Matteus segir frá 8:1–34
8 Hann gekk nú niður af fjallinu og mikill mannfjöldi fylgdi honum.
2 Holdsveikur maður kom til hans, kraup fyrir honum* og sagði: „Drottinn, þú getur hreinsað mig ef þú bara vilt!“+
3 Jesús rétti þá út höndina, snerti hann og sagði: „Ég vil! Vertu hreinn.“+ Samstundis varð hann hreinn af holdsveikinni.+
4 Síðan sagði Jesús við hann: „Gættu þess að segja engum frá þessu+ en farðu og sýndu þig prestinum+ og færðu fórnina sem Móselögin kveða á um+ til að sanna að þú sért læknaður.“
5 Þegar hann gekk inn í Kapernaúm kom til hans liðsforingi og bað hann innilega:+
6 „Herra, þjónn minn liggur lamaður heima og er sárþjáður.“
7 Jesús sagði við hann: „Ég lækna hann þegar ég kem heim til þín.“
8 Liðsforinginn svaraði: „Herra, ég er ekki þess verðugur að þú komir inn í hús mitt. Segðu bara eitt orð og þá læknast hann.
9 Ég þarf sjálfur að lúta valdi annarra en ræð líka yfir hermönnum. Ég segi einum: ‚Farðu,‘ og hann fer, og öðrum: ‚Komdu,‘ og hann kemur, og við þjón minn segi ég: ‚Gerðu þetta,‘ og hann gerir það.“
10 Jesús varð undrandi þegar hann heyrði þetta og sagði við þá sem fylgdu honum: „Svona sterka trú hef ég ekki fundið hjá neinum í Ísrael.+
11 En ég segi ykkur að margir munu koma úr austri og vestri og sitja* til borðs með Abraham, Ísak og Jakobi í himnaríki+
12 en sonum ríkisins verður kastað út í myrkrið fyrir utan. Þar munu þeir gráta og gnísta tönnum.“+
13 Síðan sagði Jesús við liðsforingjann: „Farðu í friði. Þér verður umbunað fyrir trú þína.“+ Og þjónninn læknaðist á sömu stundu.+
14 Jesús kom í hús Péturs og sá að tengdamóðir hans+ lá veik með hita.+
15 Hann snerti hönd hennar,+ hitinn hvarf og hún fór á fætur og matbjó handa honum.
16 Um kvöldið kom fólk til hans með marga sem voru andsetnir. Hann rak út andana með einfaldri skipun og læknaði alla sem voru veikir.
17 Þannig rættist það sem Jesaja spámaður sagði: „Hann tók á sig veikindi okkar og bar sjúkdóma okkar.“+
18 Þegar Jesús sá mikinn mannfjölda kringum sig sagði hann lærisveinunum að koma með sér yfir vatnið.+
19 Fræðimaður kom þá til hans og sagði: „Kennari, ég vil fylgja þér hvert sem þú ferð.“+
20 En Jesús svaraði: „Refir eiga greni og fuglar himins hreiður en Mannssonurinn á hvergi stað til að halla höfði sínu.“+
21 Þá sagði einn af lærisveinunum við hann: „Drottinn, leyfðu mér að fara fyrst og jarða föður minn.“+
22 Jesús svaraði honum: „Fylgdu mér og láttu hina dauðu jarða sína dauðu.“+
23 Hann steig nú um borð í bát og lærisveinarnir fylgdu honum.+
24 Úti á vatninu skall á stormur og öldurnar gengu yfir bátinn en Jesús svaf.+
25 Þeir vöktu hann þá og sögðu: „Drottinn, bjargaðu okkur! Við erum að farast!“
26 En hann sagði við þá: „Af hverju eruð þið svona hræddir, þið trúlitlu menn?“+ Síðan reis hann upp, hastaði á vindinn og vatnið og allt datt í dúnalogn.+
27 Mennirnir voru agndofa og sögðu: „Hvers konar maður er þetta? Jafnvel vindarnir og vatnið hlýða honum.“
28 Þegar hann kom í Gadarenahérað hinum megin við vatnið komu tveir andsetnir menn til hans frá gröfunum.+ Þeir voru svo ofsafengnir að enginn þorði að fara um veginn sem lá þar hjá.
29 Þeir æptu: „Hvað viltu okkur, sonur Guðs?+ Ertu kominn hingað til að kvelja okkur+ fyrir tímann?“+
30 Langt í fjarska var stór svínahjörð á beit.+
31 Illu andarnir báðu hann: „Sendu okkur í svínahjörðina+ ef þú rekur okkur út.“
32 Hann sagði við þá: „Farið!“ Þá fóru þeir úr mönnunum og í svínin, og öll hjörðin æddi fram af þverhnípinu* og drapst í vatninu.
33 En svínahirðarnir flúðu, fóru inn í borgina og sögðu frá öllu saman, meðal annars því sem hafði gerst hjá andsetnu mönnunum.
34 Allir borgarbúar fóru þá til móts við Jesú og þegar þeir sáu hann sárbændu þeir hann að yfirgefa héraðið.+