Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ahmad Gharabli/AFP via Getty Images

HALTU VÖKU ÞINNI

Geta þjóðirnar sameinast til að koma í veg fyrir loftslagshamfarir? – Hvað segir Biblían?

Geta þjóðirnar sameinast til að koma í veg fyrir loftslagshamfarir? – Hvað segir Biblían?

 Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP27, lauk sunnudaginn 20. nóvember 2022. Þótt samkomulag hafi náðst um að veita þjóðum í viðkvæmri stöðu fjármagn til að stemma stigu við hamförum af völdum loftslagsbreytinga gera margir sér grein fyrir að það leysir ekki rót vandans.

  •   „Ég fagna þeirri ákvörðun að stofna loftslagshamfarasjóð,“ sagði António Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, þann 19. nóvember 2022. „Ljóst er að þetta er ekki nóg … Jörðin okkar er enn á bráðamóttökunni.“

  •   „Heimurinn er enn á barmi loftslagshamfara.“ – Mary Robinson, fyrrverandi forseti Írlands og fyrrverandi mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna, 20. nóvember 2022.

 Ungt fólk hefur sérstaklega miklar áhyggjur af framtíð jarðarinnar. En geta þjóðirnar unnið saman og staðið við loforð sín um að taka á loftslagsvandanum? Hvað segir Biblían?

Eiga þjóðir heims eftir að sameinast og ná árangri?

 Biblían sýnir að þrátt fyrir mikla vinnu og góða viðleitni þjóðanna verði árangurinn af því að reyna að leysa loftslagsvandann takmarkaður. Taktu eftir tveim ástæðum fyrir því:

  •   „Það sem er bogið getur ekki orðið beint.“ – Prédikarinn 1:15.

     Hvað þýðir það? Stjórnir eru takmörkum háðar vegna þess að mönnum var ekki ætlað að stjórna sér sjálfir. (Jeremía 10:23) Þó að þjóðirnar sameinuðust gætu þær ekki leyst vandamál heimsins, þrátt fyrir góða viðleitni.

  •   „Menn verða eigingjarnir, elska peninga … ósáttfúsir.“ – 2. Tímóteusarbréf 3:2, 3.

     Hvað þýðir það? Biblían sagði réttilega fyrir að margir á okkar dögum yrðu eigingjarnir og ófúsir til að vinna saman öðrum til gagns.

Ástæða til bjartsýni

 En framtíð jarðarinnar er ekki háð loforðum mannlegra stjórna. Guð hefur skipað hæfan stjórnanda yfir heiminn, Jesú Krist. Biblían segir um hann:

  •   „Stjórnvaldið mun hvíla á herðum hans. Hann verður nefndur Undraráðgjafi, Máttugur guð, Eilífðarfaðir, Friðarhöfðingi.“ – Jesaja 9:6, neðanmáls.

 Jesús er konungur í ríki Guðs á himni. (Matteus 6:10) Hann hefur mátt, visku og löngun til að annast jörðina og íbúa hennar. (Sálmur 72:12, 16) Undir forystu hans mun þessi himneska stjórn bæði stöðva þá sem eru að „eyðileggja jörðina“ og gera jörðina aftur heilbrigða. – Opinberunarbókin 11:18, neðanmáls; Jesaja 35:1, 7.

 Lestu greinina „Loftslagsbreytingar og framtíð okkar – hvað segir Biblían?“ til að fræðast meira um varanlega lausn á skaðlegum loftslagsbreytingum.