Rutarbók 2:1–23

  • Rut tínir korn á akri Bóasar (1–3)

  • Rut og Bóas hittast (4–16)

  • Rut segir Naomí frá góðvild Bóasar (17–23)

2  Nú átti Elímelek eiginmaður Naomí skyldmenni sem hét Bóas.+ Hann var mjög auðugur.  Rut hin móabíska sagði við Naomí: „Leyfðu mér að fara út á akurinn og tína upp kornöx+ á eftir einhverjum kornskurðarmanni sem sýnir mér velvild.“ Naomí svaraði: „Gerðu það, dóttir mín.“  Hún fór þá út á akurinn og byrjaði að tína upp kornöx á eftir kornskurðarmönnunum. Það vildi svo til að hún kom á spildu sem var í eigu Bóasar+ frænda Elímeleks.+  Einmitt þá kom Bóas frá Betlehem og sagði við kornskurðarmennina: „Jehóva sé með ykkur.“ Þeir svöruðu: „Jehóva blessi þig.“  Þá spurði Bóas þjóninn sem var yfir kornskurðarmönnunum: „Hverra manna er þessi stúlka?“  Þjónninn svaraði: „Þetta er móabísk stúlka+ sem kom með Naomí frá Móabslandi.+  Hún spurði hvort hún mætti tína upp afskorin kornöx*+ sem kornskurðarmennirnir hefðu skilið eftir. Hún hefur verið að síðan í morgun og var fyrst núna að setjast niður í skýlinu til að hvíla sig í smástund.“  Þá sagði Bóas við Rut: „Taktu nú vel eftir, dóttir mín. Tíndu ekki kornöx á öðrum akri og farðu ekki héðan heldur haltu þig nálægt stúlkunum mínum.+  Fylgstu með hvar kornskurðarmennirnir skera upp og farðu með stúlkunum. Ég hef beðið mennina að láta þig í friði.* Þegar þú ert þyrst skaltu fara og drekka úr vatnskerunum sem þeir hafa fyllt.“ 10  Hún féll þá á kné, laut til jarðar og sagði við hann: „Hvers vegna ertu svona góður við mig og hvers vegna hefurðu veitt mér athygli þótt ég sé útlendingur?“+ 11  Bóas svaraði: „Ég hef heyrt um allt sem þú hefur gert fyrir tengdamóður þína eftir að maðurinn þinn dó og að þú yfirgafst föður þinn og móður og heimaland þitt og fórst til þjóðar sem þú þekktir ekki.+ 12  Megi Jehóva launa þér það sem þú hefur gert+ og megirðu fá fullkomin laun frá Jehóva Guði Ísraels þar sem þú ert komin til að leita skjóls undir vængjum hans.“+ 13  Þá sagði hún: „Herra minn, ég vona að ég fái að njóta velvildar þinnar áfram þar sem þú hefur huggað mig og hughreyst þótt ég sé ekki einu sinni ein af þjónustustúlkum þínum.“ 14  Þegar kominn var matartími sagði Bóas við hana: „Komdu hingað, fáðu þér af brauðinu og dýfðu bitanum í vínedikið.“ Hún settist þá hjá kornskurðarmönnunum og hann rétti henni ristað korn. Hún borðaði sig sadda og átti þó eitthvað afgangs. 15  Þegar hún stóð upp til að halda áfram að tína+ sagði Bóas við þjóna sína: „Leyfið henni að tína upp afskorin kornöx* og gerið henni ekki mein.+ 16  Dragið líka öx úr knippunum fyrir hana og látið þau liggja eftir svo að hún geti tínt þau upp. Segið ekkert til að hún hætti að tína.“ 17  Hún tíndi á akrinum til kvölds.+ Síðan barði hún kornöxin sem hún hafði safnað og eftir stóð um efa* af byggi. 18  Hún tók það, fór inn í borgina og sýndi tengdamóður sinni það sem hún hafði tínt. Hún tók líka fram matinn sem var afgangs+ eftir að hún hafði borðað nægju sína og gaf henni. 19  Tengdamóðir hennar spurði hana: „Hvar tíndirðu í dag? Hvar varstu að vinna? Guð blessi þann sem sýndi þér velvild.“+ Hún sagði tengdamóður sinni hjá hverjum hún hefði unnið. „Maðurinn sem ég vann hjá í dag heitir Bóas,“ sagði hún. 20  Þá sagði Naomí við tengdadóttur sína: „Megi hann njóta blessunar Jehóva sem hefur ekki hætt að sýna bæði lifandi og látnum tryggan kærleika.“+ Og hún bætti við: „Maðurinn er nákominn okkur.+ Hann er einn af lausnarmönnum okkar.“*+ 21  Þá sagði Rut hin móabíska: „Hann sagði líka við mig: ‚Haltu þig nálægt vinnufólkinu mínu þar til það hefur lokið allri uppskerunni hjá mér.‘“+ 22  Naomí sagði þá við Rut tengdadóttur sína: „Það er gott, dóttir mín, að þú farir út með stúlkunum hans svo að þú verðir ekki fyrir aðkasti á öðrum akri.“ 23  Rut hélt sig því nálægt stúlkum Bóasar og tíndi þangað til bygg- og hveitiuppskerunni var lokið.+ Hún bjó áfram hjá tengdamóður sinni.+

Neðanmáls

Eða hugsanl. „tína öx innan um kornknippin“.
Orðrétt „snerta þig ekki“.
Eða hugsanl. „tína öx innan um kornknippin“.
Um 22 l. Sjá viðauka B14.
Eða „ættingjum okkar sem á rétt á að endurleysa okkur“.