Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

LÍF OKKAR Í KRISTINNI ÞJÓNUSTU

Notaðu myndskeið til að kenna biblíunemendum þínum

Notaðu myndskeið til að kenna biblíunemendum þínum

Sýnigögn grípa athygli áhorfandans og hjálpa honum að skilja og muna það sem hann hefur lært. Jehóva hefur notað sýnigögn til að kenna mikilvæg sannindi. (1. Mós. 15:5; Jer. 18:1-6) Jesús, kennarinn mikli, notaði líka þessa aðferð. (Matt. 18:2-6; 22:19-21) Ein tegund sýnigagna er myndskeið en þau hafa reynst mjög vel undanfarin ár. Nýtir þú þér myndskeiðin vel þegar þú ert að kenna biblíunemendum þínum?

Tíu myndskeið hafa verið gerð til að hjálpa okkur að fara yfir kaflana í bæklingnum Gleðifréttir frá Guði. Í flestum tilfellum samsvarar heiti myndskeiðsins einni af feitletruðu spurningunum í bæklingnum. Rafræn útgáfa bæklingsins hefur að geyma krækjur til að minna okkur á hvenær hentar að sýna myndskeiðin. Auk þess eru önnur myndskeið í verkfærakistunni okkar sem má nota með ýmsum öðrum námsritum.

Þú ert ef til vill að ræða við biblíunemanda þinn um viðfangsefni í Biblíunni sem hann á erfitt með að skilja. Nemandinn gæti verið að glíma við ákveðna erfiðleika. Leitaðu í myndskeiðunum á jw.org® og í Sjónvarpi Votta Jehóva til að finna myndskeið sem gæti komið honum að gagni. Þú gætir kannski horft á eitt þeirra með nemanda þínum og rætt síðan um það.

Við fáum ný myndskeið í hverjum mánuði. Þegar þú horfir á þau skaltu íhuga hvernig þú gætir notað þau þegar þú kennir öðrum.