Matteus segir frá 21:1–46
21 Þegar þeir nálguðust Jerúsalem og komu til Betfage á Olíufjallinu sendi Jesús tvo lærisveina+
2 og sagði við þá: „Farið inn í þorpið hér fram undan. Um leið og þið komið þangað finnið þið ösnu sem er bundin og fola hjá henni. Leysið þau og komið með þau til mín.
3 Ef einhver segir eitthvað skuluð þið svara: ‚Drottinn þarf á þeim að halda.‘ Þá leyfir hann ykkur tafarlaust að taka þau.“
4 Þetta gerðist til að það rættist sem spámaðurinn sagði:
5 „Segið Síonardóttur: ‚Sjáðu! Konungur þinn kemur til þín+ ljúfur í lund+ og ríður asna, fola undan burðardýri.‘“+
6 Lærisveinarnir fóru og gerðu alveg eins og Jesús hafði sagt þeim.+
7 Þeir komu með ösnuna og folann, lögðu yfirhafnir sínar á þau og hann settist á bak.+
8 Fjöldamargir breiddu yfirhafnir sínar á veginn+ en aðrir skáru greinar af trjánum og lögðu þær á veginn.
9 Mannfjöldinn sem fór á undan honum og eftir honum hrópaði: „Verndaðu* son Davíðs!+ Blessaður sé sá sem kemur í nafni Jehóva!*+ Verndaðu hann, þú sem ert í hæstu hæðum.“+
10 Þegar hann kom til Jerúsalem var öll borgin í uppnámi og menn sögðu: „Hver er þetta?“
11 Mannfjöldinn sem fylgdi honum sagði: „Þetta er spámaðurinn Jesús+ frá Nasaret í Galíleu.“
12 Jesús gekk inn í musterið og rak út alla sem seldu þar og keyptu. Hann velti um koll bekkjum dúfnasalanna og borðum þeirra sem skiptu peningum+
13 og sagði við þá: „Skrifað stendur: ‚Hús mitt verður kallað bænahús,‘+ en þið gerið það að ræningjabæli.“+
14 Blindir og fatlaðir komu til hans í musterinu og hann læknaði þá.
15 Yfirprestarnir og fræðimennirnir urðu gramir+ þegar þeir sáu hann vinna þessi miklu verk og heyrðu drengina hrópa í musterinu: „Verndaðu son Davíðs!“+
16 Þeir sögðu við hann: „Heyrirðu hvað þeir segja?“ Jesús svaraði: „Já. Hafið þið aldrei lesið þetta: ‚Af munni barna og ungbarna kallarðu fram lof‘?“+
17 Hann yfirgaf þá, fór úr borginni til Betaníu og var þar um nóttina.+
18 Hann sneri aftur til borgarinnar snemma morguns og var þá svangur.+
19 Hann kom auga á fíkjutré við veginn og gekk að því en fann ekkert nema laufblöðin ein.+ Þá sagði hann við tréð: „Aldrei framar skal vaxa ávöxtur á þér.“+ Og fíkjutréð visnaði samstundis.
20 Lærisveinarnir undruðust þegar þeir sáu þetta og sögðu: „Hvernig gat fíkjutréð visnað svona fljótt?“+
21 Jesús svaraði: „Það megið þið vita að ef þið trúið án þess að efast getið þið ekki aðeins gert það sama og ég gerði við fíkjutréð heldur getið þið jafnvel sagt við þetta fjall: ‚Lyftu þér upp og kastaðu þér í hafið,‘ og það gerist.+
22 Þið fáið allt sem þið biðjið um í bænum ykkar ef þið hafið trú.“+
23 Hann gekk inn í musterið. Yfirprestarnir og öldungarnir komu til hans meðan hann var að kenna og spurðu: „Hvaða vald hefurðu til að gera þetta? Og hver gaf þér þetta vald?“+
24 Jesús svaraði þeim: „Ég ætla líka að spyrja ykkur að einu. Ef þið svarið mér þá skal ég segja ykkur hvaða vald ég hef til að gera þetta.
25 Hvaðan fékk Jóhannes vald til að skíra? Frá himni eða frá mönnum?“ Þeir fóru að ræða sín á milli og sögðu: „Ef við segjum: ‚Frá himni,‘ segir hann við okkur: ‚Hvers vegna trúðuð þið honum þá ekki?‘+
26 En ef við segjum: ‚Frá mönnum,‘ er hætta á að fólkið snúist gegn okkur því að allir telja að Jóhannes hafi verið spámaður.“
27 Þeir svöruðu því Jesú: „Við vitum það ekki.“ Hann sagði: „Þá segi ég ykkur ekki heldur hvaða vald ég hef til að gera þetta.
28 Hvað finnst ykkur? Maður átti tvo syni. Hann fór til annars þeirra og sagði: ‚Sonur minn, farðu út í víngarðinn að vinna í dag.‘
29 ‚Ég vil það ekki,‘ svaraði hann en sá svo eftir því og fór.
30 Maðurinn fór til hins og sagði það sama. Sá svaraði: ‚Ég skal gera það, herra,‘ en fór ekki.
31 Hvor þeirra gerði það sem faðirinn bað um?“ „Sá fyrri,“ svöruðu þeir. Jesús sagði þá: „Trúið mér, skattheimtumenn og vændiskonur verða á undan ykkur inn í ríki Guðs.
32 Jóhannes kom og benti ykkur á leið réttlætisins en þið trúðuð honum ekki. Skattheimtumenn og vændiskonur trúðu honum+ hins vegar. Þið sáuð það en samt iðruðust þið ekki né trúðuð honum.
33 Heyrið aðra dæmisögu: Maður nokkur, landeigandi, plantaði víngarð,+ girti hann af, gróf fyrir vínpressu og reisti turn.+ Hann leigði hann síðan vínyrkjum og fór úr landi.+
34 Þegar uppskerutíminn hófst sendi hann þræla sína til vínyrkjanna að sækja sinn hluta af uppskerunni.
35 En vínyrkjarnir tóku þrælana, börðu einn, drápu annan og enn einn grýttu þeir.+
36 Hann sendi aðra þræla, fleiri en í fyrra skiptið, en þeir fóru eins með þá.+
37 Að lokum sendi hann son sinn til þeirra því að hann hugsaði með sér: ‚Þeir eiga eftir að virða son minn.‘
38 Þegar vínyrkjarnir sáu soninn sögðu þeir hver við annan: ‚Þetta er erfinginn.+ Komum, drepum hann og náum af honum arfinum.‘
39 Síðan tóku þeir hann, köstuðu honum út fyrir víngarðinn og drápu hann.+
40 Hvað gerir nú eigandi víngarðsins við vínyrkjana þegar hann kemur?“
41 Þeir svöruðu: „Þar sem þeir eru vondir tortímir hann þeim og leigir öðrum vínyrkjum garðinn. Þeir gefa honum síðan ávöxtinn þegar uppskeran er tilbúin.“
42 Jesús sagði við þá: „Hafið þið aldrei lesið í Ritningunum: ‚Steinninn sem smiðirnir höfnuðu er orðinn að aðalhornsteini.*+ Hann er frá Jehóva* og hann er stórfenglegur í augum okkar‘?+
43 Þess vegna segi ég ykkur að ríki Guðs verður tekið frá ykkur og gefið þjóð sem ber ávexti þess.
44 Sá sem fellur á þennan stein tortímist+ og sá sem steinninn fellur á verður sundurkraminn.“+
45 Þegar yfirprestarnir og farísearnir heyrðu þessar dæmisögur skildu þeir að hann átti við þá.+
46 Þeir vildu handtaka hann en óttuðust mannfjöldann því að fólkið leit á hann sem spámann.+
Neðanmáls
^ Sjá viðauka A5.
^ Orðrétt „Hósanna“.
^ Orðrétt „efsta hluta hornsins“.
^ Sjá viðauka A5.