Formáli
Biblían hefur að geyma skriflegan boðskap Guðs til okkar mannanna. Við þurfum að kynna okkur hana til að kynnast höfundi hennar. (Jóhannes 17:3; 2. Tímóteusarbréf 3:16) Á síðum Biblíunnar opinberar Jehóva Guð fyrirætlun sína með mennina og heimili þeirra, jörðina. – 1. Mósebók 3:15; Opinberunarbókin 21:3, 4.
Engin önnur bók hefur jafn sterk áhrif á líf fólks. Biblían vekur með okkur löngun til að endurspegla eiginleika Jehóva eins og kærleika, miskunn og samkennd. Hún veitir mönnum von og hjálpar þeim að komast í gegnum hvaða erfiðleika sem er. Og hún afhjúpar þau verk og viðhorf heimsins sem samræmast ekki fullkomnum vilja Guðs. – Sálmur 119:105; Hebreabréfið 4:12; 1. Jóhannesarbréf 2:15–17.
Biblían var upphaflega skrifuð á hebresku, arameísku og grísku en hefur verið þýdd í heild eða að hluta á meira en 3.000 tungumál. Engin bók í sögu mannkyns hefur verið þýdd á jafn mörg tungumál og dreift í eins stóru upplagi. En er það ekki rökrétt? Í biblíuspádómi segir: „Fagnaðarboðskapurinn um ríkið [meginboðskapur Biblíunnar] verður boðaður um alla jörðina til að allar þjóðir fái að heyra hann, og síðan kemur endirinn.“ – Matteus 24:14.
Í ljósi þess hve mikilvægur boðskapur Biblíunnar er hefur það verið markmið okkar að gefa út þýðingu sem er ekki aðeins trú frumtextanum heldur líka skýr og auðlesin. Í viðaukunum „Meginreglur við biblíuþýðingar“, „Helstu einkenni þessarar þýðingar“ og „Hvernig varðveittist Biblían?“ er rætt um sumar af þeim meginreglum sem hafðar voru að leiðarljósi og helstu einkenni þessarar útgáfu.
Þeir sem elska Jehóva Guð og tilbiðja hann vilja hafa aðgang að nákvæmri og auðskilinni þýðingu Biblíunnar. (1. Tímóteusarbréf 2:4) Þess vegna hefur þessi þýðing verið gefin út á íslensku en markmið okkar er að gefa Nýheimsþýðinguna út á sem flestum tungumálum. Kæri lesandi, það er von okkar og bæn að þessi þýðing Biblíunnar komi þér að gagni og hjálpi þér að ‚leita Guðs og finna hann‘. – Postulasagan 17:27.
Þýðingarnefnd Nýheimsþýðingarinnar