Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

HALTU VÖKU ÞINNI

Flóttamannavandinn – milljónir flýja Úkraínu

Flóttamannavandinn – milljónir flýja Úkraínu

 Hersveitir Rússa réðust inn í Úkraínu 24. febrúar 2022. Neyðarástand hefur skapast þar sem fjöldi almennra borgara er í hættu og reynir að flýja stríðsátökin. a

 „Við heyrðum mikla hvelli og sprengingar. Þetta var svo ógnvekjandi að það er erfitt að lýsa því. Þegar við fréttum að lestir væru að flytja fólk burt ákváðum við að fara. Við þurftum að koma öllu lífi okkar fyrir í einum litlum bakpoka. Það eina sem við gátum tekið voru mikilvæg skjöl, lyf, vatn og nesti. Allt annað skildum við eftir og flýttum okkur út á lestarstöð meðan sprengjurnar féllu.“ – Natalja frá Karkív í Úkraínu.

 „Fram á síðustu stundu trúðum við ekki að stríð myndi skella á. Ég heyrði í sprengingum í öðrum borgarhlutum og gluggarnir nötruðu. Ég ákvað að flýja og tók bara með mér það allra nauðsynlegasta. Ég fór að heiman klukkan átta um morguninn og tók lest til Lvív og síðan rútu til Póllands.“ – Nadja frá Karkív í Úkraínu.

Í þessari grein

 Hverjar eru raunverulegar orsakir flóttamannavandans?

 Þessi flóttamannavandi er tilkominn vegna innrásar Rússa í Úkraínu. En Biblían leiðir í ljós að undirrót allra slíkra hörmunga liggur dýpra:

  •   Stjórnir manna um heim allan hafa brugðist mannkyninu. Þeir sem fara með völd beita oft yfirráðum sínum til að kúga og undiroka. – Prédikarinn 4:1; 8:9.

  •   Satan Djöfullinn, „stjórnandi heimsins“, hefur gríðarleg áhrif á mannkynið, svo mikil að Biblían segir: „Allur heimurinn er á valdi hins vonda.“ – Jóhannes 14:30; 1. Jóhannesarbréf 5:19.

  •   Ýmis vandamál hafa hrjáð mannkynið öldum saman. En Biblían sagði fyrir um þá tíma sem við lifum nú: „Á síðustu dögum verða hættulegir og erfiðir tímar.“ (2. Tímóteusarbréf 3:1) Þetta tímabil átti að einkennast af stríðum, náttúruhamförum, matarskorti og farsóttum – atburðum sem ýta undir straum flóttafólks. – Lúkas 21:10, 11.

 Hvar geta flóttamenn fundið von?

 Biblían leiðir í ljós að skapari okkar, Jehóva, b er kærleiksríkur Guð sem finnur til með flóttamönnum og þeim sem þurfa að yfirgefa heimili sín. (5. Mósebók 10:18) Hann lofar að leysa öll vandamál flóttamanna með himneskri ríkisstjórn sinni, Guðsríki. Sú ríkisstjórn kemur í stað allra stjórna manna. (Daníel 2:44; Matteus 6:10) Jehóva mun ryðja Satan Djöflinum úr vegi. (Rómverjabréfið 16:20) Ríki Guðs mun fara með völd um alla jörð og útrýma þeirri sundrung sem stafar af landamærum. Þá verður allt mannkynið ein sameinuð fjölskylda. Enginn mun nokkurn tíma þurfa að flýja að heiman. Í Biblíunni er að finna þetta loforð: „Þá munu menn sitja óhræddir, hver undir sínum vínviði eða fíkjutré. Svo hefur Drottinn allsherjar mælt.“ – Míka 4:4.

 Aðeins ríki Guðs getur leyst flóttamannavandann í eitt skipti fyrir öll. Jehóva ætlar að útrýma öllum þeim vandamálum sem hrekja fólk á flótta. Lítum á nokkur dæmi:

 Getur Biblían hjálpað flóttafólki?

 Já. Biblían getur ekki aðeins veitt flóttafólki örugga von um framtíðina heldur getur hún líka hjálpað því að takast á við núverandi erfiðleika.

 Biblían segir: „Einfaldur maður trúir öllu en skynsamur maður íhugar hvert skref.“ – Orðskviðirnir 14:15.

 Hvernig gagnast það? Reyndu að koma auga á hættulegar aðstæður og hugleiddu hvað þú getur gert til að forðast þær. Vertu á verði gagnvart glæpamönnum sem reyna að notfæra sér óöryggi og reynsluleysi flóttafólks í nýju umhverfi.

 Biblían segir: „Ef við höfum mat og fatnað skulum við … láta okkur það nægja.“ – 1. Tímóteusarbréf 6:8.

 Hvernig gagnast það? Forðastu að einblína á efnislega hluti. Maður verður ánægðari ef maður lætur sér nægja að hafa nauðsynjar.

 Biblían segir: „Allt sem þið viljið að aðrir geri fyrir ykkur skuluð þið gera fyrir þá.“ – Matteus 7:12.

 Hvernig gagnast það? Vertu þolinmóður og vingjarnlegur. Þá áttu auðveldara með að ávinna þér virðingu og aðlagast nýju umhverfi.

 Biblían segir: „Gjaldið engum illt með illu.“ – Rómverjabréfið 12:17.

 Hvernig gagnast það? Svaraðu ekki í sömu mynt ef aðrir koma illa fram við þig. Það gerir bara illt verra.

 Biblían segir: „Ég get tekist á við hvað sem er vegna hans sem gefur mér kraft.“ – Filippíbréfið 4:13.

 Hvernig gagnast það? Láttu sambandið við Guð skipa mikilvægan sess í lífi þínu og biddu til hans. Hann getur gefið þér kraft til að halda út.

 Biblían segir: „Verið ekki áhyggjufull út af neinu heldur segið Guði frá öllu sem ykkur liggur á hjarta með því að biðja innilega til hans og þakka honum. Friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun þá vernda hjörtu ykkar og huga.“ – Filippíbréfið 4:6, 7.

 Hvernig gagnast það? Biddu Guð að gefa þér hugarró, sama hvernig aðstæður eru. Fjallað er nánar um það í greininni „Philippians 4:6, 7 – ,Do Not Be Anxious About Anything.‘

a Daginn eftir innrásina lýsti flóttamannafulltrúi Sameinuðu þjóðanna yfir hæsta neyðarstigi vegna átakanna. Á innan við 12 dögum höfðu meira en tvær milljónir flóttamanna flúið til nágrannalanda og önnur milljón hafði flúið til annarra landshluta.

b Jehóva er nafn Guðs. (Sálmur 83:18) Sjá greinina „Hver er Jehóva?