A2
Helstu einkenni þessarar þýðingar
Nýheimsþýðing Grísku ritninganna var gefin út á ensku árið 1950 og Nýheimsþýðing Biblíunnar í heild árið 1961. Síðan þá hefur hún verið þýdd á meira en 250 tungumál og tugmilljónir manna hafa notið góðs af þessari auðlesnu en nákvæmu þýðingu úr frummálunum. Nýheimsþýðing Grísku ritninganna kom út á íslensku árið 2019.
Þýðingarnefnd Nýheimsþýðingarinnar gerir sér grein fyrir þörfinni á að Biblían sé á nútímamáli sem nær til hjarta lesandans. Þess vegna voru ákveðnar meginreglur hafðar að leiðarljósi varðandi stíl og orðaforða. Markmiðin voru þessi:
-
Að nota auðskilið nútímamál. Sem dæmi má nefna að í stað orðsins „langlyndi“ er sagt „þolinmæði“. (Galatabréfið 5:22) Ýmis orð sem áður voru talin góð og gild, svo sem „saurlífi“ og „frillulífi“, voru oft notuð í biblíutextum en í þessari þýðingu er frekar talað um „kynferðislegt siðleysi“. (1. Korintubréf 7:2; Galatabréfið 5:19) Orðið „skækja“ víkur fyrir orðinu „vændiskona“. (1. Mósebók 38:15) Og sömuleiðis er frekar talað um „hjúskaparbrot“ en að „drýgja hór“. (Matteus 5:27) Sjaldan er talað um „líkþrá“ núorðið og því er sjúkdómsheitið „holdsveiki“ notað í staðinn. (Matteus 8:2) Að lokum má nefna upphrópunina „vei“ sem er lítið notuð í nútímamáli. Í stað hennar eru farnar leiðir eins og að tala um ógæfu eða að illa fari fyrir einhverjum. – Jesaja 5:11; Lúkas 11:42.
-
Biblíuleg hugtök þýdd á skýran hátt. Sum hugtök sem notuð eru í Biblíunni hafa oft þarfnast nánari skýringar. Sem dæmi má nefna hebreska orðið Sheol og gríska orðið Hades sem eru notuð í frummálum Biblíunnar um almenna gröf mannkyns. (Jobsbók 14:13; Sálmur 6:5; Postulasagan 2:27) Þau hafa oft verið þýdd í íslenskum biblíum sem „hel“, „helja“, „undirheimar“ eða „dánarheimar“. Margir tengja þessi hugtök við framhaldslíf og orðin „hel“ og „helju“ við ríki dauðra samkvæmt norrænni goðafræði. Orðin Sheol og Hades eru þýdd „gröfin“ í samræmi við þá hugmynd sem biblíuritararnir vildu koma á framfæri en frummálsorðin eru nefnd neðanmáls. – Prédikarinn 9:10; Opinberunarbókin 1:18.
Gríska orðið Gehenna hefur verið þýtt „helvíti“ í íslenskum biblíum og flestir skilja það svo að átt sé við stað þar sem fordæmdir kveljist eftir dauðann. (Matteus 5:29; Markús 9:43; Lúkas 12:5) Í þessari þýðingu er frummálsorðið „Gehenna“ látið standa í meginmálinu og neðanmáls er vísað í orðaskýringar þar sem fram kemur hvað átt er við.
1. Mósebók 1:20; 2:7; 3. Mósebók 19:28; Sálm 3:2; Orðskviðina 16:26; Matteus 6:25.) Orðinu „sál“ er þó haldið í meginmálinu í sumum ljóðrænum eða þekktum textum ásamt neðanmálsgrein þar sem vísað er í orðaskýringar eða bent á aðra hugsanlega þýðingu. – 5. Mósebók 6:5; Sálmur 131:2; Orðskviðirnir 2:10; Matteus 22:37.
Hebreska orðið nefes og gríska orðið psykheʹ hafa oft verið þýdd „sál“. Ýmsar ranghugmyndir eru þó uppi um það hvað orðið „sál“ merki. Frummálsorðin geta merkt (1) fólk, (2) líf fólks, (3) dýr, (4) langanir og hungur fólks og í sumum tilfellum jafnvel (5) látið fólk. Þar sem óvenjulegt er að tala um sál í öllum þessum tilfellum eru frummálsorðin þýdd á ýmsa vegu eftir samhengi í þessari þýðingu en orðið „sál“ stundum haft neðanmáls. (Sjá til dæmisOrðið „nýra“ stendur í meginmáli þar sem átt er við líffærið sjálft. Þegar það er hins vegar notað í táknrænni merkingu, eins og til dæmis í Sálmi 7:9 og 26:2 og í Opinberunarbókinni 2:23, er það þýtt „innstu tilfinningar“ eða „innstu hugsanir“ í meginmáli en bókstafleg þýðing er höfð neðanmáls.
Orðið „hjarta“ getur haft bæði bókstaflega og táknræna merkingu í íslensku eins og í hebresku og grísku og er því oft látið halda sér í meginmálinu. Sums staðar hefði þó merkingin orðið óskýr og þá var orðið þýtt með öðrum hætti svo að textinn yrði auðskildari. Í 5. Mósebók 1:28 segir til dæmis orðrétt „létu hjörtu okkar bráðna“ en í meginmáli er það þýtt „drógu úr okkur kjark“. Orðrétta þýðingin er gefin neðanmáls. Önnur orð eins og „hold“, „feiti“ og „horn“ eru meðhöndluð á svipaðan hátt eftir samhengi. (1. Mósebók 2:24; 45:18; Jobsbók 16:15) Fjallað er um sum þessara orða í orðaskýringum.
Gríska orðið staurosʹ er þýtt „kross“ í mörgum biblíuþýðingum. En orðið merkir í raun uppréttur staur eða stólpi eins og Jesús var líflátinn á. Í þessari þýðingu er því orðið „kvalastaur“ notað til að skila réttri merkingu gríska orðsins. (Matteus 27:32; Jóhannes 19:17) Ítarlegri skýringar á gríska orðinu er að finna í orðaskýringum.
-
Að skila réttri merkingu kynbundinna orða. Hebresk og grísk nafnorð eru kynbundin. Ef reynt er að endurspegla kyn frummálsorðanna getur textinn þó orðið misvísandi. Þegar talað er um blandaðan hóp fólks er oft notað karlkynsorð bæði í hebresku og grísku. Svo dæmi sé tekið getur orðasambandið „synir Ísraels“ átt við 12 syni Jakobs en oftar er átt við Ísraelsþjóðina í heild, bæði karla og konur. (1. Mósebók 46:5; 2. Mósebók 35:29) Orðasambandið er því yfirleitt þýtt „Ísraelsmenn“ til að gefa til kynna að átt sé við þjóðina alla. „Föðurlaus drengur“ hefur af sömu ástæðu verið þýtt „föðurlaust barn“ eða „munaðarleysingi“ til að sýna að átt sé við bæði kynin. Sömu sögu er að segja um gríska orðið sem merkir ‚bróðir‘. Fleirtölumyndin er oft notuð til að ávarpa blandaðan hóp og er þess vegna þýdd „bræður og systur“ þar sem við á. Í Biblíunni er líka talað um Guð og son hans og um ýmsa engla og illa anda í karlkyni. Þar er hins vegar ekki talin ástæða til að nota kynhlutlaust mál þó að dæmi séu um að biblíuþýðendur geri það núorðið.
Allar ákvarðanir varðandi þýðingu og orðalag biblíutextans voru teknar að vel athuguðu máli, í bænarhug og með virðingu fyrir því verki sem þýðingarnefnd Nýheimsþýðingarinnar vann í upphafi.
Annað sem einkennir þessa þýðingu:
Í þessari biblíuþýðingu eru allmargar neðanmálsgreinar. Þær skiptast yfirleitt í þessa flokka:
-
„Eða“ Aðrar leiðir til að þýða hebreska, arameíska eða gríska textann sem skila sömu meginhugmynd. – 1. Mósebók 1:2, neðanmálsgrein við „að verki“; Jósúabók 1:8, „lágum rómi“.
-
„Eða hugsanl.“ Aðrar vel grundaðar leiðir til að þýða textann sem skila þó annarri hugmynd en meginmálið. – 1. Mósebók 21:6, „hlæja með mér“; Sakaría 14:21, „Kanverji“.
-
„Orðrétt“ Orðrétt þýðing úr hebresku, arameísku eða grísku eða aðalmerking orðs eða orðasambands í frummálunum. – 1. Mósebók 30:22, „eignast börn“; 2. Mósebók 32:9, „þrjóskt“.
-
Merking og gagnlegar upplýsingar Merking nafna (1. Mósebók 3:17, „Adam“; 2. Mósebók 15:23, „Möru“); upplýsingar um mál og vog (1. Mósebók 6:15, „álna“); undanfari fornafns (1. Mósebók 38:5, „þau“); gagnlegar upplýsingar í viðaukum og orðaskýringum. – 1. Mósebók 37:35, „gröfina“; Matteus 5:22, „Gehenna“.
Á undan sjálfum biblíutextanum er kafli sem nefnist „Kynning á orði Guðs“. Hann inniheldur stutt yfirlit yfir helstu kenningar Biblíunnar. Strax á eftir biblíutextanum er „Yfirlit yfir bækur Biblíunnar“ og „Orðaskýringar“. Orðaskýringarnar hjálpa lesandanum að glöggva sig á fjölda orða og orðasambanda eins og þau eru notuð í Biblíunni. Víðauki A skiptist í eftirfarandi kafla: „Meginreglur við biblíuþýðingar“, „ Helstu einkenni þessarar þýðingar“, „Hvernig varðveittist Biblían?“, „Nafn Guðs í Hebresku ritningunum“, „Nafn Guðs í Grísku ritningunum“, „Yfirlit: Spámenn og konungar í Júda og Ísrael“ og „Helstu atburðir í ævi Jesú á jörð“. Í viðauka B eru kort, skýringarmyndir og annað efni sem kemur biblíunemendum að góðum notum.
Hverri biblíubók fylgir yfirlit yfir alla kaflana með vísunum í viðeigandi vers. Þetta gefur lesandanum heildarmynd af allri bókinni. Á hverri blaðsíðu miðri er dálkur með millivísunum í tengd vers.