Herpes og AIDS í sviðsljósinu
Herpes og AIDS í sviðsljósinu
„MÉR liður eins og ég væri holdsveik. Hver myndi vilja mig ef ég segði honum að ég væri með ólæknandi sjúkdóm sem getur borist við kynmök?“ Svo spurði einstaklingur sem haldinn var hinum margumrædda herpes-sjúkdómi. Hann er útbreiddur í Bandaríkjunum, Kanada, Evrópu og Japan. Samkvæmt skýrslum í Bandaríkjunum er talið að hann hrjái á bilinu 200 til 500 þúsund einstaklinga ár hvert. Læknir einn áætlaði að „í Kanada séu greind árlega 20 til 50 þúsund ný herpestilfelli.“
Hvað veldur allri þessari eymd? Læknavísindin segja að það sé veira sem er aðeins einn meðlimur stórrar herpes-„fjölskyldu.“ Hlaupabóla og ristill (útbrotaveiki) eru tveir algengir sjúkdómar sem herpesveirur valda. Sú sem veldur bóluútþotum á kynfærum er lík (stundum eins) veirunni sem veldur hinum venjulega áblæstri sem fólk fær á varirnar. En þegar herpes leggst á kynfærin hefur hinn þjáði venjulega (þó ekki alltaf a) smitast af veirunni á ákveðinn hátt — við kynmök við annað fórnarlamb herpes-sjúkdómsins.
Þrem til sjö dögum eftir sýkingu tekur fórnarlambið eftir sviða í kynfærum eða þar um kring — fyrirboði um sársaukafull bóluútþot. Bóluútþotin kvelja fórnarlamið í tvær til sex vikur áður en þau hverfa. En herpes-sjúkdómurinn er ekki læknaður. Læknar segja að hann hopi aðeins meðfram taugum í líkamanum og taki sér bólfestu í taugþyrpingum við rætur hryggjarins. Þar liggur hann í dvala þar til
eitthvað (svo sem streita) vekur hann til lífs á ný. Nú, vaknaður til lífsins, fer hann til baka meðfram taugunum út að húðinni og þjáningarnar byrja á nýjan leik.Hættulegustu áhrif herpes-sjúkdómsins eru kannski þau sem hann hefur á tilfinningalíf hins þjáða. Dr. Oscar Gillespie segir: „Stærsta vandamálið við herpes er ekki fyrst og fremst veiran sjálf heldur það hvernig návist hennar getur valdið ótta, efasemdum og truflunum í hinu daglega lífi.“ Eitt fórnarlambanna sagði: „Það er afar erfitt að lýsa reiði-, sektar- og vanmáttarkennd þess sem er með herpes. Ég held að enginn geti skilið hana nema annað fórnarlamb sjúkdómsins.“ En tilfinningastríðið lengir aðeins þjáningarnar, oft með því að hleypa sjúkdómnum upp aftur.
Hvers vegna hann er kallaður ólæknandi
Hvers vegna ræðst ónæmiskerfi líkamans ekki einfaldlega gegn þessari veiru og yfirbugar hana? Læknar segja að herpesveiran umflýi slík örlög með því að festa sig við frumu, þrengja sér í gegnum frumuhýðið og fela sig síðan þar. Óhult inni í frumunni tekur hún skjótlega völdin af „heila“ hennar og breytir frumunni í ósvikna herpes-verksmiðju! Á bilinu 80.000 til 120.000 nýjar veirur eru búnar til á þrem til fimm klukkustundum. Frumuveggurinn brestur síðan og út streymir her hættulegra veira sem berast með blóðstraumnum og sýkja fleiri frumur.
Af þessu má sjá hvers vegna læknar segja að svo erfitt sé að ráða niðurlögun herpes. Einhvern veginn þyrfti að vera hægt að komast inn í sýkta frumu til að drepa veiruna. Annar möguleiki væri að drepa sýktar frumur án þess að skaða heilbrigðar. Ekki er að undra að læknavísindin skuli vera ráðþrota. (Sjá rammann til vinstri.) Nýlegar fregnir herma að verið sé að prófa bóluefni gegn herpes sem gefi örlitla vonarglætu. En þótt slíkt kunni að geta hjálpað milljónum þegar fram í sækir, hvað um þá sem nú þegar ganga með sjúkdóminn?
AIDS — nýr samræðissjúkdómur?
„Í starfi mínu sem læknir hef ég aldrei kynnst nokkru jafn-vonlitlu og dapurlegu,“ hafði tímaritið Newsweek eftir dr. Peter Mansell. Hann var að tala um sjúkdóm sem hefur vakið mikla athygli út um allan heim: AIDS (áunnin ónæmisbæklun). Sjúkdómurinn lýsir sér þannig að ónæmiskerfi líkamans verður óvirkt. Fórnarlömb hans fá sjaldgæfar tegundir krabbameins og lungnabólgu.
Hversu útbreiddur er AIDS-sjúkdómurinn orðinn? Þegar þetta er skrifað eru liðlega 4000 tilfelli b til á skrám í Bandaríkjunum einum. Að minnsta kosti 32 önnur lönd hafa einnig skýrt frá AIDS-tilfellum. Lönd, sem fram til þessa hafa verið svo til laus við sjúkdóminn, til dæmis Japan, hafa búið sig undir að takast á við hann — til öryggis.
Dánartíðni AIDS-sjúklinga er gríðarlega há. Yfir 60 af hundraði þeirra sem sjúkdómurinn var fyrst greindur hjá dóu innan árs. Sumir óttast þó að allir AIDS-sjúklingar deyi fyrr eða síðar af völdum hans. Einkennin eru þó nógu sakleysisleg í fyrstu, einna líkust inflúensu ásamt máttleysi og því að sjúklingurinn grennist. Því miður, eins og dr. Frederick P. Siegal segir, ‚er leiknum yfirleitt lokið þegar AIDS-sjúklingurinn kemst undir læknishendur.‘
Að því er forráðamenn CDC-stofnunarinnar í Bandaríkjunum segja eru kynvillingar (sem hafa mök við marga) í mestri hættu að fá AIDS. Dreyrasjúkir og fíkniefnaneytendur, sem sprauta sig, eru einnig í hættu. c En með því að um það bil 70 af hundraði AIDS-sjúklinga eru kynvillingar leikur sterkur grunur á að sjúkdómurinn berist oftast við kynmök.
AIDS-æðisfát
„Óttinn breiðist miklu örar út en sjúkdómurinn,“ sagði tímaritið Discover. Fyrirsagnir svo sem „AIDS getur borist við snertingu“ hafa eflaust átt þátt í að ýta undir þennan ótta:
● Starfsmenn spítala hafa neitað að meðhöndla AIDS-sjúklinga. d
● Útfararfyrirtæki hafa verið treg til að smyrja lík AIDS-sjúklinga.
● Lögreglumönnum í San Francisco í Kaliforníu voru fengin lífgunartæki og gúmmihanskar til að forðast AIDS-sýkingu þegar þeir væru að veita fyrstu hjálp.
● Tæknimenn neituðu að tengja hljóðnema fyrir AIDS-sjúkling sem hafa átti viðtal við í sjónvarpi. Tilgangur sjónvarpsþáttarins var að draga úr óttanum við AIDS.
● Hjá AIDS-símaþjónustu „hefur ekki linnt fyrirspurnum um hvort hægt væri að fá AIDS af handföngum í neðanjarðarlestum eða af salernissetum sem kynvillingar nota.“
Samfélag kynvilltra fann þó mest fyrir þessum ótta. Vínstofur og baðhús fyrir kynvillta skýrðu frá lélegum viðskiptum vegna ótta manna við að fá AIDS. Og sökum þess að kynvillingar, sem hafa mök við marga, eru í mestu hættunni gerðu jafnvel sumir róttækar breytingar á lífsháttum sínum. Fáir, ef nokkrir, létu hræða sig til að snúa algerlega við blaðinu. En sumir hafa forðast mök við hvern sem er og tekið upp „einkvænis“-samband.
Það er samt sem áður fórnarlamb sjúkdómsins sem má þola hina raunverulegu angist. Nágrannar og vinnufélagar koma fram við AIDS-fórnarlambið sem útskúfað, elskhugar sniðganga það og auk þess þarf það að horfast í augu við þá vitneskju að það sé með ólæknanadi sjúkdóm. „Þetta bara vofir yfir manni,“ sagði AIDS-sjúklingur. „Það er alltaf þessi þjakandi vissa að einn góðan veðurdag veikist maður af einhverju nýju sem bæklað ónæmiskerfi ræður ekki við.“
Ljóst er því að óttinn við AIDS er ekki tilefnislaus þótt viðbrögð almennings séu kannski að einhverju leyti úr hófi. AIDS er lævís morðingi. Og skýrslur þess efnis að sjúkdómurinn geti borist til þorra manna með blóðgjöfum hafa vakið enn frekari ótta og reiði. (Sjá rammann á blaðsíðu 18.) e Kynvillingar eru því fórnarlömb ekki aðeins fjandskapar heldur líka hættulegra lífshátta.
[Neðanmáls]
a Dæmi eru um að fólk geti fengið bóluútþot á fingurna við það að snerta herpes-sár. Þannig geta þeir af slysni flutt sjúkdóminn til annarra líkamshluta, til dæmis kynfæranna, með því að snerta þá.
b Hugsanlegt er að ekki séu öll skráð AIDS-tilfelli sami sjúkdómurinn, því að einkenni hans geta verið æði ólík, Á hinn bóginn er einnig mögulegt að útbreiðsla AIDS sé verulega vanmetin því að margir óttast þann smánarblett sem honum fylgir.
c Fulltrúi CDC-stofnunarinnar skýrði Vaknið! frá því að fyrri kenningar um Haítíbúa og AIDS af völdum „voodoo-heilgisiða“ ættu ekki við rök að styðjast.
d CDC-stofnunin hefur gefið út varúðarreglur fyrir starfsmenn á læknastofum og rannsóknarstofum, jafnvel þótt hún fullyrði að AIDS-sýking „af völdum snertingar virðist ekki líkleg.“ Varúðarreglurnar eru á þá lund meðal annars að nota skuli hanska við meðhöndlun blóðsýna úr AIDS-sjúklingum, að hent skuli nálum sem notaðar eru fyrir AIDS-sjúklinga og að klæðast skuli skurðstofusloppum.
e Þann 23. apríl 1984 var tilkynnt að tekist hefði að einangra veiruna sem álitin er valda AIDS. Komið getur að því að örugg prófunaraðferð til að finna AIDS-mengað blóð uppgötvist. Það kemst þó ekki nærri í jafnkvisti við lækningu á sjúkdómnum.
[Innskot á blaðsíðu 20]
Dr. Frederick P. Siegal segir: „Leiknum er yfirleitt lokið þegar AIDS-sjúklingurinn kemst undir læknishendur.“
[Innskot á blaðsíðu 20]
Áfallið af því að fá samræðissjúkdóm hefur komið mörgum til að skoða lauslæti í nýju ljósi.
[Rammi á blaðsíðu 18]
Lækning á herpes?
Læknar segja að falskar lækningar á herpes hafi ekki aðeins vakið falskar vonir heldur í sumum tilfellum hreinlega gert illt verra. Sem dæmi um það sem CDC-stofnunin telur gagnslaust eru bóluefni, mótefnisörvandi lyf, C, E og B12 vítamín, sérstakt mataræði, sink, mjólkursýrugerlar (acidophilus) í töfluformi, steroid-krem og ljósmeðferð.
En hvers vegna segja svo margir að þessi „læknisráð“ hafi hjálpað þeim? Læknar minna okkur á hvað virðist hleypa herpes upp á ný — streita og áhyggjur. Svo til allt sem róar einstaklinginn og dregur úr áhyggjum hans getur virst lækna sjúkdóminn — um stund. Yfirleitt er það þó aðeins spurning um tíma hvenær herpes-veiran, sem hefur legið í dvala og hreiðrað um sig inni í frumunum, ákveður að gera árás á ný. Að sjálfsögðu eru sumar af þessum meðferðum umdeildar, en hyggilegt er að kynna sér meðferðina rækilega áður en farið er í hana.
Enn sem komið er virðast læknavísindin ekki geta boðið upp á neitt betra en að vinna gegn einkennunum. Lyfið acyclovir hefur til dæmis verið viðurkennt til notkunar í Bandaríkjunum, og það virðist flýta fyrir því að bóluútþotin grói. En, því miður, það kemur ekki í veg fyrir að einkennin gjósi upp á ný!
Læknar gefa þeim sem haldnir eru herpes ýmis góð ráð sem geta líka linað kvölina. Hvíld, heit böð, umbúðir, ísbakstrar og það að halda sárunum þurrum er talið gagnlegt, þótt það sé alls ekki lækning.
[Rammi á blaðsíðu 19]
AIDS og blóð
Fyrst voru það hinir dreyrasjúku. Lyfið við sjúkdómi þeirra (storknunarþáttur VIII) er fengið úr blóði hundruða blóðgjafa. Þegar því sumir dreyrasjúkra fengu AIDS beindist brunurinn strax að blóði. Síðan fékk ungt barn, sem fengið hafði blóð úr AIDS-sjúklingi, einnig sjúkdóminn. Þótt líkurnar á því að fá AIDS með blóðgjöf virtust litlar varaði CDC-stofnunin eigi að síður við því að „þeir sem væru í AIDS-áhættuhópunum [einkum kynvillingar] ættu að forðast að gefa blóðvökva og/eða blóð.“
Að fá blóðgjafana fúslega til samvinnu hefur hins vegar verið hægara sagt en gert. Og kynvillingar hafa hrópað „misrétti!“ þegar stungið hefur verið upp á að þeim yrði bannað að gefa blóð. Evrópskir læknar hafa því talað um að banna innflutning á bandarískum blóðafurðum, og sumir sjúklingar hafa neitað að láta gefa sér blóð!
Óttinn við að AIDS gæti borist með blóðtökunálum olli jafnvel tímabundinni skelfing meðal blóðgjafa. Taldmaður blóðsöfnunarsamtaka í New York tjáði Vaknið! að þeim sem gefa blóð hefði fækkað um 25 af hundraði í júlí 1983. Það hefði gerst þrátt fyrir að notaðar væru dauðhreinsaðar nálar geymdar í loftþéttum umbúðum sem væru brotnar og hent eftir notkun.
Þótt prófun, sem greint hefur verið frá fyrir skömmu, geti komið í veg fyrir að gefið sé AIDS-sýkt blóð, hefur AIDS-hræðslan minnt almenning á að ýmis alvarleg hætta sé samfara blóðgjöfum.
[Skýringarmynd á blaðsíðu 17]
(Sjá uppraðaðann texta í blaðinu)
1. stig: Herpes-veiran festir sig við frumu og þrengir sér í gegnum hýði hennar.
FRUMUVEGGUR
FRUMUKJARNI
FRUMU-DNA
HERPESVEIRA
VEIRU-DNA
2. stig: Veiran tekur völdin af frumukjarnanum og lætur hann framleiða herpes-veirur í þúsundatali.
FRUMUKJARNI EYÐILAGÐUR
VEIRUKJARNI
NÝ VEIRA
VEIRU-DNA
3. stig: Frumuveggurinn rifnar og hleypir út tugþúsundum veira.
FRUMUVEGGUR