Rutarbók 3:1–18
3 Naomí tengdamóðir hennar sagði nú við hana: „Dóttir mín, á ég ekki að finna heimili* handa þér+ svo að þér vegni vel?
2 Þú varst með stúlkunum hans Bóasar og hann er tengdur okkur fjölskylduböndum.+ Í kvöld kastar hann bygginu á þreskivellinum.*
3 Þvoðu þér nú og berðu á þig ilmolíu. Klæddu þig síðan í fín föt* og farðu niður á þreskivöllinn. Láttu hann ekki verða varan við þig fyrr en hann hefur borðað og drukkið.
4 Þegar hann fer að sofa skaltu taka eftir hvar hann leggst niður. Farðu síðan og lyftu ábreiðunni af fótum hans og leggstu þar. Hann mun segja þér hvað þú átt að gera.“
5 Rut svaraði: „Ég geri allt sem þú segir mér.“
6 Síðan fór hún niður á þreskivöllinn og gerði allt eins og tengdamóðir hennar hafði sagt henni.
7 Þegar Bóas var búinn að borða og drekka lá vel á honum og hann fór og lagðist við kornbinginn. Þá læddist hún þangað, lyfti ábreiðunni af fótum hans og lagðist niður.
8 Um miðnætti fór maðurinn að skjálfa. Hann settist upp og sá konu liggja við fætur sér.
9 Hann spurði: „Hver ert þú?“ „Þetta er Rut, þjónn þinn,“ svaraði hún. „Breiddu klæði þín yfir þjón þinn* því að þú ert lausnarmaður.“+
10 Þá sagði hann: „Jehóva blessi þig, dóttir mín. Með þessu hefurðu sýnt enn meiri kærleika* en í fyrra skiptið+ því að þú hefur ekki hlaupið á eftir ungu mönnunum, hvorki ríkum né fátækum.
11 Vertu nú ekki hrædd, dóttir mín. Ég geri fyrir þig allt sem þú segir+ því að allir í borginni* vita hversu góð kona þú ert.
12 Það er rétt að ég er lausnarmaður+ en það er annar lausnarmaður sem er náskyldari en ég.+
13 Vertu hér í nótt. Ef hann vill kaupa þig lausa í fyrramálið, gott og vel, leyfðu honum það.+ En ef hann vill ekki kaupa þig lausa þá mun ég gera það sjálfur, svo sannarlega sem Jehóva lifir. Liggðu nú hér til morguns.“
14 Hún lá til fóta honum til morguns en fór á fætur meðan enn var nógu dimmt til að enginn kannaðist við hana. „Enginn má vita að kona hafi komið á þreskivöllinn,“ sagði Bóas.
15 Hann sagði líka: „Taktu skikkjuna sem þú ert í og haltu henni út.“ Hún hélt henni út og hann lét sex mæla* af byggi í hana. Hann lagði síðan skikkjuna á hana og fór inn í borgina.
16 Rut fór aftur heim til tengdamóður sinnar sem spurði: „Hvernig gekk,* dóttir mín?“ Hún sagði henni frá öllu sem maðurinn hafði gert fyrir hana
17 og bætti við: „Hann gaf mér þessa sex mæla af byggi og sagði: ‚Þú mátt ekki fara tómhent heim til tengdamóður þinnar.‘“
18 Þá sagði Naomí: „Dóttir mín, bíddu nú hér þar til þú færð að vita hvernig málinu lyktar því að Bóas mun gera allt sem hann getur til að útkljá það í dag.“
Neðanmáls
^ Orðrétt „hvíldarstað“.
^ Korninu var kastað upp í loftið til að hreinsa burt hismið.
^ Eða „í yfirhöfn“.
^ Eða „Veittu þjóni þínum vernd“.
^ Eða „sýnt tryggan kærleika í enn ríkari mæli“.
^ Orðrétt „hliði fólks míns“.
^ Hugsanlega sex seur, það er, um 44 l. Sjá viðauka B14.
^ Orðrétt „Hver ert þú“.