Lúkas segir frá 20:1–47

  • Vald Jesú véfengt (1–8)

  • Dæmisagan um grimmu vínyrkjana (9–19)

  • Guð og keisarinn (20–26)

  • Jesús spurður um upprisu (27–40)

  • Er Kristur sonur Davíðs? (41–44)

  • Jesús varar við fræðimönnum (45–47)

20  Dag einn þegar hann var að kenna fólki í musterinu og boða fagnaðarboðskapinn komu yfirprestarnir og fræðimennirnir ásamt öldungunum  og sögðu við hann: „Segðu okkur, hvaða vald hefurðu til að gera þetta? Eða hver gaf þér þetta vald?“+  Hann svaraði: „Ég ætla líka að spyrja ykkur spurningar og þið skuluð svara mér:  Var skírn Jóhannesar frá himni eða frá mönnum?“  Þeir ráðfærðu sig þá hver við annan og sögðu: „Ef við segjum: ‚Frá himni,‘ segir hann: ‚Hvers vegna trúðuð þið honum ekki?‘  En ef við segjum: ‚Frá mönnum,‘ þá grýtir allt fólkið okkur því að það er sannfært um að Jóhannes hafi verið spámaður.“+  Þeir sögðust því ekki vita hvaðan hún væri.  Þá sagði Jesús: „Ég segi ykkur þá ekki heldur hvaða vald ég hef til að gera þetta.“  Síðan sagði hann fólkinu þessa dæmisögu: „Maður plantaði víngarð,+ leigði hann vínyrkjum, fór úr landi og dvaldi erlendis um alllangan tíma.+ 10  Þegar kom að uppskerunni sendi hann þræl til vínyrkjanna til að þeir gæfu honum hluta af uppskeru víngarðsins. En vínyrkjarnir börðu hann og sendu hann burt tómhentan.+ 11  Hann sendi þá annan þræl. Þeir börðu hann einnig, niðurlægðu og sendu burt tómhentan. 12  Hann sendi nú þriðja þrælinn og þeir misþyrmdu honum líka og köstuðu honum út. 13  Þá hugsaði eigandi víngarðsins með sér: ‚Hvað á ég að gera? Ég ætla að senda elskaðan son minn.+ Þeir hljóta að virða hann.‘ 14  Þegar vínyrkjarnir sáu hann báru þeir saman ráð sín og sögðu: ‚Þetta er erfinginn. Drepum hann svo að við getum fengið arfinn.‘ 15  Síðan köstuðu þeir honum út fyrir víngarðinn og drápu hann.+ Hvað gerir eigandi víngarðsins nú við þá? 16  Hann kemur og drepur vínyrkjana og fær öðrum víngarðinn.“ Þegar fólkið heyrði þetta sagði það: „Þetta má aldrei gerast!“ 17  En hann horfði beint á fólkið og sagði: „Hvað merkir þá ritningarstaðurinn þar sem stendur: ‚Steinninn sem smiðirnir höfnuðu er orðinn að aðalhornsteini‘?*+ 18  Hver sem fellur á þennan stein tortímist+ og sá sem steinninn fellur á verður sundurkraminn.“ 19  Fræðimennirnir og yfirprestarnir vildu nú handsama hann þegar í stað því að þeir skildu að dæmisagan átti við þá en þeir óttuðust fólkið.+ 20  Eftir að hafa fylgst vandlega með honum sendu þeir til hans menn sem þeir höfðu ráðið með leynd. Þeir áttu að þykjast vera einlægir og reyna að hanka hann á orðum hans+ til að þeir gætu framselt hann yfirvöldum og á vald landstjórans. 21  Þeir spurðu hann: „Kennari, við vitum að þú talar og kennir það sem er rétt. Þú ert óhlutdrægur og kennir veg Guðs sannleikanum samkvæmt. 22  Höfum við leyfi til* að greiða keisaranum skatt eða ekki?“ 23  En hann sá í gegnum þá og sagði við þá: 24  „Sýnið mér denar.* Mynd hvers og áletrun er á honum?“ „Keisarans,“ svöruðu þeir. 25  Hann sagði við þá: „Gjaldið þá keisaranum það sem tilheyrir keisaranum+ en Guði það sem tilheyrir Guði.“+ 26  Þeim tókst ekki að fá hann til að tala af sér í áheyrn fólksins en undruðust svar hans og þögðu. 27  Nokkrir saddúkear, þeir sem segja að upprisa sé ekki til,+ komu nú til hans og spurðu:+ 28  „Kennari, Móse skrifaði: ‚Ef maður deyr og lætur eftir sig konu en engin börn skal bróðir hans giftast henni til að hún ali fyrri eiginmanni sínum afkomendur.‘+ 29  Nú voru sjö bræður. Sá fyrsti gifti sig en dó barnlaus. 30  Annar bróðirinn 31  og síðan sá þriðji giftust konunni og eins allir sjö en dóu allir barnlausir. 32  Að lokum dó svo konan. 33  Kona hvers verður hún þá í upprisunni? Allir sjö höfðu átt hana.“ 34  Jesús svaraði þeim: „Börn þessa heims* kvænast og giftast 35  en þeir sem eru taldir þess verðir að fá hlutdeild í hinum komandi heimi og upprisunni frá dauðum kvænast hvorki né giftast.+ 36  Þeir geta ekki heldur dáið framar því að þeir eru eins og englar, og þeir eru börn Guðs þar sem þeir eru börn upprisunnar. 37  En jafnvel Móse sýndi fram á í frásögunni af þyrnirunnanum að dauðir rísi upp. Þar kallar hann Jehóva* ‚Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs‘.+ 38  Hann er ekki Guð dauðra heldur þeirra sem lifa því að þeir eru allir lifandi í augum hans.“+ 39  Þá sögðu nokkrir fræðimannanna: „Vel mælt, kennari.“ 40  En þeir þorðu ekki lengur að spyrja hann nokkurs. 41  Hann spurði þá hins vegar: „Hvernig stendur á því að fólk segir að Kristur sé sonur Davíðs?+ 42  Davíð segir sjálfur í Sálmunum: ‚Jehóva* sagði við Drottin minn: „Sittu mér til hægri handar 43  þar til ég legg óvini þína eins og skemil undir fætur þína.“‘+ 44  Davíð kallar hann sem sagt Drottin. Hvernig getur hann þá verið sonur hans?“ 45  Jesús sagði síðan við lærisveinana í áheyrn alls fólksins: 46  „Varið ykkur á fræðimönnunum sem vilja ganga um í síðskikkjum og þykir gott að láta heilsa sér á torgunum, sitja í fremstu* sætunum í samkunduhúsum og virðingarsætum í veislum.+ 47  Þeir mergsjúga heimili* ekkna og flytja langar bænir til að sýnast. Þeir munu fá þyngri dóm.“

Neðanmáls

Orðrétt „efsta hluta hornsins“.
Eða „Er rétt af okkur“.
Eða „þessarar aldar“. Sjá orðaskýringar, „heimsskipan“.
Eða „bestu“.
Eða „eigur“.