Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

HVERNIG ERU FRAMLÖGIN NOTUÐ?

Umdæmismót sem við getum „heyrt og séð“

Umdæmismót sem við getum „heyrt og séð“

1. JÚLÍ 2024

 Vottar Jehóva hafa nú á dögum komið saman á árleg umdæmismót í meira en 130 ár. Á dagskránni eru nú orðið yfir 40 ræður auk tónlistar, viðtala og myndbanda. Til að dagskráin komi að gagni og hvetji viðstadda þarf hún að ‚heyrast og sjást‘ vel. (Lúkas 2:20) Hvernig eru framlögin notuð þannig að mótin komi öllum að gagni óháð því hvar þeir búa?

Hljóð- og myndbúnaður er lagaður að hverjum mótsstað fyrir sig

 Margir leikvangar á vesturlöndum eru þegar með hljóð- og myndbúnað. Hvers vegna setjum við þá oft upp eigin búnað þegar við leigjum slíka leikvanga? David, sem starfar við tækni- og útsendingardeildina á höfuðstöðvum okkar, segir: „Fáir staðir sem við leigjum eru hannaðir fyrir áheyrendur sem hlusta af athygli í meira en sex klukkustundir á dagskrá sem er að mestu leyti tal. Íþróttaleikvangar nota til dæmis hátalarakerfin aðallega fyrir stuttar tilkynningar og tónlistarbúta. Skjáirnir sýna leikstöðu og auglýsingar auk þess að endursýna búta úr leikjunum. Við viljum hins vegar að áheyrendur horfi á lengri myndbönd og heyri greinilega og skilji allt sem sagt er á sviðinu.“

 Engir tveir mótsstaðir eru eins og þess vegna þarf að laga hljóð- og myndbúnaðinn að hverjum stað. Um leið og búið er að velja mótsstaði ákveða tækni- og útsendingardeildir deildarskrifstofanna hvar áheyrendur munu sitja miðað við pláss og áætlaðan fjölda mótsgesta. Bræðurnir reikna síðan út hvar hátalarar og skjáir þurfa að vera staðsettir, ákveða hvernig skuli tengja þá og búa svo til lista yfir allan búnað sem þarf til að tryggja að allir geti heyrt og séð dagskrána.

Bræður í tækni- og útsendingardeildinni fylgja vandlega úthugsaðri áætlun.

 Þörf er á enn flóknari hljóð- og myndbúnaði á mótum þar sem dagskráin er flutt á fleiri tungumálum. Ef dagskráin er túlkuð á annað mál þarf að sjá túlkunum fyrir hljóði og mynd og síðan er túlkunin send út á sér útvarpsrás fyrir þá sem hlusta á það mál. Sérstakir margmiðlunarspilarar gera mögulegt að samstilla myndbönd fyrir alla áheyrendur þó að hljóðið sé sent út á allt að átta tungumálum samtímis. „Þessi búnaður er mjög flókinn,“ segir David. „Og sjálfboðaliðarnir sem stýra honum þurfa mikla þjálfun.“

 Flestar deildarskrifstofur eiga hljóð- og myndbúnað sem er notaður á hverju ári. Þar sem svo er sjá bræðurnir um flutning á hverjum búnaði fyrir sig á milli mótsstaða. Deildarskrifstofan í Bandaríkjunum einum ver meira en 200.000 bandaríkjadölum árlega í flutning á mótsbúnaði. En það sparar okkur að kaupa og viðhalda meiri búnaði. Steven hafði umsjón með hljóð- og myndbúnaði á móti í Kanada. Hann segir: „Hljóð- og myndteymið okkar gerði sitt besta til að sjá til þess að gert væri grein fyrir hverri einustu ró, skrúfu, leiðslu og hlut. Gætt var að öllu og því pakkað niður á öruggan hátt svo að það væri tilbúið fyrir næstu notkun.“

Kaup og viðhald á búnaði

 Það er gríðarlega dýrt að leigja hljóð- og myndbúnað. Slíkur búnaður er auk þess oft lélegur og illa við haldið. Þess vegna kaupum við yfirleitt þann búnað sem við þurfum. Fyrir stuttu kostaði fimm sinnum þriggja metra risaskjár til notkunar innandyra um 24.000 bandaríkjadali, og ein 15 metra löng snúra fyrir hljóðnema kostar um 20 bandaríkjadali. Þess vegna vinnur hljóð- og mynddeildin með innkaupadeildinni til að ‚reikna kostnaðinn‘ áður en nokkur búnaður er keyptur. (Lúkas 14:28) Bræðurnir spyrja sig til dæmis hve margir eigi eftir að nota búnaðinn. Er besta lausnin að kaupa búnaðinn? Eigum við geymslurými fyrir hann og höfum við mannskap og verkfæri til að viðhalda honum?

 Til að auka endingu hljóð- og myndbúnaðar, og þar með spara fjárframlög sem hafa verið gefin, yfirförum við tækin reglulega. Við flytjum þau auk þess í sterkum kössum til að draga úr hættu á skemmdum og þessir kassar eru líka yfirfarnir reglulega.

Hljóð- og myndbúnaður sem er vel haldið við endist lengur.

Góður vitnisburður og skýr dagskrá

 Fólk sem er ekki vottar hefur verið hrifið af hljóð- og myndgæðunum á mótunum okkar. Til dæmis talaði starfsmaður einnar af stærstu útvarps- og sjónvarpsstöðvum heims um gæði efnisins á einu af umdæmismótunum okkar. „Hann var steinhissa þegar hann komst að því að allir í teyminu okkar væru ólærðir sjálfboðaliðar,“ segir Jonathan, en hann aðstoðar við að setja upp og stjórna hljóð- og myndbúnaði á mótum. „Hann sagði að það myndi taka fyrirtækið sitt fimm daga að setja upp búnað sem við vorum ekki nema einn og hálfan dag að setja upp.“ Á öðrum mótsstað sagði forstöðumaðurinn: „Það hafa margir fagmenn í tónlist og myndböndum verið hérna en ég hef aldrei séð aðra eins fagmennsku og sérfræðikunnáttu!“

Bræður og systur njóta dagskrárinnar.

 Hvernig hefur þú notið góðs af hljóð- og myndbúnaðinum á mótunum okkar? Kannski er þér innanbrjósts eins og David sem býr á Englandi. Hann segir: „Ég er 88 ára og hef sótt mót alla ævi. En það hefur aldrei verið eins auðvelt fyrir mig að einbeita mér að efninu. Það er fallegu myndböndunum að þakka að dagskráin er fljót að líða og efnið er samræmdara og skýrara.“ Micheal, sem býr í Nígeríu, segir: „Trúsystkini okkar eiga ekki lengur erfitt með að heyra í ræðumanninum og sjá myndböndin. Þau geta þess vegna einbeitt sér að efninu og missa ekki athyglina af dagskránni.“

 Taktu þér smá stund til að hugsa um hvað liggur á bak við það að þú gast heyrt og séð dagskrána á umdæmis- eða sérmótinu „Boðum fagnaðarboðskapinn“ á þessu ári. Við erum þakklát fyrir að framlögin ykkar, meðal annars þau sem eru send inn gegnum donate.pr418.com, hafa gert þetta mögulegt. Takk fyrir.