HALTU VÖKU ÞINNI
Verið er að eyðileggja jörðina – hvað segir Biblían?
„Við stefnum hratt í loftslagshörmungar. Flóð í stórborgum. Fordæmislausar hitabylgjur. Skelfilegir stormar. Víðtækur vatnsskortur. Milljónir plantna og dýra deyja út. Þetta er hvorki tilbúningur né ýkjur. Þetta er það sem vísindin spá út frá núverandi stefnu í orkumálum.“ – António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna í ræðu um skýrslu milliríkjanefndar um loftslagsbreytingar sem kom út 4. apríl 2022.
„Vísindamenn vara við að á komandi árum nái eyðing af völdum loftslagsbreytinga til næstum allra 423 þjóðgarða [Bandaríkjanna], en þeir eru sérstaklega viðkvæmir fyrir hækkandi hitastigi. Lýsing á þessum ógnum á sér biblíulegt yfirbragð: eldur og flóð, bráðnun jökla, hækkandi sjór og hitabylgjur.“ – „Flooding Chaos in Yellowstone, a Sign of Crises to Come“ í The New York Times 15. júní 2022.
Er hægt að leysa umhverfisvanda jarðarinnar? Og hver leysir hann þá? Skoðaðu hvað Biblían segir um málið.
Umhverfisskaði sagður fyrir
Biblían segir að Guð muni „eyða þeim sem eyða jörðina“. (Opinberunarbókin 11:18) Við lærum þrennt af þessu versi:
1. Verk manna munu fara verulega illa með jörðina.
2. Eyðilegging jarðarinnar mun taka enda.
3. Guð mun leysa umhverfisvanda jarðarinnar, ekki mennirnir.
Framtíð jarðarinnar er örugg
Biblían segir: „Jörðin stendur að eilífu.“ (Prédikarinn 1:4) Hún verður alltaf byggð fólki.
„Hinir réttlátu munu erfa jörðina og búa á henni að eilífu.“ – Sálmur 37:29.
Jörðin mun ná sér að fullu.
„Óbyggðirnar og skrælnað landið munu fagna, eyðisléttan gleðjast og blómstra eins og saffrankrókus.“ – Jesaja 35:1.