Bréfið til Rómverja 3:1–31

  • „Guð skal reynast sannorður“ (1–8)

  • Bæði Gyðingar og Grikkir eru á valdi syndarinnar (9–20)

  • Réttlát vegna trúar (21–31)

    • Enginn endurspeglar dýrð Guðs (23)

3  Hvað hafa þá Gyðingar fram yfir aðra eða hvaða gagn er að því að vera umskorinn?  Mikið á allan hátt. Fyrst og fremst var þeim trúað fyrir heilögum boðskap Guðs.+  En suma þeirra skorti trú. Hvað um það? Gerir það trúfesti Guðs að engu?  Auðvitað ekki! Guð skal reynast sannorður+ þótt hver einasti maður reyndist lygari,+ eins og skrifað stendur: „Til að það sýni sig að orð þín eru réttlát og þú vinnir mál þitt þegar þú ert ákærður.“+  En ef ranglæti okkar dregur fram réttlæti Guðs hvað eigum við þá að segja? Varla er Guð ranglátur þegar hann lætur reiði sína í ljós. (Ég tala nú eins og sumir menn gera.)  Auðvitað ekki! Hvernig ætti Guð þá að geta dæmt heiminn?+  En ef ég lýg og það dregur enn skýrar fram að Guð segir satt, og það er honum til lofs, af hverju er ég þá dæmdur syndari?  Hvers vegna segjum við ekki: „Gerum það sem er illt því að það hefur gott í för með sér“? Sumir halda því ranglega fram að við segjum þetta, en þeir fá þann dóm sem þeir verðskulda.+  Hvað þá? Erum við Gyðingar betur settir en aðrir? Alls ekki. Eins og við höfum þegar bent á eru bæði Gyðingar og Grikkir á valdi syndarinnar.+ 10  Það er eins og skrifað stendur: „Enginn er réttlátur, ekki einn einasti.+ 11  Enginn hefur nokkurn skilning, enginn leitar Guðs. 12  Allir hafa farið af réttri leið, allir eru orðnir óhæfir. Enginn sýnir góðvild, ekki nokkur maður.“+ 13  „Kok þeirra er opin gröf, þeir blekkja með tungu sinni.“+ „Höggormseitur er innan vara þeirra.“+ 14  „Og munnur þeirra er fullur bölvunar og beiskju.“+ 15  „Þeir eru fráir á fæti til að úthella blóði.“+ 16  „Tortíming og eymd er í slóð þeirra 17  og þeir þekkja ekki veg friðarins.“+ 18  „Enginn guðsótti býr í þeim.“+ 19  Nú vitum við að allt sem stendur í lögunum er ætlað þeim sem eru undir lögunum til að hver munnur þagni og allur heimurinn þurfi að svara til saka fyrir Guði og eigi refsingu yfir höfði sér.+ 20  Enginn verður því lýstur réttlátur fyrir honum með því að fylgja lögunum+ því að með lögunum fá menn fulla vitneskju um syndina.+ 21  En nú hefur réttlæti Guðs verið opinberað óháð lögunum+ eins og lögin og spámennirnir vitna um.+ 22  Já, allir sem trúa geta orðið réttlátir frammi fyrir Guði með því að trúa á Jesú Krist því að það er enginn munur á mönnum.+ 23  Allir hafa syndgað og enginn nær að endurspegla dýrð Guðs+ 24  en Guð gaf þeim þá gjöf+ í einstakri góðvild sinni+ að lýsa þá réttláta. Hann gerði það með lausnargjaldinu sem Kristur Jesús greiddi til að frelsa þá.+ 25  Guð bar hann fram sem friðþægingarfórn*+ til gagns fyrir þá sem trúa á blóð hans.+ Þannig sýndi Guð réttlæti sitt vegna þess að hann var umburðarlyndur og fyrirgaf syndirnar sem fólk hafði áður drýgt. 26  Hann sýndi einnig að hann fylgir sínu eigin réttlæti+ nú á tímum og er réttlátur þegar hann lýsir þann réttlátan sem trúir á Jesú.+ 27  Er þá eitthvað til að stæra sig af? Nei, alls ekki. Samkvæmt hvaða lögum? Lögum sem krefjast verka?+ Nei, heldur lögum trúarinnar 28  því að við álítum að maður sé lýstur réttlátur vegna trúar en ekki fyrir verk byggð á lögunum.+ 29  Eða er Guð aðeins Guð Gyðinga?+ Er hann ekki líka Guð þeirra sem eru af þjóðunum?+ Jú, líka fólks af þjóðunum.+ 30  Þar sem Guð er einn+ lýsir hann umskorna menn réttláta+ vegna trúar þeirra og sömuleiðis óumskorna menn+ á grundvelli trúar þeirra. 31  Afnemum við þá lögin með trú okkar? Alls ekki. Við staðfestum þau öllu heldur.+

Neðanmáls

Eða „sáttarfórn“.