Markús segir frá 5:1–43
5 Þeir komu nú í Gerasenahérað hinum megin við vatnið.+
2 Um leið og Jesús steig úr bátnum kom til hans maður frá gröfunum. Hann var haldinn óhreinum anda.
3 Hann hélt til hjá gröfunum og fram til þessa hafði enginn getað bundið hann tryggilega, ekki einu sinni með keðju.
4 Hann hafði oft verið fjötraður á höndum og fótum en hann sleit af sér hlekkina og braut fjötrana og enginn var nógu sterkur til að ráða við hann.
5 Dag og nótt æpti hann stanslaust hjá gröfunum og á fjöllunum og lamdi sig með grjóti.
6 Þegar hann kom auga á Jesú álengdar hljóp hann til hans, féll fram fyrir honum+
7 og hrópaði hárri röddu: „Hvað viltu mér, Jesús, sonur hins hæsta Guðs? Sverðu við Guð að kvelja mig ekki.“+
8 En Jesús hafði sagt við andann: „Óhreini andi, farðu úr manninum.“+
9 Jesús spurði hann: „Hvað heitirðu?“ Hann svaraði: „Ég heiti Hersing því að við erum margir.“
10 Og hann þrábað Jesú að senda andana ekki úr héraðinu.+
11 Þar á fjallinu var stór svínahjörð+ á beit.+
12 Andarnir báðu hann: „Sendu okkur í svínin svo að við getum farið í þau.“
13 Hann leyfði þeim það og óhreinu andarnir fóru þá úr manninum og í svínin. Hjörðin, um 2.000 dýr, æddi fram af þverhnípinu* og drukknaði í vatninu.
14 En svínahirðarnir flúðu og sögðu fréttirnar í borginni og sveitinni og fólk kom til að sjá hvað hafði gerst.+
15 Það kom til Jesú og sá andsetna manninn sem hersingin hafði verið í sitja klæddan og með réttu ráði. Og fólkið varð hrætt.
16 En þeir sem höfðu séð þetta sögðu fólkinu frá því sem hafði gerst með andsetna manninn og svínin.
17 Þeir báðu þá Jesú að yfirgefa héraðið.+
18 Jesús steig nú um borð í bátinn og maðurinn sem hafði verið andsetinn bað um að fá að fara með honum.+
19 En hann leyfði honum það ekki heldur sagði við hann: „Farðu heim til ættingja þinna og segðu þeim frá öllu sem Jehóva* hefur gert fyrir þig og hvernig hann miskunnaði þér.“
20 Maðurinn fór burt og sagði frá í Dekapólis* hvað Jesús hafði gert fyrir hann og allir voru furðu lostnir.
21 Þegar Jesús var kominn aftur á bátnum yfir á ströndina hinum megin safnaðist að honum mikill mannfjöldi þar sem hann var við vatnið.+
22 Einn af samkundustjórunum, Jaírus að nafni, kom nú þangað. Þegar hann sá Jesú féll hann til fóta honum.+
23 Hann margbað hann og sagði: „Litla dóttir mín er fárveik.* Viltu koma og leggja hendur yfir hana+ svo að henni batni og hún fái að lifa.“
24 Jesús fór þá með honum og mikill mannfjöldi elti hann og þrengdi að honum.
25 Meðal fólksins var kona sem hafði haft stöðugar blæðingar+ í 12 ár.+
26 Hún hafði þjáðst mikið hjá mörgum læknum og eytt aleigu sinni en henni hafði ekki batnað heldur bara versnað.
27 Hún hafði heyrt um Jesú og kom nú að honum aftan frá í mannþrönginni og snerti yfirhöfn hans+
28 því að hún sagði við sjálfa sig: „Ef ég snerti bara yfirhöfn hans læknast ég.“+
29 Og blæðingarnar stöðvuðust samstundis, og hún fann að hún hafði læknast af þjakandi sjúkdómi sínum.
30 Jesús skynjaði um leið að kraftur+ hafði farið út frá honum. Hann sneri sér við í mannþrönginni og spurði: „Hver snerti yfirhöfn mína?“+
31 Lærisveinarnir sögðu við hann: „Þú sérð að mannfjöldinn þrengir að þér og samt spyrðu: ‚Hver snerti mig?‘“
32 En hann leit í kringum sig til að sjá hver hefði gert þetta.
33 Konan kom þá hrædd og skjálfandi því að hún vissi hvað hafði gerst hjá sér. Hún féll til fóta honum og sagði honum allan sannleikann.
34 Hann sagði við hana: „Dóttir, trú þín hefur læknað þig. Farðu í friði,+ þú ert laus við þennan þjakandi sjúkdóm.“+
35 Meðan hann var enn að tala komu menn heiman frá samkundustjóranum og sögðu: „Dóttir þín er dáin. Er nokkur ástæða til að ónáða kennarann lengur?“+
36 En Jesús heyrði þetta og sagði við samkundustjórann: „Vertu óhræddur, trúðu bara.“+
37 Nú leyfði hann engum að fylgja sér nema Pétri, Jakobi og Jóhannesi bróður Jakobs.+
38 Þeir komu að húsi samkundustjórans og hann sá að fólk var í uppnámi og grét og kveinaði hástöfum.+
39 Hann fór inn og sagði við fólkið: „Hvers vegna grátið þið og eruð í uppnámi? Barnið er ekki dáið, það sefur.“+
40 Þá hló fólkið að honum. En hann lét alla fara út og fór inn til stúlkunnar ásamt föður hennar og móður og þeim sem voru með honum.
41 Síðan tók hann í hönd hennar og sagði við hana: „Talíþa kúm,“ sem þýðir: ‚Stúlka litla, ég segi þér: Rístu upp!‘+
42 Stúlkan reis strax á fætur og fór að ganga um. (Hún var 12 ára.) Þau voru frá sér numin af gleði.
43 En hann bannaði þeim ítrekað að segja nokkrum frá þessu+ og sagði þeim að gefa henni eitthvað að borða.
Neðanmáls
^ Eða „bröttum bakkanum“.
^ Sjá viðauka A5.
^ Eða „á Tíuborgasvæðinu“.
^ Eða „að dauða komin“.