hins ósýnilega Guðs,+ frumburður alls sem er skapað+
16 vegna þess að með hjálp hans var allt annað skapað á himni og jörð, það sem er sýnilegt og það sem er ósýnilegt,+ hvort sem það eru hásæti, tignir, stjórnir eða völd. Allt var skapað með aðstoð hans+ og fyrir hann.
17 Hann var til á undan öllu öðru+ og með hjálp hans varð allt annað til.
18 Hann er höfuð líkamans, það er að segja safnaðarins.+ Hann er upphafið, frumburður upprisunnar frá dauðum.+ Þannig yrði hann sá fyrsti í öllu
19 því að Guði þóknaðist að láta allt fullkomnast í honum+
20 og koma öllu í sátt við sig fyrir milligöngu hans,+ bæði því sem er á jörðinni og því sem er á himnum. Þessi friður fæst með blóðinu+ sem var úthellt á kvalastaurnum.*
21 Einu sinni voruð þið fjarlæg Guði og óvinir hans því að þið voruð með hugann við ill verk.
22 En núna hefur hann tekið ykkur í sátt með dauða hans sem fórnaði líkama sínum til að þið getið staðið frammi fyrir honum heilög og óflekkuð og ekki sé hægt að ásaka ykkur um neitt.+
23 Það er auðvitað undir því komið að þið séuð stöðug í trúnni,+ standið óhagganleg+ á traustum grunni+ og missið ekki vonina sem þið fenguð með fagnaðarboðskapnum sem þið heyrðuð og var boðaður meðal allra manna.*+ Ég, Páll, er orðinn þjónn þessa fagnaðarboðskapar.+
24 Nú gleðst ég yfir því að þjást fyrir ykkur+ og mér finnst ég enn ekki hafa þjáðst til fulls vegna Krists, en ég geri það fyrir líkama hans,+ söfnuðinn.+
25 Ég varð þjónn þessa safnaðar í samræmi við þá ábyrgð*+ sem Guð fól mér ykkar vegna: Að boða orð Guðs rækilega,
26 hinn heilaga leyndardóm+ sem var hulinn öldum saman*+ og hulinn fyrri kynslóðum. En núna er hann opinberaður Guðs heilögu.+
27 Guð hefur fúslega gert heilagan leyndardóm sinn, þennan dýrlega fjársjóð,+ kunnan hinum heilögu meðal þjóðanna. Leyndardómurinn er að Kristur er sameinaður ykkur en það gefur ykkur þá von að verða dýrleg með honum.+
28 Það er hann sem við boðum, og við áminnum alla og fræðum með allri visku svo að við getum leitt hvern mann fram fyrir Guð sem þroskaðan fylgjanda Krists.+
29 Ég kosta kapps um þetta og legg hart að mér í krafti hans sem hefur öflug áhrif á mig.+
Neðanmáls
^ Orðrétt „kærleika ykkar í andanum“.
^ Sjá viðauka A5.
^ Eða „nákvæmri þekkingu“.
^ Sjá orðaskýringar.
^ Orðrétt „allri sköpun undir himninum“.
^ Eða „ráðsmennsku“.
^ Sjá orðaskýringar, „heimsskipan“.